Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem var skipuð lögreglustjóri af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi dómsmálaráðherra án auglýsingar, skipaði síðar bróður ráðherrans í yfirmannsstöðu án auglýsingar.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar um ráðningarmál hjá lögreglu í nýjasta tölublaði, en fimm af tíu yfirstjórnendum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegna stjórnunarstöðu sem þeir fengu á grundvelli undanþága frá meginreglu starfsmannalaga um að auglýsa skuli laus störf.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu haustið 2014. Málið vakti mikla athygli, enda var staðan ekki auglýst heldur Sigríður flutt í embættið á grundvelli 36. gr. starfsmannalaga sem veitir stjórnvöldum undanþágu frá auglýsingaskyldunni og heimilar flutning milli embætta.
Mikið hefur verið um stöðuveitingar án auglýsingar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðan veitingarvaldið féll Sigríði Björk í skaut og þetta valdið talsverðri ólgu.
Einn þeirra sem fengið hafa yfirmannsstöðu hjá lögreglu án auglýsingar í tíð Sigríðar er Theodór Kristjánsson, bróðir Hönnu Birnu, ráðherrans sem gerði Sigríði Björk að lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins án auglýsingar á sínum tíma.
Theodór var ráðinn aðstoðaryfirlögregluþjónn 1. janúar 2008 samkvæmt auglýsingu og fluttur tímabundið í stöðu yfirlögregluþjóns þann 1. apríl 2019 á grundvelli 36. gr. starfsmannalaga. Hann hafði þó setið í yfirstjórninni síðan 2017, en það ár tók hann við stöðu yfirmanns kynferðisbrotadeildar. Eru yfirlögregluþjónar skipaðir af lögreglustjóra samkvæmt 28. gr. lögreglulaga.
Fram kemur í svörum lögreglu við fyrirspurn Stundarinnar um málið að Theodór hafi verið „fluttur tímabundið í stöðu yfirlögregluþjóns þann 1. apríl 2019 á grundvelli 36. gr.“. Samkvæmt bréfi sem dómsmálaráðuneytið sendi lögreglustjórum landsins í vor á hins vegar 36. gr. starfsmannalaga fyrst og fremst við þegar um varanlega ráðstöfun er að ræða, enda hvergi í 36. gr. kveðið á um heimild til að flytja menn tímabundið á milli embætta í formi setningar.
Athugasemdir