Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi utanríkisráðherra, dreifði sömu rangfærslunum og Boris Johnson í aðdraganda Brexit-atkvæðagreiðslunnar árið 2016. Þann 23. maí, mánuði áður en atkvæðagreiðslan fór fram, birti Guðlaugur áróðursmyndband á Facebook þar sem því er ranglega haldið fram að Bretland greiði Evrópusambandinu 350 milljónir punda vikulega og að fyrir sömu fjárhæð mætti byggja nýjan spítala í hverri viku og búa hann öllum nauðsynlegum tækjum.
Boris Johnson, sem nú er orðinn forsætisráðherra Bretlands, setti fram yfirlýsingar sama efnis í aðdraganda Brexit-atkvæðagreiðslunnar. Þann 29. maí síðastliðinn var honum skipað að mæta fyrir dóm vegna yfirlýsinganna eftir að borgari höfðaði mál á þeim grundvelli að Boris hefði villt um fyrir almenningi og þannig gerst sekur um brot í opinberu starfi sem borgarstjóri. Æðra dómsstig ógilti dómkvaðninguna nokkrum dögum síðar og þurfti því Boris ekki að svara fyrir ummælin í réttarsal.
Tölfræðistofnun Bretlands (UK Statistics Authority) gaf út yfirlýsingu þann 27. maí þar sem yfirlýsingar um 350 milljónirnar voru leiðréttar og bent á að þar væri horft fram hjá frádrætti (e. rebate) sem samið var um í ríkisstjórnartíð Margaret Thatcher auk greiðslna frá ESB til Breta, svo sem í formi landbúnaðarstyrkja. Rannsóknarstofnun ríkisfjármála (Institute for Fiscal Studies) tók í sama streng og sagði málflutninginn „absúrd“. Klukkustund eftir að ljóst varð að kosið hafði verið um útgöngu úr Evrópusambandinu aðfaranótt 24. júní 2016 viðurkenndi Nigel Farage, einn af lykilmönnum útgönguhreyfingarinnar, að slagorðið hefði verið mistök.
Þótt ítrekað væri bent á rangfærslur lykilmanna útgönguhreyfingarinnar hélt Guðlaugur Þór áfram að deila áróðursefni frá þeim á Facebook. „Bretland býr ekki við viðskiptafrelsi á meðan það er í ESB. ESB er gamaldags tollabandalag,“ skrifaði hann og birti myndbönd frá Evrópuþingmanninum Daniel Hannan og hægrisinnuðu hugveitunni Adam Smith Institute. „Ef Bretland fer út mun það skapa mikla möguleika fyrir Ísland og önnur ríkin innan og utan álfunnar og mun örugglega leiða til mikillar gerjunnar á sviði fríverslunnar. Því eitt er víst að ef fólk vill viðskiptafrelsi þá velur það ekki ESB.“
Guðlaugur Þór var til viðtals á Bylgjunni í gær og mærði Boris Johnson. „Það fer ekkert á milli mála að hér er mjög hæfur stjórnmálamaður á ferðinni sem er með mjög skýra sýn um hvert hann vill fara, en er óhefðbundinn að mörgu leyti,“ sagði Guðlaugur.
„Ég sá í fjölmiðlum í gær að margir eru að líkja honum við Trump. Þar er ólíku saman að jafna. Trump hefur til dæmis lagt áherslu á innflytjendamálin, herðingu á þeim. Þú finnur ekki slíkt hjá Boris Johnson og það sem menn skilgreina oft sem popúlisma.“
Boris Johnson og Donald Trump eiga það sameiginlegt að tjá sig með óhefluðum hætti, en líkt og Trump hefur Boris verið gagnrýndur fyrir niðrandi tal um minnihlutahópa. Frægt varð þegar hann líkti hjónaböndum samkynhneigðra við að þrír menn giftist hundi og í skrifum sínum fyrir hægrisinnuð dagblöð í Bretlandi hefur hann fjallað af nostalgíu um breska heimsveldið, líkt konum sem klæðast búrkum við póstkassa og bankaræningja og sprellað með að hreinsa þurfi burt alla „dauðu búkana“ eftir Líbíustríðið.
„Boris Johnson er búinn að vera í stjórnmálum í áratugi og er frjálslyndur íhaldsmaður,“ segir Guðlaugur. „Hann hefur til dæmis verið borgarstjóri í London þar sem hann vann London – sem á ekki að vera hægt fyrir íhaldsmann – og komst mjög vel frá því verkefni.“ Guðlaugur bætti því við að sér hefði þótt gott að vinna með Boris Johnson þegar Boris var utanríkisráðherra í stjórn Theresu May.
Götublaðið The Sun fagnaði embættistöku Boris Johnson með afgerandi forsíðu í dag. Dagblöð nær miðjunni á hinu pólitíska litrófi hafa hins vegar ekki vandað Boris kveðjurnar.
„Loddari á Downing Street,“ er yfirskrift leiðara vikublaðsins New Statesman þar sem fullyrt er að Boris sé siðferðilega óhæfur til að gegna embætti forsætisráðherra eftir að hafa ítrekað orðið uppvís að óheiðarleika, bæði sem blaðamaður og stjórnmálamaður.
Boris Johnson var á meðal lykilmanna í baráttunni fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu árið 2016, en kosningabaráttan byggði að verulegu leyti á afbökun staðreynda. Ein skýrasta birtingarmynd þess var Brexit-rútan með slagorði um 350 milljónirnar. Heilinn á bak við þetta, Dominic Cummings, hefur nú fengið lykilhlutverk í nýrri ríkisstjórn Borisar Johnson.
Athugasemdir