Á þessari meðfylgjandi mynd sjást tíu manneskjur. Sumar eru rauðar að lit, aðrar bláar. Þegar vel er að gáð eru rauðu manneskjurnar fleiri en þær bláu. Það munar meira að segja heilmiklu, við sjáum það ef við förum að telja. Rauðu manneskjurnar reynast vera sjö, en þær bláu aðeins þrjár.
Og hvað með það?
Jú, þessi mynd sýnir stuðning íslensku þjóðarinnar við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Hún nýtur stuðnings þrjátíu prósenta þjóðarinnar. Í einhverju mesta góðæri sögunnar – er okkur tjáð – þá sitjum við uppi með ríkisstjórn sem aðeins þrjár manneskjur af hverjum tíu styðja.
Hvern skollann á það að þýða, ef ég má spyrja hreint út?
Af hverju fær ríkisstjórnin ekki að njóta góðærisins?
Í fyrsta lagi er það auðvitað vegna þess að allir vita að góðærið nú er ekki að þakka tímalausri snilld Bjarna Benediktssonar og félaga við hagstjórn. Góðærið – ef svo má kalla það – stafar af ótrúlegri fjölgun erlendra ferðamanna á fáránlega stuttum tíma og ýmsum öðrum hagstæðum ytri skilyrðum.
Í öðru lagi er það vegna þess að fólk er ekki fífl. Fólk – eða að minnsta kosti þessi sjö rauðu! – gerir sér grein fyrir því að þótt Bjarni Benediktsson hafi reynst hafa níu pólitísk líf líkt og kötturinn, þá gerir það hann ekki að heiðarlegum stjórnmálamanni.
Hann mun aldrei losna við Vafningsmálið, Borgunarhneykslið getur hann aldrei þvegið af sér og reikningurinn hans snotri á Seychelles-eyjum vakir enn í vitund fólks. Og það gleymist heldur ekki hvernig hann laug blákalt að þjóð sinni um skýrsluna sem hann stakk undir stól fyrir kosningar síðastliðið haust.
Það kemur dyggum Sjálfstæðismönnum eflaust á óvart, en það er til fólk í þessu landi sem er ennþá sært og reitt yfir þeim lygum Bjarna. Það er til fólk sem finnst ekki að allt sé til vinnandi til að krækja í valdastóla.
Og kjósendur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafa sérstaka ástæðu til að vera reiðir.
Viðreisn gaf sig út fyrir að vera hinn nýi siðlegi flokkur frjálslyndra hægrimanna, flokkur sem myndi ævinlega standa við orð sín, enda var hann víst stofnaður sérstaklega vegna gremju margra Sjálfstæðismanna yfir því hve illa Bjarna hefur ævinlega gengið að standa við orð sín.
En ekkert stendur eftir af prati Viðreisnar. Þessi flokkur var greinilega allan tímann eins-manns-sirkus Benedikts Jóhannessonar, aðferð hans til að gera sig gildandi í fermingarveislum Engeyjarættarinnar.
Sorglegt þykir mér að horfa upp á ýmsa ágæta vini mína í Viðreisn, hugsjónafólk sem ég veit vera, en er nú ekki annað en hækjur fyrir hækjuna sem Benedikt er fyrir Bjarna.
Um Bjarta framtíð þarf ekki að ræða. Það er nánast Spaugstofuefni að stofna stjórnmálaflokk utan um slagorðið „ekkert fúsk“ og styðja svo tómt fúsk og undirferli – og ekkert annað.
Allt er þetta heldur dapurlegt. En dapurlegast af öllu er samt að þessi ríkisstjórn, sem aðeins þrjátíu prósent landsmanna styðja, sé bæði fyrir opnum tjöldum en þó aðallega í hinum reyklausu bakherbergjum að undirbúa kerfisbreytingar sem eiga að færa hinum ofsaríku – elítunni í Garðabæ – bæði heilbrigðiskerfi okkar og menntakerfi.
Svo elítan geti kjamsað á feitustu bitunum en skilið svo hina fátæku eftir í skítnum.
Af hverju í ósköpunum ættu fleiri að styðja þessa ríkisstjórn, þrátt fyrir „góðæri“ elítunnar?
Af hverju í ósköpunum styðja yfirleitt heil 30 prósent almennings þessa undirförulu óskaríkisstjórn hinna ofsaríku?
Athugasemdir