Alþýðusambandið sendi út ranga fréttatilkynningu í gær þar sem fullyrt var að fjöldi lífeyrisþega myndi þurfa að endurgreiða Tryggingastofnun umtalsverðar fjárhæðir vegna mistaka sem urðu við breytingar á almannatryggingalögum síðasta haust. Eins og áður hefur komið fram ollu mistökin því að samkvæmt lagabókstafnum hefðu tekjur úr lífeyrissjóðum ekki átt að gilda til skerðingar á ellilífeyri eins og stefnt var að. Í janúar og febrúar fór Tryggingastofnun eftir vilja löggjafans en ekki lagabókstafnum, en rétt framkvæmd laganna hefði kostað hið opinbera um 5 milljarða króna. Mistökin voru leiðrétt með afturvirkri lagasetningu í gærkvöldi.
Fréttatilkynning Alþýðusambandsins, sem vakti talsverða í gær og rataði í frétt á RÚV, byggði á þeirri forsendu að Tryggingastofnun hefði fylgt lögum við útgreiðslu ellilífeyris í janúar og febrúar. „Fjöldi lífeyrisþega mun nú þurfa að endurgreiða Tryggingastofnun umtalsverðar fjárhæðir. Málið hefur verið afgreitt úr velferðarnefnd þingsins með miklu flýti án þess að nægilegt tækifæri hafi gefist til umræðu og umsagna,“ sagði í tilkynningunni sem upphaflega birtist á vef ASÍ undir yfirskriftinni „Lífeyrisþegar borga fyrir mistök Alþingis“.
Stundin sendi Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, tölvupóst um hádegisleytið í gær og benti á að tilkynningin væri á skjön við upplýsingar sem fram hefðu komið á Alþingi. Spurt var hvort raunin væri virkilega sú að ellilífeyrisþegar þyrftu að endurgreiða Tryggingastofnun umtalsverðar fjárhæðir. Tölvupóstinum var ekki svarað og enn hefur fréttatilkynning ASÍ ekki verið leiðrétt. Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar Alþingis, fullyrti í umræðum á þinginu í gærkvöldi að „einhverjir hafi séð hag sinn í að dreifa röngum fréttum um meintar endurgreiðslur“. Þegar hún var spurð nánar út í ummæli sín sagðist hún vona að umræddir aðilar hefðu gert mistök.
Fréttatilkynning ASÍ stóð óbreytt í allan gærdag og hvorki velferðarráðuneytið né Tryggingastofnun gerðu athugasemdir við hana opinberlega fyrr en í morgun. „Ljóst er að mistökin munu ekki leiða til þess að lífeyrisþegar þurfi að greiða til baka til TR, eins og ranglega hefur verið haldið fram í fjölmiðlum,“ segir í tilkynningu sem birtist á vef Tryggingastofnunar í dag. Velferðarráðuneytið tekur í sama streng: „Leiðrétting Alþingis á mistökum sem urðu þegar breytingar voru gerðar á lögum um almannatrygginga 25. október sl. munu ekki hafa neinar afleiðingar í för með sér fyrir lífeyrisþega, líkt og ranglega er haldið fram í yfirlýsingu sem ASÍ sendi frá sér í gær. Engar ofgreiðslur hafa átt sér stað og engan þarf að krefja um endurgreiðslur.“
Athugasemdir