Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, og fangi á Kvíabryggju fær ekki að vera viðstaddur útskrift sína frá Verslunarskóla Íslands á föstudaginn. Fangelsismálayfirvöld tilkynntu honum þetta í gær.
Skólastjórnendur Verslunarskólans höfðu gert ráð fyrir að Guðmundur yrði viðstaddur útskriftina ásamt fjölskyldu sinni. Skólastjóri og fjarnámsstjóri segja að hann sé, frá þeirra bæjardyrum séð, hjartanlega velkominn og því sjónarmiði var komið á framfæri við fangelsismálayfirvöld í morgun.
Guðmundur hefur afplánað dóm fyrir fíkniefnasmygl undanfarin ár og sinnt fjarnámi frá Verslunarskóla Íslands. Hann var upptekinn þegar Stundin náði tali af honum en staðfesti að hann hefði gert ráð fyrir að útskrifast við hátíðlega athöfn í Verslunarskólanum á föstudag ásamt fjölskyldu sinni. Guðmundi var tilkynnt í gær að hann fengi það ekki og var honum sagt að hann gæti kært ákvörðunina til innanríkisráðuneytisins. Áður hafa fangar fengið að vera viðstaddir útskrift sína en það tíðkast ekki lengur.
Athugasemdir