Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og stærsti eigandi Samherja, hefur á undanförnum árum safnað gríðarlegum auði. Þorsteinn Már á um 24 milljarða króna eignir í gegnum félag sitt, og má áætla að hann hafi persónulega hagnast um tæplega 1,8 milljarða króna af veiðum Samherja við Namibíu, sem byggðu á stórfelldum mútugreiðslum til þeirra sem hafa vald til að úthluta kvóta í landinu.
Þorsteinn á 24 milljarða króna
Opinberar tekjur Þorsteins segja lítið um raunverulega eignasöfnun hans. Þannig gáfu tekjuskrár Ríkisskattstjóra til kynna að í fyrra hafi Þorsteinn fengið 3,9 milljónir króna í launatekjur á mánuði og rúmar fjórar milljónir króna á mánuði í fjármagnstekjur. Þessar tekjur segja aðeins litla sögu, þar sem raunveruleg eignasöfnun á sér stað inni í eignarhaldsfélagi hans.
Einungis á síðasta ári jukust eignir Eignarhaldsfélagsins Steins ehf. um níu milljarða króna. Þorsteinn Már á 51 prósent í eignarhaldsfélaginu og fyrrverandi eiginkona hans, Helga S. Guðmundsdóttir, á 49 prósent. Af 48 milljarða króna eignum félagsins á Þorsteinn því persónulega tilkall til ríflega 24 milljarða króna.
Áætlað er að hagnaður Samherja af Namibíuveiðunum hafi verið um 10 milljarðar króna á tímabilinu 2012 til 2018. Að gefnum endanlegum eignarhlut Þorsteins hefur hann hagnast persónulega um 1,77 milljarða króna vegna Namibíuveiðanna, sem urðu fyrir tilstuðlan mútugreiðslna.
Skella skuldinni á uppljóstrara
Tveir namibískir ráðherrar hafa sagt af sér eftir að fjallað var um mútugreiðslur til þeirra frá Samherja í samstarfi Wikileaks, Stundarinnar, Kveiks og Al Jazeera. Auk þess hefur verið fjallað um málið í namibíska dagblaðinu The Namibian. Ráðherrarnir og aðilar tengdir þeim höfðu fengið mútugreiðslur frá Samherja upp á meira en milljarð króna, að hluta til í gegnum aflandsfélög. Annar ráðherranna sem sögðu af sér, dómsmálaráðherrann Sacky Shangala, hefur oftar en einu sinni komið til Íslands á vegum Samherja. Samherji bauð auk þess hingað til lands tengdasyni sjávarútvegsráðherrans og náfrænda tengdasonarins, sem stýrði ríkisfyrirtækinu Fishcor, sem aftur lét Samherja fá kvóta.
Samherji hefur skellt skuldinni á uppljóstrarann í málinu, Jóhannes Stefánsson, sem stýrði starfseminni í Namibíu.
„Okkur er illa brugðið,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson í yfirlýsingu í gærkvöld. „Ekki einungis við það að Jóhannes staðhæfi að hann hafi tekið þátt í starfsemi af því tagi sem hann lýsir en ekki síður að hann skuli einnig beina ásökunum sínum að fyrrum samstarfsfólki sínu hjá Samherja. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við könnumst við.“
Gögn sýna hins vegar að Samherji greiddi mörg hundruð milljónir króna í mútur, meðal annars 280 milljónir króna frá Kýpurfélögum Samherja, eftir að Jóhannes hætti störfum, auk þess sem greiðslurnar voru mestmegnis framkvæmdar í gegnum félög sem Jóhannes hafði ekki prókúru fyrir.
Jóhannes segir í samtali við Stundina að Þorsteinn Már hafi að stórum hluta skipulagt mútugreiðslurnar. „Hann veit allt og ekkert gerist án hans samþykkis.“ Í skýrslu sem KPMG gerði um starfsemi Samherja kom fram að Þorsteinn væri „miðpunktur fyrirtækisins“. Þá eru mörg dæmi um að Þorsteinn hafi fundað með mútuþegunum, á Íslandi sem og í Namibíu.
Athugasemdir