Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltúi Sósíalistaflokks Íslands, mun á morgun flytja tillögu í borgarstjórn um að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur.
Samkvæmt tillögunni er þeim borgarfulltrúum sem sitja fyrir hönd Reykjavíkurborgar í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga falið að leggja tillöguna fyrir stjórn þess. „Öfugt við launatekjur bera fjármagnstekjur ekkert útsvar og hér er því um gríðarlega fjármuni að ræða fyrir sveitarfélögin,“ segir í tillögunni. „Þar sem sveitarfélög geta ekki lagt á umrædda skatta án laga frá Alþingi, er lagt til að tillagan verði tekin fyrir innan Sambandsins.“
Er bent á að sveitarfélögin sinni verkefnum á sviði skólamála, kjara- og starfsmannamála og umhverfis- og tæknimála, auk þess að veita félagsþjónustu, sinna málefnum sem falla undir lýðræði og mannréttindi, skipulags- og byggðamál og stjórnsýslu.
„Tekjur hinna allra auðugustu eru að miklu leyti fjármagnstekjur og greiða þeir aðilar því ekki sama hlutfall af tekjum sínum til sveitarfélaganna sem þeir búa í, líkt og launafólkið,“ segir í tillögunni. „Hafi einstaklingur einungis fjármagnstekjur en engar launatekjur greiðir viðkomandi ekkert útsvar til viðkomandi sveitarfélags sem hann býr í. Þ.e.a.s. viðkomandi greiðir því ekki í sameiginlegan sjóð borgar eða bæjar líkt og launafólk viðkomandi sveitarfélags. Til að vinna gegn þessu ósamræmi í skattlagningu og til að efla tekjustofna sveitarfélaganna er mikilvægt að leggja útsvar á fjármagnstekjur. Þannig má styrkja borgarsjóð og þar með borgina svo að hún hafi burði til að sinna öllum þeim verkefnum er koma inn á hennar borð og þannig getur hún veitt sem bestu þjónustuna.“
Athugasemdir