Svona var sagan þegar ég heyrði hana fyrst:
Konstantínus hét göfugur keisarasonur í Rómaveldi. Hann ólst upp á tímum þegar grimmilegar ofsóknir gegn kristnum mönnum voru enn alsiða í ríkinu en Konstantínus skildi ekki hvers vegna hinir kristnu þurftu að gjalda fyrir trú sína á Krist með lífi sínu. Hann sá ekki betur en kristindómurinn snerist um kærleikann einan, og dáðist að trúfestu píslarvottanna sem kusu heldur að deyja en afneita trúnni á herra sinn. Og hann íhugaði að draga úr ofsóknunum þegar hann yrði keisari.
Þegar faðir Konstantínusar dó risu upp tveir grimmir keppinautar sem vildu hrifsa til sín ríki hans. Báðir voru ráðnir í að halda áfram ofsóknum á hendur kristnum mönnum af fullum krafti. Nú gerðist það að lokum að annar keppinautanna, Maxentíus að nafni, hafði náð sjálfri Rómaborg og til að verja föðurleifð sína þurfti Konstantínus að sækja að honum þar. Dag nokkurn bjóst Konstantínus um með her sinn við ána Tíber skammt fyrir norðan Róm. Ljóst var að daginn eftir myndi hans sækja yfir svonefnda Milvíubrú inn í borgina en hinir grimmu hermenn Maxentíusar biðu við brúarsporðinn til að varna honum vegar. Þá birtist Konstanínusi sýn á himni. Sjálfur Jesús Kristur birtist honum í dýrðlegum ljóma og hélt frelsarinn á stórum skínandi krossi og mild rödd hans hljómaði: „Undir þessu merki muntu sigra!“ Þetta hafði svo djúp áhrif á Konstantínus að í morgunsárið daginn eftir lét hann festa krossmark Krists á búninga allra hermanna sinna og þegar þeir sóttu síðan að Milvíubrú var eins og hermenn Maxentíusar hrykkju af þeim, slíkur var eldmóður þeirra.
Þarna vann Konstantínus frægan sigur, hann komst yfir brúna og náði Róm og ekki leið á löngu þar til hann hafði sigrast á báðum keppinautum sínum og unnið allt ríkið undir merki krossins. Var svo öllum ofsóknum á hendur kristnum mönnum þegar í stað hætt en kristni leyfð í öllu ríkinu og breiddist hratt út. Konstantínus varð mildur og farsæll stjórnandi sem ríkti í áratugi og á síðari hluta ferilsins gat hann lagt af alla hermennsku en undi sér best við rökræður um guðfræðileg málefni og dýrð Krists við presta og biskupa. Og var valdatími Konstanínusar sannkölluð sælutíð í sögu Rómaveldis og orð Krists hljómuðu um hvern krók og kima ríkisins.
Í einhverjum gömlum sunnudagaskólabókum lærði ég í æsku þessa útgáfu af ævi og ferli Konstantínusar keisara í Róm og hvernig það vildi til að Rómverjar tóku kristni.
Í jólamánuði er auðvitað full ástæða til að rifja það upp.
Auðvitað var það samt ekki svona.
Ofsóknir gegn kristnum mönnum hefjast á ný
Árið 235 hófust miklir róstutímar í Rómaveldi. Hver valdaræninginn úr röðum hersins af öðrum reis upp gegn keisara sínum en flestir stóðu mjög stutt við í hásætinu áður en þeim var svo sjálfum steypt af stóli. Næstu 49 árin eru 26 keisarar skráðir í Rómaveldi en meðal þeirra mætti nefna marga aðra uppreisnarmenn og keisaraefni sem ekki náðu alveg alla leið. Árið 284 rændi einn herforinginn enn völdum. Hann hét Díokletíanus, maður af lágum stigum, fæddur þar sem nú heitir Króatía og ekki óhugsandi að faðir hans hafi á sínum tíma verið þræll. Til að rjúfa vítahring hinna stöðugu valdarána og borgarastyrjalda greip Díokletíanus til róttækra stjórnkerfisbreytinga. Hann taldi að ríkið væri orðið of fjölmennt og svifaseint til að einn maður gæti ráðið öllu og bjó því til svokallaða „fjórstjórn“ þar sem tveir aðalkeisarar fóru með helstu völd, annar í austri en hinn í vestri. Þeim til aðstoðar væru svo tveir undirkeisarar.
Þessi djarfa tilraun til að auka einingu ríkisins með því að skipta stjórn þess upp var þó ekki eina umbótaáætlun Díokletíanusar. Hann gerði margt fleira, en þar á meðal var að þjarma að kristnum mönnum og krefjast þess að þeir færðu hinum hefðbundnu rómversku guðum fórnir.
