Það er fátt sem er eins líklegt til að valda félagslegri útskúfun eins og að byrja snemma að undirbúa jólin. Þegar fyrsta jólalagið heyrist í útvarpi, oft svona í byrjun nóvember, skríða internet-tröllarnir niður úr hellum sínum og gera sitt besta til að stela jólunum. Þessi andróður þeirra gegn því sem gleður hefur meira að segja skilað þeirri önugu reglu í Ríkisútvarpinu að þar er beinlínis lagt bann við spilun jólalaga fyrr en eftir 1. desember. Meira að segja þó aðventan byrji sum ár fyrir mánaðamót.
Það eru áhöld um hvort tröllarnir hatist meira út í, jólalögin eða þegar fólk byrjar að skreyta híbýli sín með jólaskrauti og ljósum. Tröllarnir tauta í barminn í desembermánuði en ef nokkrum dettur í hug að byrja fyrr að skreyta, kannski um miðjan nóvember, þá er þeim að mæta. Samfélagsmiðlar fyllast af hástemmdum yfirlýsingum tröllanna um smekkleysi jólaskreytinga, um heljartök kapítalismans á hinni kristnu hátíð (sem kristnin stal af heiðingjunum) og hversu naívt fólk það sé sem fylli heimili sitt af skrauti og ljósum. Trölli er víða.
Tíminn frá sólrisi og til sólarlags um miðjan nóvember er svona um það bil sjö klukkutímar. Svolitla glætu má sjá í um það bil klukkutíma fyrir sólarupprás, þegar birting verður, og í svona klukkutíma eftir að sólin sest, þar til að myrkur er skollið á. Með öðrum orðum, um miðjan nóvember er kolniðamyrkur í fimmtán klukkutíma á sólarhring, og þetta fer bara versnandi í rúman mánuð í viðbót, allt þar til sólhvörf verða 21. desember og sólargangurinn tekur að lengjast.
Þeir sem byrja jólaundirbúninginn snemma eru að leita að einhverju til að gleðjast yfir og létta sér svartasta skammdegið. Þeir lýsa upp heimili sín og umhverfi með birtu og yl, jólaseríum og kertaljósum, baka smákökur og hlusta á jólalög. Þetta finnst tröllunum, sem hafa þremur númerum of lítið hjarta, ómögulegt. Og megi þau bara eiga sig og sína fýlu. Ég vildi að alla daga væru jól.
Athugasemdir