Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands sem gegnt hefur hlutverki forseta deildarinnar undanfarin ár, spyr hvort „ofsinn á samfélagsmiðlum“ hafi fælt fjárfesta frá leigufélaginu Heimavöllum og ýtt upp leiguverði. Þetta kemur fram í færslu sem hann birtir á Facebook.
Ásgeir segist hafa fengið hörð viðbrögð þegar hann flutti erindi á morgunverðarfundi Heimavalla í febrúar 2018. Stundin fjallaði um erindið á sínum tíma, en þar varaði Ásgeir við því að opinberir aðilar færu í samkeppni við einkaaðila eins og Heimavelli eða GAMMA á leigumarkaðnum. Ásgeir var áður efnahagsráðgjafi hjá Gamma sem rak Almenna leigufélagið. Hann greindi frá því í viðtali við Stundina að hann ynni ekki lengur fast fyrir neina hagsmunaaðila á leigumarkaði.
„Það var líkt og ég hafði talað hjá glæpafélagi — tugir rituðu ummæli um mig á samfélagsmiðlum sem voru ekki við hæfi móður minnar,“ skrifar Ásgeir í pistli sínum í dag. Hann bendir á að nú liggi fyrir að Heimavellir verði afskráðir og íbúðir félagsins mögulega teknar úr leigu og seldar, enda hafi hreinar leigutekjur Heimavalla ekki dugað fyrir fjármagnskostnaði.
„Sá sem hér ritar beygir ekki skafl þó netverjar hafi um hann orð sem mömmu hans myndi sárna. Það er hins vegar áleitin spurning hvort þjóðfélagsumræðan hafi fælt fjárfesta frá Heimavöllum – einkum þó lífeyrissjóðina. Ef það er satt — er ofsinn á samfélagsmiðlum að leiða til hærri leigu — þar framboð á leiguhúsnæði minnkar við brotthvarf Heimavalla og ávöxtunarkrafa félagsins hlýtur að vera viðmið fyrir alla þá hyggjast leigja út húsnæði.“
Ásgeir segir að Ísland þurfi á sterkum hagnaðardrifnum leigufélögum að halda. Leigan sé há, en ástæða þess sé sú að Ísland er hávaxtaland og framboð á nýjum íbúðum takmarkað. „Ýmsar leiðir eru til þess að breyta því — aðrar en glæpagera þá sem leigja út húsnæði.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ásgeir tjáir sig um þá hörðu útreið sem hann segist verða fyrir á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum. Árið 2017 harmaði Ásgeir hve fátæklegar viðtökur bók hans um hrunið, Why Iceland?, hefði fengið þegar hún kom út árið 2009. Ásgeir hafði þá um árabil starfað sem aðalhagfræðingur Kaupþings og forstöðumaður greiningadeildar bankans.
„Virkum í athugasemdum – sem voru mjög margir á þessum tíma – fannst að það hefði átt að banna mér að skrifa svona bók en fyrst að skaðinn var skeður ætti fólk að sameinast um að kaupa hana ekki,“ skrifaði hann í fréttablaði frá Virðingu hf. „Virkir athugasemdir eltu mig jafnvel til útlanda ef ég tók þátt í ráðstefnum þar ytra og reyndu að leiða óstaðkunnugt fólk í allan sannleika um hvaða mann ég hefði að geyma, en það er önnur saga.“ Sagði Ásgeir að síðan þá hefði „virkum í athugasemdum fækkað allmikið sem hlyti að „bera vott um bætt atvinnuástand“.
Athugasemdir