Kostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands fór rúmlega 40 milljónir fram úr upphaflegri áætlun og kostaði samtals um 87 milljónir. Kostnaðurinn er sundurgreindur á vef Alþingis en þar kemur fram að lýsingin ein og sér hafi kostað rúmar 22 milljónir. Atburðurinn var haldinn úti um hábjartan dag.
„Kostnaður var nokkuð umfram áætlun. Er það einkum vegna þess að tekin var ákvörðun um að hafa lýsingu og hljóð af bestu gæðum þar sem atburðurinn var í beinni útsendingu,“ segir í tilkynningu á þingvefnum. „Einnig var haft í huga að upptaka af fundinum myndi varðveitast til framtíðar sem heimild um sögu þjóðarinnar. Vinna við að bæta og laga göngustíga á Þingvöllum fyrir viðburðinn mun áfram nýtast gestum þjóðgarðsins.“
Hátíðardagskráin á Alþingi fór fram í skugga harðvítugra deilna um ræðuhöld og veru Piu Kjærsgaard á fundinum, þingforseta Dana sem er þekkt fyrir útlendingaandúð og boðun harðrar innflytjendastefnu.
Kusu Píratar að sniðganga fundinn og sögðu þjóðina eiga „betra skilið en að gælt sé við öfgaþjóðernishyggju í hennar nafni“. Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, gekk út meðan Pia Kjærsgaard flutti ræðu sína.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, gagnrýndi þingmennina harðlega og sendi út fréttatilkynningu þar sem hann harmaði að heimsókn Piu Kjærsgaard hefði verið „notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin“.
Athugasemdir