Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist hafa taugar til Samherja, en að fyrirtækið þurfi að svara fyrir mútugreiðslur til namibískra stjórnmálamanna til að tryggja sér veiðiheimildir. Hann hefur haft samband við nokkra starfsmenn, meðal annars Þorstein Má Baldvinsson forstjóra, að því fram kemur hjá RÚV.
„Ég hef ekki haft afskipti af þessu fyrirtæki, rekstri eða öðru, frá því að ég hætti í stjórn fyrir tæpum tveimur áratugum, nítján árum,“ sagði hann. „En auðvitað hefur maður taugar til fyrirtækisins og starfseminnar fyrir norðan. Eðlilega, þetta er stór partur af norðlensku samfélagi.“
Kristján Þór er fyrrverandi stjórnarformaður Samherja. Þegar Stundin hafði samband við Kristján Þór fyrir birtingu sagðist hann ekki hafa setið fund með mönnunum. „Ég minnist þess ekki að Þorsteinn Már hafi kynnt mig fyrir umræddum mönnum,“ sagði hann. Í samtalinu við RÚV segist hann ekki hafa verið boðaður til fundarins. „Þannig hittist bara á í þessu tilfelli að ég á persónulegan fund með einstaklingi sem ég hef þekkt í langan tíma um allt önnur mál að þá rekst ég á þessa einstaklinga.“
Í frétt RÚV segist Kristján hafa heyrt í nokkrum starfsmönnum Samherja undanfarna daga. Meðal annars Þorsteini Má. „Ég var bara að spyrja hvernig honum liði einfaldlega,“ sagði Kristján.
Aðspurður um hvað Þorsteinn Már hafi átt við þegar hann sagði namibísku þremenningunum að Kristján Þór væri „sinn maður“ segir hann Þorstein þurfa að svara því sjálfur. „Ég hef hingað til bara litið á mig sem minn eigin og minnar fjölskyldu og er þekktur fyrir flest annað en að vera mjög undanlátssamur. Ég hef nú frekar orð á mér fyrir að vera frekar stífur í framgöngu.“
Athugasemdir