Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Sacky Shanghala dómsmálaráðherra hafa sagt af sér. Þetta kemur fram í nýrri frétt The Namibian.
Stundin hefur í samstarfi við Kveik, Wikileaks og Al Jazeera greint frá mútugreiðslum Samherja til þeirra og James Hatuikulipi, stjórnarformanns ríkisfyrirtækisins Fishcor, til að öðlast fiskveiðiréttindi í Namibíu. Tengslunum var komið á í gegnum tengdason sjávarútvegsráðherrans, Tamson „Fitty“ Hatuikulipi. Félög í eigu Samherja hafa frá árinu 2012 greitt mörg hundruð milljónir króna í mútur til einstaklinga sem eru tengdir Esau og flokki hans SWAPO.
Áður hafði verið greint frá því að Hage Geingob, forseti Namibíu hafi talið að ráðherrarnir ættu að segja af sér. Forsetinn var upplýstur um málið fyrr á þessu ári, meðal annars með skýrslu frá Martha Imalwa, ríkissaksóknara Namibíu.
Í gögnum sem Stundin hefur undir höndum um útgerð Samherja í Namibíu koma fram stórfelldar greiðslur, á annan milljarð króna, til aðila sem taka ákvarðanir um sjávarútvegsmál fyrir hönd namibíska ríkisins. Stundin hefur unnið úr gögnunum í samstarfi við Wikileaks, fréttaskýringaþáttinn Kveik í Ríkissjónvarpinu og katörsku sjónvarpsstöðina Al Jazeera. Auk þess að greiða mútur hefur Samherji komið á fót vef aflandsfyrirtækja þar félagið stundar fjármagnsflutninga með litlu gagnsæi og óljósum skattgreiðslum.
Tálbeituaðferð Al Jazeera
Al Jazeera hefur undanfarið unnið að tálbeituaðgerð í Namibíu, þar sem Bernhard Esau samþykkti að útvega ódýran sjófrystikvóta gegn greiðslu og bauð ráð við að komast hjá skattagreiðslum. Upptakan var fyrst birt í Kveik í gærkvöldi.
Í tvígang hafnaði hann beiðni Kveiks um viðbrögð, en ræddi við fréttamenn Kveiks á ráðstefnu í Noregi. Þar hafnaði hann því alfarið að haft vitneskju um mútugreiðslur. „Farið að rannsaka eitthvað annað,“ sagði hann.
Í fyrstu sagðist hann ekki þekkja til forsvarsmanna Samherja en viðurkenndi síðan að hafa átt fund með Þorsteini Má Baldvinssyni á búgarði í Namibíu.
Athugasemdir