Lögmaður Jóns Baldvins Hannibalssonar segir eina formlega erindið sem hann hafi sent fyrir hönd skjólstæðings síns til þessa hafa verið beint að RÚV. Í grein í Morgunblaðinu í dag segist Jón Baldvin hafa kært „slúðurbera í fjölmiðlum fyrir tilhæfulausar sakargiftir, ranghermi og gróf meiðyrði“. Þá segir hann einnig að málaferli séu væntanleg.
„Ég er búinn að skrifa eitt bréf til RÚV sem varðar það hver beri ábyrgð á tilteknum ummælum sem viðhöfð voru í Morgunútvarpi Rásar 2,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, lögmaður Jóns Baldvins. Það er eina bréfið sem ég hef sent frá mér og það var til útvarpsstjóra.“
Snýr málið að viðtali Sigmars Guðmundssonar og Helga Seljan í Morgunútvarpinu við Aldísi Schram, dóttur Jóns Baldvins. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði í grein í Morgunblaðinu 14. febrúar að umfjöllun RÚV um málið hafi verið vönduð og haft ótvírætt fréttagildi. Ekkert bendi til annars en að vinnureglur og siðareglur RÚV hafi verið virtar.
Jón Baldvin og eiginkona hans, Bryndís Schram, höfðu sett Magnúsi afarkosti í blaðagrein tveimur dögum áður. Sögðust þau mundu stefna útvarpsstjóra ef hann bæðist ekki afsökunar á fréttaflutningnum innan viku og drægi til baka fréttaflutning. Þá vildu þau að fréttamennirnir tveir úr Morgunútvarpi Rásar 2 yrðu áminntir.
Sjö konur hafa stigið fram undir nafni og sakað Jón Baldvin um kynferðislegra áreitni. Alls hafa 23 konur birt sögur sínar á vefsíðu og halda frásagnir áfram að berast í sérstökum MeToo hópi kvennanna á Facebook. Jón Baldvin hefur ítrekað sagt að sögurnar eigi allar rætur að rekja til veikinda Aldísar, dóttur sinnar, sem kom til viðtals í Morgunútvarpið.
Athugasemdir