Samtökin Aktívistar gegn nauðgunarmenningu hafa gefið út yfirlýsingu vegna niðurfellingar héraðssaksóknara á máli sem varðar mennina tvo sem kærðir voru fyrir að nauðga konu í íbúð í Hlíðunum. Í yfirlýsingunni er konan sem kærði mennina ávörpuð:
„Vegna fregna af frávísun í nauðgunarmáli kenndu við Hlíðarnar senda undirritaðar hlutaðeigandi konu/þolanda baráttu- og samúðarkveðjur. Það er þyngra en tárum taki að horfa uppá enn eitt málið í þessum brotaflokki enda með frávísun, en líkt og fram hefur komið er sönnunarbyrði þessara mála þung og landslagið sem horfir við þolendum óvægið og gerendavænt með meiru. Við þig, hugrakka kona (og aðra þolendur í svipaðri stöðu), viljum við segja eftirfarandi: Þú ert ekki ein, við stöndum með þér og hugsum hlýtt til þín. Skömminni hefur þú skilað á sinn stað með kærunni og fyrir það máttu vera stolt af sjálfri þér, þetta krefst mikils styrks. Mundu einnig að frávísun máls er ekki sýkna. Einnig viljum við senda konunni sem á málið sem er enn til meðferðar hjá saksóknaraembættinu baráttukveðjur.
Aktívistar gegn nauðgunarmenningu: María Lilja Þrastardóttir, Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir, Linda Björk Eiríksdóttir, Benedikta Ketilsdóttir, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, Sóley Tómasdóttir, Steinunn Ýr Einarsdóttir, Elísabet Ýr Atladóttir, Ósk Gunnlaugsdóttir, Birgitta Sigurðardóttir, Hildur Guðbjörnsdóttir, Bjarndís Helga Tómasdóttir, Hugrún Jónsdóttir, Áslaug Hauksdóttir, Særún Magnea Samúelsdóttir, Aðalheiður Jóhannsdóttir, Bára Jóhannesdóttir Guðrúnardóttir, Sigrún Huld Skúladóttir, Fjóla Dísa Skúladóttir, Brynhildur Björnsdóttir, Saga Kjartansdóttir, Erla E. Völudóttir, Edda Ýr Garðardóttir, Guðný Elísa Guðgeirsdóttir, Helga D. Í. Sigurðardóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Sóley Björk Stefánsdóttir“
Fer fram á skaðabætur
RÚV greindi frá því fyrr í dag að héraðssaksóknari hefði fellt niður annað mál sem varðar mennina tvo kærðir voru fyrir að nauðga konu í íbúð í Hlíðunum. Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp og var það einna helst vegna lýsingar Fréttablaðsins á íbúðinni sem var sögð „útbúin til nauðgana“. Mennirnir voru ekki látnir sitja gæsluvarðhaldi og vakti það mikla reiði. Mótmæli fóru fram fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu og voru mennirnir nafngreindir á samfélagsmiðlum.
Þess ber að geta að um var að ræða tvær nauðgunarkærur og er önnur þeirra enn til meðferðar hjá héraðssaksóknara. Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður mannanna, hefur fram á 20 milljónir króna í skaðabætur frá Fréttablaðinu. Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri Fréttablaðsins, sagði á sínum tíma að fréttin hefði verið „bara góð blaðamennska“ og sá enga ástæðu til að biðjast afsökunar eða greiða skaðabætur. „Það er eitt að kæra en annað þegar búið er að ákæra og niðurstaða liggur fyrir í dómsmáli - fjölmiðlar verða að fara sér hægt í að sakfella menn á síðum blaðanna og fólk ætti ekki að setjast of snemma í dómarasætið,“ hefur RÚV eftir Vilhjálmi sem segist ætla að halda til streitu skaðabótamálinu.
Vilhjálmur Hans hefur ennfremur kært konurnar tvær fyrir rangar sakargiftir og aðra þeirra fyrir kynferðisbrot.
Athugasemdir