Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Lán Bjarna Bene­dikts­son­ar var fært yf­ir á skuld­sett eign­ar­halds­fé­lag föð­ur hans sem var svo slit­ið eft­ir hrun. Slita­stjórn Glitn­is tók mál­ið til skoð­un­ar: „Það finnst eng­inn fund­ar­gerð þar sem skuld­skeyt­ing­in er leyfð.“

Bjarni Benediktsson var losaður undan 50 milljóna kúluláni sem hann hafði tekið persónulega hjá Glitni og skuldin færð yfir á eignarhaldsfélag föður hans, Hafsilfur ehf. 

Skuldskeytingin átti sér stað þann 1. febrúar árið 2008 en Bjarni fékk lánið vegna kaupa á Olíufélaginu árið 2006. Þetta sýna gögn sem Stundin hefur unnið úr í samstarfi við The Guardian.

Slitastjórn bankans tók málið til sérstakrar skoðunar eftir hrun og taldi að með skuldskeytingunni hefði bankinn gefið eftir kröfur sem ellegar hefðu verið meiri líkur á að greiddust. Var sérstaklega bent á að hvergi væri fjallað um gjörninginn í fundargerðum bankans og enga bókun væri að finna um málið. 

„Það finnst enginn fundargerð þar sem skuldskeytingin er leyfð,“ segir í skjali slitastjórnarinnar frá því í apríl 2011. Tveimur árum síðar, þann 22. júlí 2013, var Hafsilfri slitið eftir að skuldir þess höfðu rokið upp úr öllu valdi. 

Seldi hlutinn í N1 fyrir hrun

Bjarni fékk kúlulánið vegna kaupa hans og skyldmenna hans á hlutabréfum í Olíufélaginu. Stundin fjallaði um viðskiptin á föstudag, en samtals lánaði Glitnir um 26,6 milljarða vegna yfirtöku Engeyinga og viðskiptafélaga þeirra á fyrirtækinu sem síðar fékk heitið N1. Kúlulán Bjarna var veitt til þriggja ára með handveði í skráðum verðbréfum sem hann var með í stýringu hjá einkabankanum. 

Bjarni átti hlutaféð í N1 áfram og á hlutahafalista N1 í árslok 2007 var hann skráður fyrir rúmlega 0,8 prósenta hlut í félaginu sem var 82 milljóna króna virði. DV greindi svo frá því árið 2009 að Bjarni hefði selt Einari Sveinssyni, föðurbróður sínum, hlutinn á fyrri helmingi hrunársins 2008.

Bjarni losaður undan persónulegri ábyrgð

Kúlulánið hjá Glitni var fært yfir á Hafsilfur í byrjun febrúar 2008. Um þetta leyti var Vafningsfléttan svokallaða í undirbúningi, viðskiptaflétta sem gekk í meginatriðum út á að flytja áhættuna á bak við stóran hluthafa Glitnis, Þátt International sem var meðal annars í eigu félaga Einars og Benedikts Sveinssonar, yfir á Glitni en um leið að gefa bankanum gálgafrest og koma í veg fyrir verðfall hlutabréfa. 

Tveimur mánuðum eftir skuldskeytinguna, þann 1. apríl 2008, var veð í vörslureikningi Bjarna, sem hann hafði lagt fram fyrir kúluláninu, fellt niður.

Í staðinn komu handveð í hlutabréfum í BNT og tryggingar í vörslureikningi í eigu Hafsilfurs.

BNT-samstæðan var yfirtekin af kröfuhöfum árið 2011 og skuldaði þá rúma 50 milljarða. Ári síðar var BNT hf úrskurðað gjaldþrota og 4,3 milljarða skuldir þess afskrifaðar. Voru íslenskir lífeyrissjóðir á meðal þeirra sem töpuðu á falli N1-veldisins. 

Sagðist hafa gert upp skuldir við Glitni

Bjarni tjáði sig um skuldir sínar við Glitni í Kastljóssviðtali árið 2010. „Þær skuldir voru allar uppgerðar á því ári [2008]. Ég hef enga óeðlilega fyrirgreiðslu fengið neins staðar,“ sagði hann. 

Gögnin sem Stundin hefur undir höndum staðfesta að 50 milljóna skuld Bjarna Benediktssonar við Glitni var færð yfir í skuldasafn Hafsilfurs, eignarhaldsfélags föður hans, í febrúar 2008, sama mánuði og Bjarni átti aðkomu að Vafningsfléttunni og seldi hlutabréf sín í bankanum. 

