„Ég ber fullt traust til Sigríðar Bjarkar í embætti hennar sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.“ Þetta segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn Stundarinnar um stöðu lögreglustjórans.
Innan ráðuneytisins hefur verið farið yfir úrskurð Persónuverndar um miðlun upplýsinga um málefni hælisleitanda milli lögreglunnar á Suðurnesjum og ráðuneytisins. Eins og fram kom í fréttum á föstudag braut Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, 11. og 12. grein laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi innanríkisráðherra, persónuupplýsingar um málefni hælisleitandans Tony Omos. „Við munum taka til skoðunar þær ábendingar sem úrskurðurinn hefur að geyma til að tryggja sem best öryggi upplýsinga sem falla undir persónuverndarlögin. Það er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar,“ segir í svari Ólafar.
Athugasemdir