Varnarræður Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar stjórnmálafræðiprófessors fyrir Jair Bolsonaro forseta Brasilíu (sjá t.d. hér, hér og hér) eru holl áminning um hvað stundum er stutt milli gamaldags efnahagslegrar frjálshyggju og fasisma. Það sama á við um ummæli aðstoðarmanns dómsmálaráðherra Íslands þess efnis að Brasilíumenn hafi gott af „forseta sem heldur uppi lögum og reglu“.
Bolsonaro hefur einmitt lýst yfir stuðningi við pyntingar, kallað eftir því að pólitískir andstæðingar verði skotnir, talað fyrir ofbeldi gegn samkynhneigðum og að lögregla fái rýmri heimildir til að skjóta fólk; hann er rasisti og kvenhatari og horfir með söknuði til herforingjastjórnarinnar sem ríkti í Brasilíu frá 1964 til 1985.
Með öðrum orðum: Bolsonaro, hugmyndafræði hans og orðræða í gegnum árin, bera sterk einkenni fasisma. Hannes Hólmsteinn, einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins til margra áratuga, vill hins vegar meina að Bolsonaro sé ekki einu sinni öfgahægrimaður; allt tal um slíkt sé fake news.
Paulo Guedes, nýr fjármálaráðherra Brasilíu, er ötull talsmaður einkavæðingar, flatra skatta og niðurskurðar ríkisútgjalda. Eins og Pinochet sannaði í Chile getur einmitt harkaleg valdbeiting verið snjöll leið til að ná svoleiðis markmiðum fram.
Árið 2000 – löngu eftir að helstu staðreyndir um pyntingar og morð herforingjastjórnar Pinochets á þúsundum manna lágu fyrir – bar Hannes Hólmsteinn (sami maður og bendlar Sólveigu Önnu Jónsdóttur við fjöldamorð vegna þess að hún er sósíalisti) í bætifláka fyrir Pinochet í DV og gerði lítið úr mannréttindabrotunum undir þeim formerkjum að tilgangurinn hefði helgað meðalið.
Sjónarmið Hannesar eru ekki svo frábrugðin þeim sem frjálshyggjumaðurinn Friedrich Hayek viðraði á sínum tíma:
At times it is necessary for a country to have, for a time, some form or other of dictatorial power. As you will understand, it is possible for a dictator to govern in a liberal way. And it is also possible for a democracy to govern with a total lack of liberalism. Personally I prefer a liberal dictator to democratic government lacking liberalism (Viðtal í El Mercurio, 1981).
Annar austurrískur frjálshyggjufrömuður, Ludwig von Mises sem sjálfur var efnahagsráðgjafi fasistakanslarans Engelberts Dollfuss, taldi raunar að fasisminn hefði mikilvægu hlutverki að gegna til varnar vestrænni siðmenningu:
It cannot be denied that Fascism and similar movements aiming at the establishment of dictatorships are full of the best intentions and that their intervention has, for the moment, saved European civilization. The merit that Fascism has thereby won for itself will live on eternally in history. (Ludwig von Mises, Liberalism: In the Classical Tradition, 1927).
Þetta – sú hugmynd að fasismi geti reynst nauðsynlegt neyðarúrræði í baráttunni gegn sósíalisma – er auðvitað lógískt frá sjónarhorni þeirra sem trúa á rétt hins sterka, telja eignarréttinn það heilagasta af öllu heilögu og hafa andstyggð á kröfum skrílsins um jafnari dreifingu verðmæta og efnahagslegt réttlæti.
Athugasemdir