Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, var beðinn um að veita utanríkismálanefnd Alþingis umsögn um innleiðingu þriðja orkupakkans.
Nefndin sendi 127 aðilum umsagnarbeiðnir þann 11. apríl síðastliðinn vegna umfjöllunar um þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkismálaráðherra þess efnis að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn verði staðfest.
Var einkum leitað til samtaka, stofnana og sveitarfélaga, en auk þess voru tveir einstaklingar beðnir um að veita umsögn. Þetta eru þau Jón Baldvin, sem lék lykilhlutverk við undirritun og lögfestingu EES-samningsins á Íslandi, og Maria Elvira Mendez Pinedo, lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti við Háskóla Íslands.
Jón Baldvin hefur ítrekað verið sakaður um kynferðislega áreitni en fjórar konur stigu fram í Stundinni í janúar síðastliðnum og lýstu framgöngu hans.
Nýjasta atvikið mun hafa átt sér stað á heimili Jóns Baldvins og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, á Spáni síðasta sumar en það elsta varðar meinta áreitni hans gagnvart tveimur 13 og 14 ára nemendum sínum þegar hann var kennari í Hagaskóla.
Þá steig mágkona hans fram í viðtali við Stundina og sagði frá meintri áreitni hans, auk þess sem nemendur við Menntaskólann á Ísafirði lýstu atvikum frá því hann var skólameistari þar.
Jón Baldvin hefur sagt frásagnirnar uppspuna sem runninn sé undan rifjum dóttur hans. Að því er fram kom í viðtali við Jón Baldvin í Silfri Egils í febrúar vinnur hann nú að bók um ásakanirnar á hendur sér sem ber titilinn Vörn fyrir æru: Hvernig fámennur hópur öfgafemínista hefur sagt réttarríkinu stríð á hendur. Hefur hann skrifað fjölda greina þar sem hann varar við því að mannorð fólks sé eyðilagt, án dóms og laga, í nafni kynjajafnréttis.
Jón Baldvin, sem nú er einn af talsmönnum samtakanna Orkan okkar, sendi Alþingi umsögn um innleiðingu þriðja orkupakkans þann 17. apríl síðastliðinn. Í umsögninni segist Jón Baldvin andvígur einkavæðingu orkufyrirtækja og því að fjárfestar, innlendir jafnt sem erlendir, geti keypt virkjanarétt og forræði yfir nýtingu auðlindarinnar.
„Þetta er og hefur verið grundvallarafstaða okkar jafnaðarmanna varðandi eignarhald á og nýtingu þjóðarauðlinda. Þessi afstaða er studd reynslu annarra þjóða, þar sem vanhugsaðar tilraunir með einkavæðingu grunnþjónustu af þessu tagi hafa skaðað almannahagsmuni. Þess vegna vara ég eindregið við að innleiða löggjöf, sem til skamms tíma virðist vera meinlaus, en getur haft ófyrirséðar og skaðlegar afleiðingar síðar,“ skrifar hann.
Óttast fyrrverandi utanríkisráðherra að þeir fyrirvarar sem ríkisstjórnin hefur kynnt vegna orkupakkans reynist haldlitlir. Þá telur hann ljóst að sameiginleg yfirlýsing núverandi orkumálastjóra ESB og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra muni reynast marklaus. Hann bendir á að EES-samningurinn veiti aðildarríkjum rétt til að hafna innleiðingu löggjafar á tilteknu málefnasviði ef hún er ekki talin eiga við. „Fyrir þessu eru mörg fordæmi. Höfnun innleiðingar hefur ekki í för með sér nein viðurlög. Afleiðingin er sú, að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem samið er um málið. Þar með fást þeir einu fyrirvarar, sem öruggt hald er í.“
Loks segir hann að ef Evrópusambandið hætti að virða vilja kjósenda í aðildarríkjum EES-samningsins sé hætt við að stuðningur við EES- samninginn fari þverrandi. „Þar með getur EES-samningurinn, með öllum þeim ávinningi sem hann hefur tryggt Íslandi á undanförnum aldarfjórðungi, verið í uppnámi. Á því bera þá þeir einir ábyrgð, sem vilja þröngva þriðja orkupakkanum upp á þjóðina – með ófyrirséðum afleiðingum og í trássi við þjóðarviljann.“
Athugasemdir