Samherji styrkti stjórnmálaflokka sem buðu fram til Alþingis um 6,35 milljónir króna á árabilinu 2012 til 2018. Lög um fjármál stjórnmálaafla á Íslandi sníða mjög þröngan stakk utan um hversu mikið lögaðilum og einstaklingum er heimilt að styrkja stjórnmálasamtök en hámarksupphæð á þessum tíma var 400 þúsund krónur á ári. Á sama tímabili greiddi Samherji rúman milljarð íslenskra króna í mútur til aðila í Namibíu. Kristján Þór Júlíusson, núverandi sjávarútvegsráðherra, fékk persónulegan styrk frá fyrirtækinu sem samrýmdist lögum.
Hestamakrílveiðar Samherja hófust í febrúar 2012. Þá þegar hafði Samherji innt af hendi mútugreiðslur til félagsins Fitty Entertainment CC. sem var í eigu Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, tengdasonar sjávarútvegsráðherra Namibíu. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar greiddu félög Samherja mútur allt frá árinu 2012 og í það minnsta fram í janúar á þessu ári.
Hámarksstyrkupphæð til stjórnmálasamtaka var samkvæmt lögum 400 þúsund krónur á ári á þessum tíma, þó nú hafi sú upphæð verði hækkuð í 550 þúsund krónur með lagabreytingu í lok árs 2018. Sjálfstæðisflokkurinn fékk hámarks styrkupphæð frá Samherja sex sinnum á sjö árum, og þar með 2,4 milljónir króna í styrki. Flokkurinn settist í ríkisstjórn í maí árið 2013 og hefur setið í ríkisstjórn óslitið síðan. Framsóknarflokkurinn fékk einnig styrki sex ár, alls 1,7 milljón króna. Þriðji flokkurinn í núverandi ríkisstjórn, Vinstri græn, fékk 1,05 milljónir króna í styrki á sama tímabili. Flokkurinn fékk styrki í þrígang frá Samherja.
Styrktu einstaka frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins
Samherji styrkti Samfylkinguna um 1 milljón króna með þremur styrkjum á sama árabili. Björt framtíð fékk 200 þúsund krónur í styrk frá Samherja árið 2013 og Píratar fengu 100 þúsund krónur í styrk sama ár.
Þá styrkti Samherji frambjóðendur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins árið 2013 um samtals 300 þúsund krónur. Þar af fékk Kristján Þór Júlíusson, núverandi sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja, 100 þúsund króna styrk. Kristján Þór varð heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem mynduð var eftir kosningarnar árið 2013. Illugi Gunnarsson, sem varð menntamálaráðherra í sömu stjórn, fékk einnig 100 þúsund krónur í styrk og slíkt hið sama má segja um Unni Brá Konráðsdóttur þingmann flokksins í Suðurkjördæmi. Þá fékk Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, þáverandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð, 50 þúsund krónur.
Athugasemdir