Haukarnir svokölluðu í Bandaríkjunum virðast nú róa öllum árum að því að fara í stríð við Írani eða Persa eins og þjóðin hét til skamms tíma. Við fyrstu sýn virðist það myndu verða ójafn leikur, annars vegar ósigrandi heimsveldið með tíu eða tuttugu sinnum öflugri her og hins vegar Íran þjakað af innanmeinum og ansi mikið „eftir á“ á svo mörgum sviðum.
Haukarnir munu þó fljótt komast að því að stríð við Íran verður ekki auðunnið. Svo vill til að nú þegar þeir skipuleggja bersýnilega innrás í Íran eða Persíu, þá gætu þeir fundið lexíu eina í 2.500 ára gamalli frásögn frá upphafsdögum Persaveldis, lexíu sem sýnir að þrátt fyrir yfirgnæfandi hernaðarstyrk er ekki alltaf einfalt mál fyrir heimsveldi að sigrast á „villimönnum“.
Nema hvað þar eru Persar reyndar í hlutverki heimsveldisins, en „frumstæð“ þjóð að nafni Massagetar í því hlutverki sem Persar gætu nú fundið sig í andspænis Bandaríkjunum.
Máttugasta stórveldi heims gegn „villimönnum“
Sagan gerist árið 530 fyrir Krist. Kýrus Persakóngur hafði lagt undir sig hvert stórveldið í Miðausturlöndum af öðru og réði nú máttugasta herveldi sögunnar. Þá frétti hann af Massagetum sem bjuggu rétt fyrir norðan ríki hans og höfðu ekki gert honum hót svo vitað sé. En þangað stefndi Kýrus nú ógnarstórum her, búinn nýjustu gereyðingarvopnunum og „verktakafyrirtæki“ þess albúin að arðræna landið þegar herinn væri búinn að knésetja „villimennina“.
Það yrði lítið annað en formsatriði, líkt og haukar eins og John Bolton hvísla nú í eyru Donalds Trumps um stríð gegn Íran.
Athugasemdir