Farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 13% í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Áhrif falls WOW air voru þá ekki komin fram. Ferðamálastjóri spáir erfiðum mánuði í ferðaþjónustu.
Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag. Um 6% samdráttur var í farþegafjölda fyrstu tvo mánuði ársins og mun hann aukast töluvert vegna falls WOW air. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir að þó að önnur flugfélög hafi fjölgað ferðum muni það aðeins fela í sér brot af sætaframboði WOW air. Ekkert hafi heyrst af áhuga fleiri flugfélaga um að auka framboðið og þá spili kyrrsetning á Max-þotum Icelandair líka inn í.
„Maður heyrir það til dæmis frá fyrirtækjum sem bjóða afþreyingu í ferðaþjónustunni að það er allnokkur samdráttur í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Myndin mun skýrast þegar flugtölur fyrir apríl verða birtar,“ segir Skarphéðinn.
Athugasemdir