Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri í Luxemburg, og Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskips og einn stærsti hluthafi Kaupþings, losna úr fangelsinu á Kvíabryggju í dag.
Þeir hafa afplánað um eitt ár af fjögurra til fimm ára dómi vegna efnahagsbrota í aðdraganda hrunsins.
Síðar í dag verða þeir færðir á áfangaheimilið Vernd og njóta frelsis umfram það að þurfa að vera á áfangaheimilinu á næturna. Eftir það fara þeir á rafrænt eftirlit.
Þetta varð mögulegt eftir lagabreytingu sem gekk í gegn í mars.
Lagabreyting veitir aukið frelsi
Titringur er vegna málsins þar sem fangarnir fá helmingi lengri tíma undir rafrænu eftirliti en áður var leyfilegt, samkvæmt nýjum lögum um fullnustu refsinga. Frumvarpið breyttist í meðferð allsherjarnefndar, sem lagði til þá breytingu að í stað þess að fangar fengju 2,5 dag í rafrænu eftirliti fyrir hvern dæmdan mánuð eru það nú fimm dagar. Þá geta þeir sem dæmdir eru í tólf mánaða óskilorðbundið fangelsi nú verið 60 daga undir rafrænu eftirliti, í stað 30 daga áður. Breytingarnar gera það að verkum að fangar fara nú fyrr en áður í rafrænt eftirlit og losna þar af leiðandi fyrr út úr fangelsi.
Alþingi samþykkti breytinguna í síðasta mánuði. Breytingarnar voru samkvæmt heimildum Stundarinnar samþykktar í flýti og er Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sögð hafa barist fyrir að lagabreytingin yrði samþykkt.
„Virtist vera smíðað utan um þá“
„Mér fannst þessi lagabreyting ekki tímabær í ljósi stöðunnar varðandi þessa tilteknu fanga. Þetta virtist vera smíðað utan um þá. Ég er samt í sjálfu sér fylgjandi því að við aukum notkun rafræns eftirlits. En það þarf að taka þá umræðu og ákveða hvaða brot eiga að falla undir þetta. Ég er sammála fangelsismálastjóra sem lýsti andstöðu sinni fyrir nefndinni,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nefndarmaður í allsherjarnefnd og þingmaður VG, sem var andvíg þessari breytingu.
Þess má geta að í lögunum er einnig ákvæði um að kaflinn um rafrænt eftirlit skuli endurskoðaður ekki seinna en 1. júní á þessu ári. Vekur furðu að við endurskoðun heildarlaga, skuli vera ákvæði um að ákveðinn hluti laganna verði endurskoðaður innan þriggja mánaða.
Stærstu mistökin að treysta á kerfið
Kaupþingsmennirnir þrír eru þeir sömu og hafa kvartað undan fangelsismálastjóra til Umboðsmanns Alþingis vegna ummæla hans við fjölmiðla og vegna þess að kvikmyndagerðarmaðurinn Michael Moore fékk aðgang að fangelsinu á Kvíabryggju.
Þeir Ólafur, Sigurður og Magnús komu fram í viðtali við Stöð 2 í janúar þar sem þeir lýstu óánægju sinni með dómskerfið.
„Menn gerðu þau stóru mistök, lögmenn og við, að við treystum á kerfið. Við treystum dómstólum og lögðum á það traust að Hæstiréttur myndi alltaf dæma samkvæmt lögum. Þarna eru okkar mistök. Við áttum strax í upphafi að ganga út frá því að kerfið héldi ekki,“ sagði Ólafur í viðtalinu.
Enn með mál í kerfinu
Hæstiréttur dæmdi Kaupþingsmennina fjóra í febrúar í fyrra fyrir alvarleg efnahagsbrot í aðdraganda hrunsins. Þeir hófu afplánun stuttu síðar. Sigurður fékk fjögurra ára dóm. Magnús og Ólafur fengu fjögurra og hálfs árs fangelsi. Félagi þeirra, Heiðar Már, fékk fimm og hálfs árs fangelsi og situr eftir á Kvíabryggju við brotthvarf félaga sinna í dag.
Auk þess var Sigurður Einarsson dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur síðasta sumar í „Stóra markaðsmisnotkunarmálinu“ til eins árs refsiauka. Málinu var áfrýjað og er því ekki komin endanleg niðurstaða í lengd fangelsisvistar Sigurðar Einarssonar þótt hann sé nú laus af Kvíabryggju.
Eigur þremenninganna hafa þegar verið sóttar á Kvíabryggju og er áætluð brottför þeirra klukkan tvö í dag. Þeir eru væntanlegir á Vernd síðar í dag.
Athugasemdir