Fjármálaráðuneytið, sem Bjarni Benediktsson stýrir, segir að það falli utan verksviðs þess að svara spurningum um skattamál ráðherrans og hagsmunaskráningu hans á vef Alþingis. Þetta kemur fram í svari frá upplýsingafulltrúa fjármálaráðuneytisins, Elvu Björk Sverrisdóttur, við fjórum spurningum frá Stundinni um skuldaniðurfærslu upp á 67 milljónir króna sem Bjarni fékk í aðdraganda bankahrunsins árið 2008 sem kemur fram í Glitnisskjölunum sem blaðið hefur fjallað um. Bjarni hefur ekki svarað spurningum frá Stundinni um þetta mál eða önnur í Glitnisskjölunum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir.
Í svari ráðuneytisins við spurningunum segir: „Það fellur utan verksviðs ráðuneytisins að svara spurningum sem varða fjárhagsmálefni tiltekinna lögðila og einstaklinga. Þá hefur ráðuneytið ekki í sínum vörslum nein gögn sem fyrirspurninni tengjast.“
Fjármálaráðherra á hverjum tíma er æðsti yfirmaður skattamála á Íslandi og skipar hann meðal annars í embætti ríkisskattstjóra, líkt og Bjarni Benediktsson gerði fyrr á þessu ári þegar Snorri Olsen, fyrrverandi tollstjóri, var skipaður í starfið frá 1. október. Þá er fjármálaráðherra einnig æðsti yfirmaður fjármála íslenska ríkisins og sá sem formlega séð heldur á hlutabréfum ríkisins í fyrirtækjum eins og Landsbankanum sem og öðrum ríkiseignum. Enn fremur skipar fjármálaráðherra stjórn Fjármálaeftirlitsins.
Skuld færð yfir á tengdan aðila
Skuldaniðurfelling Bjarna átti sér stað með þeim hætti að 67 milljóna króna kúlulánaskuld við Glitni var flutt yfir á skuldsett eignarhaldsfélag föður hans, Hafsilfur ehf. sem Bjarni stýrði sjálfur, í febrúar árið 2008. Þannig losnaði Bjarni persónulega við 67 milljóna skuld sem komin var í vanskil og bankinn hafði gert veðköll út af.
Hafsilfur ehf. endaði á því að fá stórfelldar skuldaniðurfellingar eftir bankahrunið 2008 og má því segja að lán Bjarna hafi aldrei verið greitt til baka og íhugaði skilanefnd Glitnis að reyna að rifta yfirfærslunni á skuldinni yfir á eignarhaldsfélagið eftir bankahrunið.
„Ég myndi halda það að svona mál kalli á einhver viðbrögð; það þurfa að koma einhverjar skýringar.“
Spurningum ósvarað
Samkvæmt reglum um hagsmunaskráningu þingmanna eiga þeir að tilgreina „eftirgjöf eftirstöðva skulda“ eða „ívilnandi breytingar á skilmálum samnings við lánardrottin“. Í svörum Bjarna á vef Alþingis er ekkert tilgreint í svari hans við þessari spurningu og er ekki vitað til þess að Bjarni hafi nokkru sinni nefnt skuldaafléttingu sína í hagsmunaskráningu sinni en reglur um hagsmunaskráningu þingmanna voru settar um hálfu ári eftir eftir bankahrunið árið 2008, á fyrri helmingi ársins 2009.
Þá liggur heldur ekki ljóst fyrir hvernig skattaleg meðferð Bjarna á skuldaniðurfærslunni var. Tveir sérfræðingar hafa tjáð sig um slík mál almennt séð við Stundina og sagt að svara þurfi því með hvaða hætti skuldaniðurfærslan var afgredd skattalega. Þó sé ekkert hægt að fullyrða um hana nema að fá frekari upplýsingar frá þeim sem fékk skuldaniðurfærsluna, í þessu tilfelli Bjarna Benediktssyni.
Ásmundur Vilhjálmsson, lögfræðingur og sérfræðingur í skattarétti, segir um málið: „Þetta hljómar eins og þetta hafi verið gjöf því varla voru þetta laun,“ segir Ásmundur. Ásmundur segir að almennt séð megi flokka eftirgjöf skulda sem tekjur og skattleggja þær þannig.
Indriði Þorláksson, hagfræðingur og fyrrverandi ríkisskattstjóri, segir einnig að almennt sé eftirgjöf skulda skattskyld. „Almennt séð ber að flokka þetta sem tekjur,“ segir Indriði. „Samkvæmt mínum skilningi á skattalögum telst þetta til tekna,“ segir hann.
Þá segir Ásmundur enn frekar: „Almennt séð, hvað þetta áhrærir, myndi maður staldra við og skoða svona mál. Það liggur í hlutarins eðli. Hlutverk skattayfirvalda er að fylgjast með þessu og rannsaka þetta. Ef um væri að ræða einhvern venjulegan sóldáta þá myndi þetta alla vega þykja nokkuð óvenjulegt. Ég myndi halda það að svona mál kalli á einhver viðbrögð; það þurfa að koma einhverjar skýringar.“
Átti Bjarni í viðskiptum við félag föður síns?
Annar möguleiki er svo einfaldlega sá að Bjarni hafi litið svo á að hann hafi átt í viðskiptum við Hafsilfur ehf. Þar sem skuldinni fylgdu hlutabréf í móðurfélagi olíufélagsins N1 og að hann hafi þá verið að selja hlutabréfin sín í félaginu sem greitt hafi fyrir þau með yfirtöku skulda.
Í ljósi þess hvernig viðskiptin bar að og vegna þess að hlutabréfin í BNT ehf. höfðu fallið svo í verði er spurning hvort um hafi verið að ræða eðlileg viðskipti og hefur ríkisskattstjóri heimild til að hlutast til um slík viðskipti, samkvæmt 57. grein skattalaga, og endurákvarða skattgreiðslur í slíkum viðskiptum.
Hvernig liggur í málinu er hins vegar ennþá fyllilega óljóst þar sem eini aðilinn sem getur svarað til um það, Bjarni Benediktsson, hefur ekki enn svarað spurningum um viðskiptin og virðist ekki ætla að gera það.
Athugasemdir