Einu lagabreytingarnar sem þriðji orkupakkinn kallar á hérlendis eru breytingar er varða sjálfstæði Orkustofnunar við framkvæmd raforkueftirlits og auknar valdheimildir vegna eftirlitsins.
Ísland mun áfram njóta undanþágu frá ákvæðum um aðskilnað flutningsfyrirtækja frá framleiðslu- og sölufyrirtækjum. Þannig verður starfsemi Landsnets ekki raskað. Þá munu ákvæði þriðja orkupakka ESB um grunnvirki á borð við sæstreng ekki eiga við á Íslandi, enda verða reglurnar innleiddar með lagalegum fyrirvara um að enginn sæstrengur verði lagður nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og sérstöku mati á því hvort innleiðingin standist stjórnarskrá.
Í frumvarpi sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mælti fyrir í gærkvöldi vegna innleiðingar þriðja orkupakkans er skerpt á hlutverki Orkustofnunar og mælt fyrir um sjálfstæði stofnunarinnar við eftirlit með aðilum á raforkumarkaði. Í slíku sjálfstæði felst ekki aðeins sjálfstæði gagnvart raforkufyrirtækjum heldur einnig gagnvart stjórnvöldum.
Þá eru Orkustofnun falin aukin úrræði til að framfylgja lögunum, svo sem heimild til að áminna rekstraraðila og leggja á stjórnvaldssektir, auk þess sem gjaldið sem stendur undir kostnaði við eftirlitið er hækkað.
Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna aukinna lögbundinna verkefna raforkueftirlits Orkustofnunar – meðal annars vegna þátttöku í ACER, Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði – aukist um 49 milljónir króna árið 2019 en að tekjur ríkissjóðs aukist um 47 milljónir frá og með 2020 vegna hækkunar á raforkueftirlitsgjaldinu.
Athugasemdir