„Ég hef enga óeðlilega
fyrirgreiðslu fengið“

Hafsilfur samdi um skuldauppgjör við Íslandsbanka í lok ársins 2012 og félaginu var gefið nafnið Malvík ehf. Ekki liggur fyrir hve mikið þurfti að afskrifa hjá félaginu. Samkvæmt slitareikningi þess nam leiðrétting og eftirgjöf skulda meira en 3 milljörðum króna á reikningsárinu 2012 en skuldirnar voru horfnar árið 2013. 

Benedikt á í dag annað félag sem einnig heitir Hafsilfur. Það var stofnað árið 2008 og er notað til fjárfestinga hans, meðal annars í ferðaþjónustufyrirtækinu Kynnisferðum. 

Báðir leystir undan persónulegum ábyrgðum

Benedikt Sveinssoneigandi Hafsilfurs og faðir Bjarna Benediktssonar

Sjálfur var Benedikt Sveinsson leystur undan sjálfskuldarábyrgð vegna lána Glitnis til Hafsilfurs í aðdraganda hrunsins.

Beiðni um niðurfellingu sjálfskuldarábyrgðarinnar var afgreidd í tölvukerfi bankans þann 29. september 2008, sama dag og Glitnir var þjóðnýttur, en þremur dögum áður, þann 26. september, hafði Benedikt innleyst 500 milljóna eignir úr Sjóði 9 og sent til Flórída. 

Hvort tveggja, niðurfelling sjálfskuldarábyrgðarinnar og 500 milljóna greiðslan til Flórída, var á meðal þess sem slitastjórn Glitnis tók til sérstakrar skoðunar á árunum eftir hrun sem möguleg riftunarmál í ljósi innherjaupplýsinga sem talið var hugsanlegt að Benedikt hefði búið yfir.

Á endanum þótti þó ekki ástæða til að láta reyna á málin fyrir dómstólum. 

Litu á Bjarna sem eiganda Hafsilfurs

Eins og Stundin hefur áður greint frá tók Bjarni virkan þátt í fjárfestingum Hafsilfurs. Svo virðist sem Glitnir hafi í raun litið á Bjarna sem eiganda félagsins. Í tölvupósti frá því í apríl 2008 kom t.d. fram að lánagögn vegna Hafsilfurs ættu ekki að vera send heim til Bjarna eða Benedikts heldur til Bjarna Markússonar, frænda þeirra sem sá um málefni þeirra beggja í einkabankaþjónustu Glitnis. 

Orðrétt sagði í tölvupósti frá starfsmanni Glitnis: „Hafsilfur ehf. (Bjarni Benediktsson) fékk sent heim til sín seðil yfir vanskil á USD lán hjá sér. Hann Bjarni viðskiptastjóri hans bað mig að ítreka það að ekkert á að fara til Benedikts, það á allt að fara til Bjarna viðskiptastjóra hjá 580 sem snertir lánin hans.“ Þá sýna tölvupóstsamskipti að Bjarni var boðaður á fund árið 2006 vegna lánamála Hafsilfurs þótt félagið væri í eigu föður hans. 

Þessi skilningur virðist hafa erfst til slitastjórnar Glitnis. Í skjali slitastjórnar frá apríl 2011 þar sem fjallað er um skuldskeytinguna segir: „Ljóst er að hér er um að ræða að skuldbinding er færð af eiganda félags yfir á félagið og bankinn gefur eftir kröfur sem annars hefðu verið meiri líkur á að greiddust.“ 

Hér má sjá afrit af skjalinu frá slitastjórn Glitnis:

Slitastjórnin gat ekkert gert

Þá virðist tímasetning niðurfellingar veðsins í vörslureikningi hafa sett strik í reikninginn að því er varðar hugsanlegar aðgerðir slitastjórnarinnar.

„Þessi gjörningur er hins vegar gerður rétt utan við 6 mánaða mörkin eða fyrir 15 maí 2008. Veð í vörslureikningi er fellt niður þann 1 apríl 2008,“ segir í skjalinu en með þessu er átt við slitastjórnin gat ekki rift skuldskeytingu á grundvelli gjaldþrotalaga vegna falls Glitnis um haustið. 

Þess vegna slapp Bjarni Benediktsson á endanum við þetta 50 milljóna króna lán og það lenti í milljarða króna skuldahít eignarhaldsfélags föður hans. 

