Yfirlögfræðingur Samherja, Arna Bryndís Baldvins McClure, var viðstödd kvöldverð með namibísku þremenningunum, hagsmunaaðilum frá Angóla, og Jóhannesi Stefánssyni uppljóstrara á Íslandi árið 2013. Arna er kjörræðismaður Kýpur á Íslandi, en mútugreiðslur til Dubai-félags Namibíumanna fóru fram í gegnum dótturfélag Samherja, Esja Seafood, sem er til heimilis á Kýpur.
Kvöldverðurinn með Örnu fór fram í einni af Íslandsheimsóknum namibísku þremenninganna, James Hatuikulipi, Tamson „Fitty“ Hatuikulipi og Sacky Shangala, sem allir tengjast stjórnmálaflokknum SWAPO. James er stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fishcor, stærsta kvótaeigana Namibíu, Tamson er tengdarsonur sjávarútvegsráðherrans Bernhardt Esau og Sacky var dómsmálaráðherra Namibíu þar til hann sagði af sér í kjölfar uppljóstrananna.
Snæddu þremenningarnir á veitingastaðnum RUB 23 í Reykjavík, sem var í eigu Samherja að hluta, með starfsmönnum félagsins. Viðstaddir voru einnig Joao de Barros, sonur sjávarútvegsráðherra Angóla, og ráðgjafi ráðherrans. Tamson hafði gert samning við Kötlu Seafood, dótturfélag Samherja, í gegnum félag sitt Erongo Clearing and Forwarding um að koma á tengslum við „lykilmenn og kvótaréttar- og kvótahafa í sjávarútvegi í Namibíu og Angóla“. Fékk félagið greiddar rúmar 160 milljónir króna vegna samningsins í ráðgjafagreiðslur. Angólaverkefni Samherja snérist um misnotkun á milliríkjasamningum á milli tveggja Afríkulanda, Namibíu og Angóla, til að tryggja félagi í eigu Samherja kvóta í Namibíu sem ekki var talið verjandi að yrði gefinn út einhliða í Namibíu.
Í tölvupóstum úr Samherjaskjölunum má sjá Örnu ræða um greiðslur úr skattaskjólsfélaginu Cape Cod. Samherji hafði notað félagið í skattaskjólinu Marshall-eyjum í Kyrrahafi, til að greiða laun sjómanna sinna í Afríku allt frá árinu 2010. Samtals millifærðu félög Samherja 9,1 milljarð króna inn á reikninga Cape Cod á tímabilinu og sama upphæð var millifærð af reikningum félagsins á tímabilinu. Félögin sem millifærðu peningana inn á reikninginn voru aðallega önnur félög Samherja, eins og Esja Seafood Limited á Kýpur og Esja Fishing Ltd. í Namibíu, svo dæmi séu tekin. Með þessu móti gat Samherji komið fjármunum frá hinum ýmsu löndum, meðal annars Namibíu, algjörlega skattfrjálst.
Fundaði með þremenningunum eftir árshátíð Samherja
Ljóst er því af Samherjaskjölunum að Arna var ein af hópi starfsmanna Samherja sem var kunnugt um að minnsta kosti hluta þeirra aðferða sem fyrirtækið beitti. Arna sat meðal annars fund um namibísku starfsemina með Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, Baldvini syni hans, Aðalsteini Helgasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Kötlu Seafood, Jóni Óttari Ólafssyni, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni, og Jóhannesi Stefánssyni uppljóstrara. Fundurinn var haldinn 11. apríl 2016 og hann sóttu einnig namibísku þremenningarnir sem allir hafa þegið mútur frá fyrirtækinu til að greiða aðgang að fiskveiðikvóta. Samkvæmt fundargerð var rætt um starfsemina í Namibíu, yfirvofandi leiðtogakjör í SWAPO flokknum í Namibíu sem þeir eru allir meðlimir í og væntanlegar þingkosningar í lok árs 2019. Einnig var talað um verkefni í Angóla og Suður-Afríku.
Þremenningarnir komu til Íslands á árshátíð Samherja sem haldin var í Íþróttahöllinni á Akureyri tveimur dögum áður, þann 9. apríl, og greiddi Samherji fyrir þá flug og hótel í tengslum við komuna á árshátíðina.
Í skjali til undirbúnings fyrir fundinn með þremenningunum er fjallað um sýn þeirra á framtíð mála í Namibíu, en ekki skráð hvaða Íslendingar fengu það í sínar hendur.
„Þeir hafa lagt mikið í að koma okkur þangað sem við erum (breytt lögum og farið með það í gegnum þingið),“ segir í skjalinu. „Þetta er að sjálfsögðu pólitískt. Það er margt búið að gerast á bakvið tjöldin. Við erum í dag með 3ja stærsta kvótann ekki af ástæðulausu [sic].“
Þá er lýst pólitísku mikilvægi mannanna, en James er stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fishcor og Sacky var á þessum tíma ríkissaksóknari, en síðar dómsmálaráðherra Namibíu. „Þeir vilja vinna með okkur en tíminn er á þrotum,“ segir ennfremur. „Ef þeir fara óánægðir frá Íslandi þá er samstarfinu lokið og þá er betra að segja það strax.“
Athugasemdir