Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, telur að með beitingu fjármagnshafta eftir hrun hafi verið brotið gegn mannréttindum Íslendinga. Þetta segir hann í bloggfærslu sem jafnframt er fréttabréf Virðingar hf, en Ásgeir starfar sem efnahagsráðgjafi hjá fyrirtækinu.
„Beiting hafta á árunum 2008 til vorra daga fól í sér brot á mannréttindum íslenskra þegna og mun fela í sér langtímakostnað. Það mun taka langan tíma að byggja upp tiltrú á krónunni á nýjan leik. Vandséð að Ísland geti notið fullkomins ábata frjálsra utanríkisviðskipta sem sem sérstakt myntsvæði þegar litið er fram,“ skrifar Ásgeir.
Ásgeir er dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og var aðalhagfræðingur Kaupþings á árunum fyrir hrun. Nýlega kom út bókin The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World´s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse eftir þá Hersi Sigurgeirsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Í fréttabréfi Virðingar harmar Ásgeir hve fátæklegar viðtökur fyrri bók hans um hrunið, Why Iceland?, fékk en hún kom út árið 2009. „Hér heima galt bókin höfundarins. Virkum í athugasemdum – sem voru mjög margir á þessum tíma – fannst að það hefði átt að banna mér að skrifa svona bók en fyrst að skaðinn var skeður ætti fólk að sameinast um að kaupa hana ekki,“ skrifar hann. „Virkir athugasemdir eltu mig jafnvel til útlanda ef ég tók þátt í ráðstefnum þar ytra og reyndu að leiða óstaðkunnugt fólk í allan sannleika um hvaða mann ég hefði að geyma, en það er önnur saga.“ Segir Ásgeir að nú hafi „virkum í athugasemdum“ fækkað allmikið sem hljóti að „bera vott um bætt atvinnuástand“.
Ásgeir fjallar um helstu niðurstöður bókar þeirra Hersis. Hann segir að ef litið sé á gengislækkun sem efnahagslegt meðal sé ljóst að landsmenn geti ekki stjórnað skammtastærðinni. „Ísland hefði þurft 25% gengislækkun árið 2008 – krónan lækkaði hins vegar um 75% í frjálsum viðskiptum. Með beitingu hafta var hins vegar hægt að fara miðja leið með 50% gengislækkun,“ skrifar Ásgeir og bendir á að allt frá því að Ísland öðlaðist fullveldi hafi landsmenn vegið salt á milli þess annars vegar að njóta ábata alþjóðavæðingar í opnu hagkerfi með tilheyrandi óstöðugleika og hins vegar þess að tryggja stöðugleika með fjármagnshöftum.
„Árin 2001 til 2008 eru eina tímabilið á 100 ára fullveldi þar sem krónan hefur flotið frjáls. Beiting hafta á árunum 2008 til vorra daga fól í sér brot á mannréttindum íslenskra þegna og mun fela í sér langtímakostnað. Það mun taka langan tíma að byggja upp tiltrú á krónunni á nýjan leik. Vandséð að Ísland geti notið fullkomins ábata frjálsra utanríkisviðskipta sem sérstakt myntsvæði þegar litið er fram.“
Athugasemdir