Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist ekki hafa aðgang að þeim gögnum sem liggja til grundvallar útgjaldarömmum ólíkra málefnasviða í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Lýsti Benedikt þeirri skoðun sinni að ef kallað yrði eftir slíkum gögnum væri í raun verið að „skemma ferlið með fjármálaáætlun“.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, kvaddi sér hljóðs í fyrirspurnatímanum og benti á að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki að finna upplýsingar um hvernig útgjöld innan einstakra málefnasviða skiptast.
„Hvorki þingmenn né fastanefndir hafa fengið aðgang að þessum upplýsingum um hvað sé mögulegt að gera við allt þetta fjármagn, hvað eigi að gera við það, hvað sé áætlað að gera við það. Án þessara upplýsinga er ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun um hvort fjármálaáætlun sé farsæl fyrir landsmenn og hvort vel sé farið með skattfé. Tölurnar liggja fyrir en við fáum ekki aðgang að þeim við þessa ákvarðanatöku,“ sagði hann og spurði: „Hefur hæstvirtur fjármálaráðherra aðgang að þessum upplýsingum sem liggja til grundvallar þessari áætlun? Ef ekki, mun hann þá ekki óska eftir slíkum aðgangi? Ef ráðherra hefur þann aðgang, eða þegar hann fær þann aðgang, mun hann jafnframt veita okkur þingmönnum aðgang?“
Benedikt svaraði því til að ráðuneytin legðu fram tillögur um ramma útgjaldasviða í fjármálaáætlun. Haft væri í huga hver fjárframlögin hefðu verið í fortíðinni þegar gerðar væru tillögur um einstaka liði. Hann sagðist hins vegar sjálfur ekki hafa „aðgang að þessum gögnum, sundurliðuðum úr einstökum ráðuneytið“ og bætti við:„Ég hef ekki þessi gögn og í sjálfu sér ef við förum að skipa fyrir um það þá erum við svolítið að skemma ferlið með fjármálaáætlun af því að þar erum við að tala um hinn breiða ramma. En við vitum auðvitað hvernig fénu hefur verið varið til þessa. Það vita allir nokkurn veginn í hvað fjárlög fara.“ Loks varaði Benedikt við því að hugmyndafræðinni á bak við fjármálaáætlun yrði kastað fyrir róða. „Ég tel að það sé í raun og veru verið að spilla fyrir hugmyndafræðinni bak við þetta ef við förum að hugsa þetta sem einstakar fjárveitingar á þessu stigi málsins, svo ég svari spurningu háttvirts þingmanns.“
Athugasemdir