Miklum sögum hefur gjarnan farið af ofsóknum Rómverja gegn frumkirkjunni og kristnum mönnum. Ótal frásagnir eru til um dýrðlega píslarvotta sem voru gjarnan brenndir á báli, krossfestir eða jafnvel húðflettir lifandi af hinu grimmheiðna rómverska ríki frekar en að afneita Kristi sínum. Á síðari tímum hefur niðurstaða sagnfræðinga orðið sú að sögurnar um þessar ofsóknir séu stórkostlega ýktar. Rómverska ríkið sjálft hafi nánast aldrei haft forystu um víðtækar ofsóknir. Stundum hafi blossað upp hálfgerð uppþot í einstökum héruðum þar sem einhverjir kristnir menn hafi fallið í valinn, en einnig eru þess dæmi að slíkur trúareldmóður hafi stundum gripið kristna söfnuði að menn hafi nánast krafist þess að vera teknir af lífi fyrir trú sína.
Díokletíanus hóf hins vegar raunverulegar ofsóknir. Ástæðan var sennilega ekki andstaða hans við kristna kenningu í sjálfu sér, heldur var fremur um að ræða markvissa tilraun til að auka sameiningarþótt ríkisins með því að hefja „gömul gildi“ til vegs og virðingar á ný. Þegar kristnir menn vildu ekki taka þátt í því með því að færa gömlu guðunum fórnir, þá lét Díokletíanus banna kristindóminn úr ríkinu, fangelsa og drepa presta og alls er talið um að 20.000 kristnir menn hafi látið lífið á 30 ára stjórnartíma Díókletíanusar. Athyglisvert er hins vegar að eftir að Díokletíanus skipti upp stjórn ríkisins, eins og fyrr var nefnt, var ofsóknunum aðeins viðhaldið á þeim svæðum í austri sem Díokletíanus sjálfur og undirkeisari hans réðu. Í vestri voru kristnir menn alveg látnir í friði.
Þar réði félagi Díokletíanusar á stóli aðalkeisara, gamall vopnabróðir hans úr hernum sem Díokletíanus hafði hafið til vegs og virðingar í þakklætisskyni við veitta aðstoð meðan hann var að brjótast til valda. Konstantíus Klórus hét þessi maður og var líkt og Díokletíanus af fátæku alþýðufólki á Balkanskaga en komst til metorða með hermennsku. Klórus átti soninn Konstantínus sem fæddist líklega árið 272 í bæ sem nú heitir Niš í sunnanverðri Serbíu. Móðir Konstanínusar kann að hafa verið frá Litlu-Asíu sem nú heitir Tyrkland.
Hættulegir keppinautar kristindómsins
Díokletíanus sagði af sér keisaraembætti árið 305 og settist í helgan stein í þeirri borg sem nú heitir Split á Adríahafsströnd Króatíu. Nánast um leið lauk ofsóknum gegn kristnum mönnum og lög hans gegn þeim voru lögð á hilluna nær alls staðar í ríkinu. Kristindómurinn fór því fljótt aftur að eflast.
Þá var staða trúarbragða í ríkinu sú að kristni og svonefnd Míþra-trú höfðu áratugum og öldum saman barist um hylli þeirra Rómverja sem létu sér ekki lengur nægja hin fornu trúarbrögð. Míþra-trúin var upprunnin úr austri og gekk út á launhelgar og blóðugar fórnarathafnir sem ýmsir telja að hafi haft bein áhrif á hvernig altarissakramenti kristindómsins þróaðist: blóð Krists, og það allt. Hin hefðbundnu rómversku trúarbrögð voru hins vegar í þróun líka og um það leyti sem hér um ræðir má segja að þau hafi ummyndast yfir í trú á Sol Invictus, eða „hina ósigrandi sól“.
Sá mikilfenglegi sólarguð átti fæðingarhátíð sína hinn 25. desember hvert ár, eða þegar dag var farið að lengja á ný eftir veturinn. Slíka „sólarhátíð“ mátti reyndar finna í fleiri trúarbrögðum og æ því vinsælli eftir því sem norðar dró og munurinn á sólarbirtu eftir árstíðum varð meiri.
Ekki aðeins ofsóknir Díokletíanusar gegn kristnum mönnum lögðust af þegar hann hvarf sjálfur af vettvangi, heldur hrundi allt stjórnkerfi hans til grunna þegar yfir- og undirkeisarar og ýmsir herforingjar þar fyrir utan tóku að berjast um völdin. Sú saga er reyndar svo flókin að engin leið er að rekja hana hér. Um skeið voru „allir voru á móti öllum“ en þann 28. október árið 312 var vissulega háð við Milvíubrúna yfir Tíber mjög mikilvæg orrusta þar sem hersveitir hins fyrrnefnda Maxentíusar áttu í höggi við lið Konstanínusar. Sá síðarnefndi hafði tekið við merkinu af föður sínum Klórusi sem var dauður eins og títt er. Hafði Konstanínus háð margar orrustur með sínu liði síðustu árin.
Gekk Konstanínus sjálfur hraustlega fram, enda tröllslega vaxinn og dáti í marga ættliði.
En ef Konstanínus næði nú Rómaborg væri hann svo kominn hálfa leið að tryggja sér yfirráð yfir öllu ríkinu. Borgin var að vísu ekki lengur í þjóðleið þeirra herforingja sem höfðu barist um völdin í ríkinu í bráðum heila öld og það er ekki víst að Konstanínus hafi einu sinni komið til Rómar fyrr en árið 312 en táknrænt gildi borgarinnar var þó auðvitað mikið.
