Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnra, gagnrýnir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir að „tala niður“ Evrópusambandið. Hann segir evruna stöðugan og trúverðugan gjaldmiðil sem geri það að verkum að matarkarfan sé ódýrari og húsnæðiskostnaður bærilegri á evrusvæðinu heldur en á Íslandi. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Logi birtir á Facebook.
Tilefni færslunnar eru orðaskipti Katrínar Jakobsdóttur við Oddnýju Harðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um stöðu krónunnar á Alþingi í morgun.
Benti Katrín á að ýmis ríki álfunnar á evrusvæðinu glímdu við verulegan vanda í stjórn efnahagsmála, „nú síðast Ítalía sem á í miklum deilum við yfirstjórn Evrópusambandsins vegna þeirra aðgerða sem þar er talað um að grípa til og krafna Evrópusambandsins um aukinn niðurskurð í ríkisrekstri“. Sagði Katrín að innan ESB hefði ekki verið gripið til aðgerða sem nauðsynlegar væru til að evran þjónaði vel þeim ríkjum álfunnar sem teljast á jaðarsvæðum (e. peripheral countries).
Logi bregst við með eftirfarandi stöðuuppfærslu:
Á tímum þegar alþjóðasamvinna hefur aldrei verið mikilvægari talar Katrín Jakobsdóttir niður okkar mikilvægasta samstarfsaðila; Evrópusambandið.
Í andsvari sínu í dag, við mikilvægri fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttir um dýfu krónunnar, sagði Katrín Evruna ekki þjóna íbúum Evrópusambandsins og að rannsóknir hafi sýnt að jaðarsvæði innan Evrópusambandsins hafi ekki hagnast á aðild.
Evran er engin töfralausn en hún er stöðugur og trúverðugur gjaldmiðill. Gjaldmiðill sem heldur vöxtum og verðbólgu lágri og gerir það að verkum að matarkarfan er ódýrari og húsnæðiskostnaður er mun bærilegri en á Íslandi. Fyrir utan að búa fyrirtækjum öruggara rekstrarumhverfi og betri samkeppnishæfi.
Evrópusambandið hefur ekki verið jafn vinsælt meðal íbúa þess í 35 ár og traust á Evrusvæðinu færist sífellt í aukana. Hagvöxtur í Evrópusambandinu hefur ekki verið meiri í áratug.
Og talandi um jaðarsvæði - þá eru fá lönd og svæði innan Evrópu sem hafa hagnast jafn mikið á samstarfinu.
Sú staðreynd að ríkustu þjóðir heims í Vestur-Evrópu hafi ákveðið að taka inn Austur-Evrópu, nánast eins og hún lagði sig að loknu kalda stríði er ein stærsta þróunaraðstoðar- friðar og stöðugleikaaðgerð mannkynssögunar.
En af því að tímabundin heimskreppa skall á (reyndar hvergi harðar en í „stöðugleikalandi” krónunnar) er aldrei talað um þetta.
Svæði innan Evrópusambandsins á norðurslóðum fá sérstaka landbúnaðar- og atvinnustyrki - svo ekki sé talað um bráðnauðsynlega styrki til þróunar og nýsköpunar. Þar hefur Evrópusambandið verið leiðandi. Þetta eru digrir sjóðir sem við gætum sótt í sem aðildarríki.
Athugasemdir