Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, flytur síðar í dag úr herbergi sínu á gangi aðalhúss fangelsisins á Kvíabryggju yfir í einbýlishús þar sem þrír fangar dvelja að jafnaði.
Nokkur gremja er í föngum þess vegna, þar sem aðrir fangar hafi verið fyrri til að óska eftir að fara í húsið á undan honum. Magnús situr af sér fjögurra og hálfs árs dóm vegna Al-Thani málsins.
Talsverð umbun felst í því að vera færður í gamla einbýlishúsið, sem var áður heimili fangelsisstjóra. Langflestir fangar á Kvíabryggju dvelja á ganginum í aðalbyggingu fangelsisins. Á ganginum er talsvert minna næði en í húsinu. Fangar í húsinu þurfa ekki að skila farsíma og tölvu á kvöldin. Enn fremur hafa fangar sér eldhús og stofu sem þýðir að þeir þurfa ekki að bíða eftir matmálstíma og geta fengið sér að borða þegar þá lystir.
Líkt og fyrr segir er rými fyrir þrjá fanga í húsinu og fyrir er þar Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, auk annars fanga sem ekki er hægt að kenna við hvítflibba. Að jafnaði dvelja 23 fangar á Kvíabryggju.
Athugasemdir