Stundin hefur ítrekað óskað eftir viðtölum við Bjarna Benediktsson í gegnum aðstoðarkonu hans Svanhildi Hólm Valsdóttur. Bjarni hefur hins vegar ekki orðið við þeirri beiðni. 

Glitnir misnotaður

Eins og frægt er orðið fólu Einar og Benedikt Sveinssynir Bjarna Benediktssyni umboð til að veðsetja hlutabréf í félaginu Vafningi fyrir hönd eignarhaldsfélaganna BNT, Hafsilfurs og Hrómundar í byrjun febrúar 2008. Þetta var forsenda þess að Glitnir gæti veitt 100 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone þann 8. febrúar. 

Sérstakur saksóknari ákærði síðar þá Lárus Welding og Guðmund Hjaltason vegna lánveitingarinnar og taldi viðskiptin hafa átt þátt í falli bankans. Þeir voru á endanum sýknaðir í Hæstarétti sem taldi „ósannað að farið hafi verið umfram þá áhættu, sem bankinn hafi talið viðunandi“. Hins vegar kom skýrt fram í dómi Hæstaréttar að enginn vafi léki á því að ásetningurinn á bak við lánveitinguna hefði „staðið til misnotkunar“ og að hinir ákærðu hefðu tekið hagsmuni lántaka fram yfir hagsmuni Glitnis. 

Gögn frá bankanum sem Stundin hefur undir höndum sýna að Benedikt og Hafsilfur seldu hlutabréf í Glitni fyrir um 850 milljónir króna vikurnar eftir Vafningsfléttuna. Tölvupóstsamskipti benda til þess að Bjarni Benediktsson hafi sjálfur fundað með Guðmundi Ólasyni, þáverandi forstjóra Milestone, og Lárusi Welding, bankastjóra Glitnis, í febrúar. Tveimur dögum eftir fundinn með Lárusi hóf Bjarni sölu á hlutabréfum sínum í bankanum og seldi fyrir rúmlega 119 milljónir króna.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Glitnisgögnin

Selur bankann sem fjölskyldan átti
Úttekt

Sel­ur bank­ann sem fjöl­skyld­an átti

Bjarni Bene­dikts­son upp­lýsti ekki um að­komu sína að fjár­fest­ing­um Eng­ey­inga á með­an hann sat á þingi í að­drag­anda hruns. Fjöl­skylda hans átti ráð­andi hlut í Ís­lands­banka sem lán­aði fé­lög­um þeirra tugi millj­arða króna og einnig Bjarna per­sónu­lega. Nú mæl­ir hann fyr­ir sölu rík­is­ins á hlut í bank­an­um. For­sag­an skað­ar traust, að mati sam­taka gegn spill­ingu.
Atburðarásin í aðdraganda hruns: Hvað vissum við og hvað vissu þeir?
Rannsókn

At­burða­rás­in í að­drag­anda hruns: Hvað viss­um við og hvað vissu þeir?

Þeg­ar erf­ið­leik­ar komu upp hjá Glitni og stór­um hlut­höf­um, fyrst í fe­brú­ar 2008 og svo í sept­em­ber, skipt­ist Bjarni Bene­dikts­son á upp­lýs­ing­um við stjórn­end­ur Glitn­is og sat fundi um stöðu bank­anna með­an hann sjálf­ur, fað­ir hans og föð­ur­bróð­ir komu gríð­ar­leg­um fjár­mun­um í var. Hér er far­ið yf­ir at­burða­rás­ina í máli og mynd­um.
Hæstiréttur veitir Glitni HoldCo áfrýjunarleyfi til að úrskurða hvort Stundin eigi að afhenda gögn
FréttirGlitnisgögnin

Hæstirétt­ur veit­ir Glitni HoldCo áfrýj­un­ar­leyfi til að úr­skurða hvort Stund­in eigi að af­henda gögn

Lög­bann­ið er fall­ið úr gildi en mál Glitn­is HoldCo gegn Stund­inni held­ur áfram fyr­ir Hæsta­rétti, sam­kvæmt ákvörð­un rétt­ar­ins. Hæstirétt­ur ætl­ar að fjalla um kröf­ur Glitn­is HoldCo þess efn­is að við­ur­kennt verði að Stund­inni sé óheim­ilt að byggja á Glitn­is­skjöl­un­um og beri að af­henda gögn­in.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár