Þannig kæri vinur verðum við að heyja [þetta stríð]: við verðum að drepa alla karlmenn sem náð hafa fimmtán ára aldri [og] hirða konur þeirra og börn … Í einu orði sagt skulum við útrýma öllum þeim sem ekki skríða fyrir fótum okkar eins og hundar.“
Þetta er ekki úr tölvupósti sem njósnastofnanir nútímans hafa fiskað upp úr ljósvakanum og fór milli hryðjuverkamanna Daesh eða Íslamska ríkisins. Þetta er sem sagt ekki til marks um viðurstyggilegt hugarfar sem fylgi íslam. Þetta var skrifað af Lucien nokkrum de Montagnac, og hann var ofursti í franska hernum. Og þeir sem hann taldi að þyrfti svo nauðsynlega að drepa voru íbúar í Alsír árið 1843.
Þegar þetta er skrifað er margt enn á huldu um hryðjuverkin viðurstyggilegu í París föstudagskvöldið 13. nóvember. En þar sem ansi oft kemur í ljós að hryðjuverkamenn í Frakklandi eigi sér norðurafrískan og iðulega alsírskan uppruna, þá fór ég að kanna sögu Frakklands og Alsír en tæp 200 ár eru síðan Frakkar gerðu tilefnislausa innrás í Alsír og hófu það stríð sem De Montagnac háði af svo mikilli áfergju. Af orðum hans – sem gætu allt eins verið verið höfð eftir Daesh-mönnum nútímans – má til dæmis sjá að það eru ekki trúarbrögð sem slík sem blása mönnum í brjóst þeirri grimmd sem í orðunum birtast; De Montagnac var að sjálfsögðu virðulega kristinn og kaþólskur. Það tók Frakka mörg ár að brjóta Alsíringa undir sig og þeir sýndu mikla hörku – ofurstinn skrifaði til dæmis líka: „Við brenndum, drápum og lögðum allt í rúst … við eltum þá uppi hvar sem þá var að finna, hrifsuðum konur þeirra, börn, búfénað … Við höldum nokkrum kvennanna í gíslingu en skiptum á hinum fyrir hross og afganginn seljum við á uppboði eins og múlasna.“
Þessir Alsíringar höfðu þó ekkert til saka unnið nema reyna að verja land sitt fyrir innrásarher.
Eftir að hafa brotið alla andstöðu á bak aftur beittu Frakkar sér fyrir miklu landnámi Evrópubúa í Alsír. Alsíringar sjálfir voru sviptir löndum sínum svo Evrópumennirnir kæmust að. Þessir Evrópubúar voru seinna kallaðir „svartfætlingar“ eða „Pied-Noir“ af óljósum ástæðum. Upphaflega voru þeir fyrst og fremst franskir en seinna komu Spánverjar, Ítalir, Grikkir, Maltverjar og fleiri Evrópubúar til sögunnar. Til svartfætlinga fóru einnig að teljast Gyðingar sem höfðu raunar verið búsettir á svæðinu lengi og fallið ágætlega inn í samfélagið. Þótt alls ekki allir svartfætlingar hafi verið vel stæðir má segja að þeir hafi verið sannkölluð yfirstétt í Alsír, ekki ósvipað og hvítir menn í Suður-Afríku á tímum Apartheidstefnunnar. Frönsk yfirvöld kúguðu Alsíringa mjög markvisst á ýmsan hátt, skattpíndu þá og neituðu þeim um pólitísk réttindi sem smátt og smátt voru færð svartfætlingum. Frakkar lögðu til dæmis niður skóla Alsíringa sjálfra á 19. öld svo læsi – sem hafði verið mjög almennt – hrundi niður úr öllu valdi. Í kringum aldamótin komu Frakkar hins vegar upp nýju menntakerfi þar sem áhersla var lögð á að kenna Alsíringum frönsku og innleiða franska menningu meðal þeirra. Þannig hugðust þeir smátt og smátt laga alsírsku þjóðina – eða réttara sagt lítinn hluta hennar – að Frökkum. Þessi hópur var kallaður „évolués“ og svo kaldhæðnislega vildi til að þeir og afkomendur þeirra urðu einmitt með tímanum helstu framámenn sjálfstæðisbaráttu þeirra gegn Frökkum sem hófst í Alsír er nokkuð var liðið á 20. öldina og óx mjög fiskur um hrygg á fjórða áratugnum og ekki síst í seinni heimsstyrjöldinni. Á hinn bóginn sýndu sveitir Alsíringa, sem teknar voru í franska herinn, Frakklandi oft og tíðum alveg ótrúlegt trygglyndi. Alsíringar börðust með Frökkum í stríðinu við Þjóðverja 1870 og síðan í báðum heimsstyrjöldunum á 20. öld og meira að segja þegar sjálfstæðisstríðið braust út voru þessar hersveitir oftar en ekki tryggar Frökkum. Þá gengu þessir alsírsku hermenn undir nafninu „harkísar“.
Eftir heimsstyrjöldina mátti flestum vera ljóst að nýlenduveldi Evrópustórveldanna voru á fallanda fæti. Í sumum tilfellum viðurkenndu stórveldin það greiðlega og veittu nýlendum sjálfstæði fyrirhafnarlítið, en í sumum tilfellum þurfti blóðugt stríð við. Svo var því miður í Alsír. Frakkar sýndu engin merki þess að ætla að veita athygli æ háværari sjálfstæðiskörfum Alsíringa og þá fóru baráttusamtök þeirra, FLN, að safna vopnum. Alsírsstríð hófst svo á allraheilagramessu 1. nóvember 1954 þegar skæruliðasveitir FLN gerðu 30 samræmdar árásir á margvísleg skotmörk. Sjö manns létu lífið og voru fimm þeirra af frönskum uppruna. Jafnframt voru birtar heitstrengingar frá FLN um að nú væri hafin barátta sem ekki yrði látin niður falla fyrr en Frakkar væru á burt frá landinu. Franska ríkisstjórnin brást mjög hart við. Frakkar voru nýbúnir að gefa nýlendur sínar í Suðaustur-Asíu upp á bátinn eftir að hafa tapað stríði við Víetnama og ætluðu sér ekki að missa Alsír út úr höndunum líka. Því var lýst yfir að Alsír væri óaðskiljanlegur hluti Frakklands og ekki kæmi til mála að slíta sambandið milli landanna. Næstu átta árin geisaði svo grimmilegt skæruliðastríðið í landinu. Frakkar höfðu yfirburði í mannafla og búnaði og smátt og smátt náðu þeir að þjarma mjög illilega að FLN og forystu samtakanna. En þá fengu Frakkar að reyna það sem alltaf verður á endanum reynsla þeirra sem reyna að berjast við skæruliðahreyfingu sem nýtur stuðnings almennings. FLN var eins og skrímslið Medúsa úr grískum goðsögunum – um leið og Frakkar töldu sig vera búnir að höggva haus skrímslisins af, þá spruttu upp tveir nýir í staðinn og þannig koll af kolli. Og með öllum sínum hernaði gerðu Frakkar á endanum ekki annað en efla stuðning Alsíringa við FNL og um leið vekja æ meiri andstöðu við þennan stríðsrekstur heima fyrir. Margir Frakkar voru að vísu sammála því að Alsír hefði verið svo lengi undir franskri stjórn og þar væru svo margir íbúar af frönsku (eða evrópsku) þjóðerni að það væri mesta synd að veita landinu sjálfstæði, en með tímanum jókst stuðningur við Alsíringa, ekki síst meðal menntamanna sem höfðu mikil áhrif í Frakklandi. Rithöfundurinn Albert Camus lenti þar milli steins og sleggju, hann hafði samúð með málstað Alsíringa en tilheyrði sjálfur svartfætlingum og reyndi lengi að tala fyrir einhvers konar millibilslausn, sem fæli í sér sjálfstjórn Alsírs, en ekki fullt sjálfstæði, en eftir því sem stríðið dróst á langinn kom betur í ljós að ekkert slíkt kæmi til mála.
„Í einu orði sagt skulum við útrýma öllum þeim sem ekki skríða fyrir fótum okkar eins og hundar.“
Stríðsreksturinn varð á endanum tilefni svo mikilla vandræða í Frakklandi að hið svokallaða fjórða lýðveldi féll árið 1958 af því stjórnvöld voru þess engan veginn umkomin að reka stríðið. Þá tók við fimmta lýðveldið en aukið vald forsetaembættisins átti þá að auðvelda stjórnvöldum að leiða stríðið til lykta. Forsetinn var Charles de Gaulle hershöfðingi og framan af ætlaði hann sannarlega ekki að veita Alsír sjálfstæði. Franski herinn vann mikil grimmdarverk í Alsír og þegar 30.000 Alsíringar í París fóru í mótmælagöngu í október 1961 lét lögreglustjóri borgarinnar skjóta á gönguna, og létu þar líklega 200 manns lífið. En FLN stóð líka fyrir viðbjóðlegum hryðjuverkum og má nefna að í júlí 1962 var ráðist að svartfætlingum í Oran og þúsundir manna týndu lífi í skelfilegu blóðbaði. Þá var þó séð fyrir endannn á stríðinu. Þegar FLN hóf hryðjuverk í Frakklandi hafði De Gaulle ákveðið að nóg væri komið og hafið friðarsamninga við Alsíringa. Það mætti gífurlegri mótspyrnu innan franska hersins og nokkrir hershöfðingjar ráðgerðu meira að segja valdarán frekar en að gefa Alsír upp á bátinn og síðan hófu þeir sjálfir hryðjuverk í Frakklandi og morðtilræði við De Gaulle – en allt kom fyrir ekki, stríðsreksturinn í Alsír naut ekki lengur stuðnings frönsku þjóðarinnar. Fréttir um mjög umfangsmiklar pyntingar á föngum sem franski herinn og leyniþjónustan stunduðu höfðu til dæmis vakið sannkallaðan viðbjóð í Frakklandi og víðar. Og það var því á árinu 1962 sem stríðinu lauk og Alsír hlaut sjálfstæði. Tæp milljón svartfætlinga flúði frá Alsír til að forðast hefndaraðgerðir FLN og hinna nýju stjórnvalda og reyndu Frakkar að taka við þeim öllum, þótt lítt undirbúnir væru. Á hinn bóginn skeyttu Frakkar lítt eða ekki um harkísana sem höfðu barist með þeim gegn Alsíringum, löndum sínum. De Gaulle forseti beitti sér meira að segja sérstaklega gegn því að harkísarnir fengju að flytjast til Frakklands. Um 90.000 harkísar komust engu að síður til Frakklands en talið er að allt að 150.000 hafi týnt lífi í ægilegum hefndaraðgerðum FLN gegn þeim eftir að þeir nutu ekki lengur verndar franska hersins. Harkísum og ættingjum þeirra var til dæmis mjög att út á jarðsprengjusvæði til að „hreinsa“ þau. Einnig var „vinsælt“ að drepa harkísa með því að neyða þá til að gleypa orður sem þeir höfðu fengið hjá frönskum yfirboðurum sínum í hernum.
Bæði Frakkland og Alsír voru lengi í sárum eftir þetta grimmilega stríð, þótt sár Frakka hafi reyndar fyrst og fremst verið á sálinni. Þeir áttu erfitt með að horfast í augu við hegðun stjórnvalda sinna og hers í Alsír og í áratugi var Alsírstríðið feimnismál í Frakklandi. Í Alsír hefur gengið á ýmsu eftir að sjálfstæðið vannst. Landið var beinlínis í rúst, bæði eftir stríðsátökin og flótta svartfætlinganna sem höfðu verið driffjaðrir atvinnulífs í landinu. Ben Bella leiðtogi FLN varð forseti, honum var svo steypt af stóli eftir tvö ár. Aðrir einræðisherrar tóku við hver af öðrum og reyndu að byggja landið upp úr rústum stríðsins. Það gekk hægt en í lok níunda áratugarins var landið að færast í átt til lýðærðis. Kennarar sem fluttir höfðu verið inn frá Miðausturlöndum höfðu hins vegar breitt út bókstafstrú og í kosningum 1991-1992 var einsýnt að íslamistaflokkur næði völdum. Þá voru sett neyðarlög og borgarastríð braust út. Það varð verulega grimmilegt og bæði íslamistar og hermenn stjórnvalda frömdu ægileg hryðjuverk. Eftir tæpan áratug var þróttur íslamistar þorrinn að mestu og borgarastríðið dó út. Abdelaziz Bouteflika hefur verið forseti Alsírs frá 1999. Þar á að heita lýðræði en það stendur nú vart undir nafni. Þokkaleg kyrrð ríkir þó í landinu og lífskjör almennings eru yfirleitt viðunandi. Róstur í kjölfar „arabíska vorsins“ 2011 urðu ekki verulegar.
Stór hluti frönsku þjóðarinnar af alsírskum uppruna
Mjög stór hluti Frakka er af alsírsku bergi brotinn. Sumir telja að allt að fimm til sex milljónir Frakka geti rakið ættir sínar til Alsír, en það þýðir að um er að ræða hátt í tíu prósent þjóðarinnar. Framan af var einkum um að ræða afkomendur harkísanna, en fljótlega eftir að Alsír fékk sjálfstæði fóru venjulegir Alsíringar líka að streyma til Frakklands í atvinnuleit og margir kusu að setjast að í landinu. Og hvað sem líður öllu frjálslyndi Frakka, víðsýni og upplýsingu, þá fór svo að fólk af alsírskum uppruna situr flestallt fast í lægri stigum fransks samfélags. Aðeins einn Frakki af alsírskum ættum hefur orðið sannkölluð þjóðhetja í Frakklandi: fótboltamaðurinn Zinedine Zidane sem leiddi Frakka til heimsmeistaratitils í fótbolta árið 1998.
Athugasemdir