Og hvað er svo hæft í því að Konstanínus hafi séð á himni Krist og krossinn fyrir orrustuna og heyrt röddina sem sagði: „Undir þessu merki muntu sigra. In hoc signo vinces“?
Það vitum við auðvitað ekki. Sögur um eitthvað þvíumlíkt komust snemma á kreik en þær voru harla mótsagnakenndar. Í einni útgáfu opinberaðist Kristur keisaranum í draumi en ekki á himni. Í annarri útgáfu virðist ekki endilega hafa verið um kristinn kross að ræða heldur einhvers konar sólartákn, kannski jafnvel táknmynd Sol Invictus. Menn hafa líka reynt að skýra sýnina með ljósbrigðum sólar á himni og svo segir sig sjálft að á seinni tímum hefur ekki skort menn sem vilja trúa því að þarna hafi verið á ferð geimferð frá öðrum hnetti.
Duflað við kristna söfnuðinn
Aðeins tvennt er víst.
Um þetta leyti virðist Konstanínus hafa ákveðið að tryggja sér stuðning hins áhrifamikla kristna söfnuðar í Rómaveldi með því að dufla við tákn hans og kenningar. Sá stuðningur kom sér vel, því hvað sem leið ofsóknum Díokletíanusar voru meðal hinna kristnu margir áhrifamiklir auðmenn og einnig embættismenn sem betra var að hafa með sér en móti. Konstantínus hélt að vísu áfram enn um sinn að nota sér margt úr táknmyndakerfi Sol Invinctus líka en virðist þó hafa talið stuðning hinna kristnu æ mikilvægari með hverju árinu. Hvort hermenn hans börðust þó beinlínis undir krossmarki við Milvíubrú er samt ekki vitað og raunar talið vafasamt.
En hitt – þegar orrustan tókst urðu þjálfaðir dátar Konstanínusar fljótlega yfirsterkari hermönnum Maxentíusar sem höfðu lifað hóglífi á Tíberbökkum að undanförnu. Þeir síðarnefndu féllu þúsundum saman og svo enn fleiri þegar þeir reyndu að flýja yfir brúna sem hrundi. Maxentíus drukknaði í Tíber en Konstaníntus hélt sigri hrósandi innreið sína í Róm og lét veifa á spjótsoddi afhöggnum hausi hins fallna keppinautar síns.
Ekkert við daður Konstanínusar við kristindóm varð sem sé til þess að draga úr orrustugrimmd hans eða hörku í veraldlegum átökum.
Í byrjun árs 313 var birt í Rómaveldi sameiginleg yfirlýsing Konstantínusar og Liciníusar, en svo hét sá keppinautur hans sem þá var eftir. Þeir keisararnir kváðu þar formlega á um að kristnir menn skyldu eftirleiðis njóta trúfrelsis í ríkinu og er ártalið 313 síðan eitt hið mikilvægasta í sögu kristindómsins. Framsókn hans varð ekki stöðvuð í Rómaveldi eftir það. Þegar í odda skarst milli Konstantínusar og Liciníusar nokkrum árum seinna reyndi sá síðarnefndi að vísu að efla eldmóð annarra en hinna kristnu, sér til stuðnings, og gekk til stríðs við Konstanínus undir merkjum hinna fornu guða, en þá var það orðið of seint. Konstanínus vann fullnaðarsigur á Liciníusi árið 324 og lét hengja hann ári seinna.
Það sama ár, 325, var Konstanínus fundarstjóri á mikilli ráðstefnu hinna helstu kristnu préláta og fræðimanna í Níkeu í Litlu-Asíu, þar sem gerð var tilraun til að samræma kenninguna, nú þegar hún mátti heyrast óhikað úr prédikunarstólum um allt ríkið. Þótt Konstantínus tæki ekki kristni fyrr en rétt fyrir andlát sitt tólf árum seinna, þá sýndi fundarstjórn hans í Níkeu hve rækilega hann batt þá orðið trúss sitt við hina kristnu, þegar þar var komið – og þeir við hann.
Nýjar ofsóknir úr óvæntri átt
Og það segir sig náttúrlega sjálft að ein af niðurstöðum fundarins í Níkeu var að hefja þegar í stað ofsóknir gegn „villutrúarmönnum“ innan kristindómsins þar sem voru svokallaðir Aríusarsinnar. Ágreiningur þeirra við aðalkirkjuna snerist um það mikilvæga atriði hvort Guðssonur væri fullkomlega jafngildur Guðiföður eða ekki, og leið ekki á löngu uns kirkja Konstantínusar var farin að standa fyrir heilmiklum manndrápum á Aríusarsinnum vegna þess arna.
Á slíkt og þvíumlíkt er þó aldrei minnst í sögunum huggulegu um „hoc signo vinces“ og hinn milda Krist.
Né heldur þá staðreynd að Konstanínus og kirkjufeður hófust nú handa um að kveða niður sólarguðinn Sol Invinctus og gerðu það svo hressilega að þeir rændu meira að segja fæðingarhátíð hans og gáfu hana Jesú Kristi sínum, og við köllum nú jól.
Athugasemdir