Birkir Kristinsson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Glitni og landsliðsmarkvörður í fótbolta, mætti í gær á Kvíabryggju til að afplána sinn dóm. Hann hóf afplánun í Hegningarhúsinu í upphafi viku. Samkvæmt heimildum Stundarinnar kom hann til Kvíabryggju um áttaleytið í gærkvöld. Hæstiréttur staðfesti dóm yfir Birki í upphafi mánaðar. Hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsisvist fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga vegna 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 árið 2007. BK-44 var í eigu Birkis.
Ásamt Birki voru Elmar Svavarsson, Jóhannes Baldursson og Magnús Arnar Arngrímsson dæmdir í málinu. Magnús fékk tveggja ára dóm, Jóhannes fékk þriggja ára dóm meðan Elmar fékk fjögurra ára dóm. Óvíst er hvenær þeir byrja afplánun.
Fáir staðir voru umtalaðri á árinu en fangelsið Kvíabryggja en hver útrásarvíkingurinn á fætur öðrum var sendur þangað í betrunarvist. Dómur féll í Hæstarétti í Al Thani-málinu í febrúar og svo fór að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fékk fimm og hálft ár, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, fékk fimm ár, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fékk þrjú ár og Ólafur Ólafsson, fyrrverandi aðaleiganda Kaupþings, fékk þrjú og hálft ár. Rými er fyrir 23 fanga á Kvíabryggju og er því ljóst að það styttist í að bankamenn verði fjórðungur fanga í fangelsinu.
Athugasemdir