Sigurður G. Guðjónsson lögmaður vill ekki upplýsa um hvaða aðilar veittu félagi hans 475 milljóna króna lán til að fjármagna rekstur DV og annarra fjölmiðla. Tap Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., sem gefur út DV og fjölda vefmiðla, var 54,5 milljónir krónafyrir skatta á árinu 2017, þá fjóra mánuði sem félagið hélt utan um reksturinn. Framkvæmdastjóri félagsins, Karl Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segir tapreksturinn hafa verið greiddan af Sigurði.
Frjáls fjölmiðlun, félag skráð í eigu Sigurðar G., keypti DV síðasta haust af fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar og með því vefmiðlana Pressuna, Eyjuna, 433.is, Bleikt auk fleiri miðla. Samkvæmt ársreikningum er Frjáls fjölmiðlun alfarið í eigu félagsins Dalsdals ehf. sem er í 100% eigu Sigurðar. Félagið lánaði Frjálsri fjölmiðlun 425 milljónir króna á árinu, sem greiðist til baka með árlegum 85 milljóna króna afborgunum 2018 til 2022.
Þá kemur fram að Dalsdalur fékk 475 milljónir króna lánaðar í fyrra frá óþekktum aðilum og hefur þegar greitt vexti af láninu upp á 13.533.333 kr. Félagið hyggst greiða upphæðina til baka í einni afborgun í ár, þrátt fyrir að lánveiting þess til Frjálsrar fjölmiðlunar skili sér ekki til baka í heild fyrr en 2022.
Hagsmunatengsl skipti „akkúrat engu máli“
„Það er bara á milli þeirra sem taka lán og veita lán,“ segir Sigurður um lánið. „Hverju breytir það hvort það er fjölmiðill eða ekki?“
Aðspurður hvort það skipti ekki máli að gera upplýsingar um endanlega eign á fjölmiðlum og hagsmunatengsl opinberar segir Sigurður að hann telji svo ekki vera. „Akkúrat engu máli,“ segir hann við blaðamann Stundarinnar. „Ég held ég hafi bara ekkert við þig að tala um ársreikninga þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem ég stjórna.“
„Hverju breytir það hvort það er fjölmiðill eða ekki?“
Sigurður segir enn á döfinni að fá fleiri fjárfesta inn í reksturinn og að það muni allt koma í ljós. „Það liggur ekkert á og öll lán félagsins eru í skilum,“ segir Sigurður.
Þegar Sigurður keypti fjölmiðla Pressunnar síðasta haust, DV, Eyjuna, Pressuna og fleiri miðla, var fyrirtækið á leið í gjaldþrot og hefði skilið eftir sig hundruð milljóna króna skuldir, meðal annars við opinbera aðila eins og Tollstjóra vegna vangreiddra skatta. Gjaldþrotabeiðni gegn einstaka dótturfélögum lá fyrir hjá sýslumanni þegar hann keypti fjölmiðlana af Pressunni.
Samkvæmt ársreikningi kostaði útgáfurétturinn sem Frjáls fjölmiðlun keypti af Pressunni 476 milljónir króna. Er hann bókfærður sem 470 milljóna króna óefnisleg eign eftir þróunarkostnað og afskriftir. Frjáls fjölmiðlun var með neikvætt eigið fé upp á 13,4 milljónir króna. Þá kostuðu kaup Dalsdals á öllu hlutafé Frjálsrar fjölmiðlunar félagið 30 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi. Dalsdalur tapaði 1,8 milljónum króna árið 2017 og var eigið fé félagsins neikvætt um 1,4 milljónir króna.
Fullyrða að Björgólfur Thor standi að baki DV
Halldór Kristmannsson, sem sér um samskipti við fjölmiðla fyrir hönd Alvogen og athafnamannsins Róberts Wessmann, sagði í samtali við Stundina í júní að Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir, eða félög á hans vegum, standi á bak við fjármögnun DV eftir hatursfull átök milli hluthafa um fjölmiðlafyrirtækið á síðasta ári og þessu. Björgólfur Thor hafi jafnvel bein afskipti af ritstjórn DV. Sigurður hefur neitað því að svara hvort Björgólfur sé með í rekstri miðlanna.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hafa Róbert og Björgólfur Thor átt í áralöngum deilum sem hófust þegar þeir unnu saman að Actavis á síðasta áratug. Björgólfur rak þá Róbert úr stóli forstjóra Actavis eftir að hann hafði eignast samheitalyfjafyrirtækið. Síðan þá hefur andað köldu á milli þeirra með tilheyrandi málsóknum, skeytasendingum í fjölmiðlum og annars konar deilum.
Félag tengt Róberti, Dalurinn ehf., setti tugmilljóna króna hlutafé inn í Pressuna ehf. fyrr á árinu 2017 en stjórn Pressunnar seldi allar helstu eignir félagsins út úr því í kjölfarið til Frjálsrar fjölmiðlunar. Þetta var gert án vitneskju Dalsins og þýddi í reynd að Pressan var búin að selja þær eignir sem Dalurinn var nýbúinn að kaupa í.
Segir viðsnúning á taprekstrinum í ár
Aðspurður hver fjármagnar rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar, segir Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri félagsins, það vera Sigurð. „Við fáum fjármagn frá eiganda félagsins.“
Karl segist vonast til þess að rekstur félagsins nái jafnvægi á þessu ári. „Tekjur hafa aukist dálítið mikið hjá okkur, auk þess sem við höfum verið í fasa sem varðar aðhald í rekstri,“ segir Karl. „Það helst í hendur hvort tveggja, að taka til í rekstrinum allt árið og að auka tekjurnar.“
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti á dögunum frumvarp um endurgreiðslur til einkarekinna fjölmiðla. Stuðningurinn mun nema um 350 milljónum króna frá og með árinu 2019 og nema 20–25% af ritstjórnarkostnaði fjölmiðla, verði frumvarpið að lögum.
Karl hefur gagnrýnt að það halli á einkarekna fjölmiðla í samkeppni við RÚV og segir mikilvægt að útfærsla frumvarpsins styðji við smærri fjölmiðla. „Auðvitað skiptir það máli fyrir einkarekna fjölmiðla, en það á alveg eftir að koma í ljós hverju þetta skilar í raun fyrir minni fjölmiðla,“ segir hann. „Það er svolítið erfitt að átta sig á þessu á meðan einni tölu er hent fram, því það liggur ekki fyrir hvernig þessari endurgreiðslu til fjölmiðla verður í raun háttað. Það er talað um að endurgreiða kostnað við ritstjórnir en það er ekki skilgreint hvað það þýðir í raun.“
Athugasemdir