Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, telur þær kjarabætur sem felast í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar heldur rýrar. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, er sama sinnis og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir frumvarpið valda vonbrigðum. Allt of lítið sé gert fyrir vinnandi fólk.
„Persónuafsláttur hækkar um 539 kr. Hluta af skertum barnabótum skilað til baka. Vörugjöld á bensín og bifreiðar hækka. Vaxtabætur lækka um 600 milljónir. Heildsalar og framleiðslufyrirtæki eru að hækka verð. Krónan hefur veikst um 7-8% gagnvart USD og Evru frá 1. ágúst. Seðlabankinn hótar vaxtahækkunum verði launahækkanir umfram 4%. Fjármálaráðherra talar um veislu á meðan fólkið okkar er að gefast upp.“ Þannig kemst Ragnar Þór að orði á Facebook.
„Kynslóðirnar á undan náðu fram, með þrotlausri baráttu, öllum þeim réttindum og lífsgæðum sem við þekkjum í dag. Hvernig samfélagi ætlum við að skila til afkomenda okkar? Ætlum við að skila af okkur samfélagi betri lífskjara eða vera kynslóðin sem taldi lífskjarabaráttuna snúast um okkur sjálf eða hvað er í þessu fyrir mig á meðan innviðir samfélagsins molna undan okkur?“ skrifar Ragnar Þór. „Ætlum við að láta þetta yfir okkur ganga eða standa saman í að bæta lífskjör þannig að við getum búið í samfélagi þar sem hægt er að lifa með mannlegri reisn af dagvinnulaunum og fá ekki lífstíðar fátæktardóm ef eitthvað kemur upp á?“
Sólveig Anna Jónsdóttir hjá Eflingu sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að hækkun persónuafsláttarins og barna- og vaxtabóta væri alltof lítil og aukning hússnæðisstuðnings snautleg. Drífa Snædal, sem hefur boðið sig fram til forseta Alþýðusambandsins, fer líka hörðum orðum um fjárlagafrumvarpið.
„Metnaðarleysið til að bæta
lífskjör og jafna stöðu fólks algert“
„Fjárlagafrumvarpið gefur okkur litlar væntingar um að stjórnvöld ætli sér að standa með vinnandi fólki. Þvert á móti er metnaðarleysið til að bæta lífskjör og jafna stöðu fólks algert,“ skrifar Drífa. „Þau skemmdarverk sem hafa verið unnin jafnt og þétt á skatt- og bótakerfunum síðustu ár eru ekki leiðrétt sem neinu nemur og hinir ósnertanlegu, þeir sem greiða sér arð af sameiginlegum auðlindum og vinnuframlagi eru enn jafn stikk frí þegar kemur að því að leggja í sameiginlega sjóði. Það er ljóst að verkalýðshreyfingin hefur verk að vinna í vetur og eina vonin til þess að snúa af braut ójafnaðar er sameinuð hreyfing.“
Verkalýðsforingjarnir hafa boðað harða kjarabaráttu á komandi vetri. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á fundi hjá Félagi atvinnurekenda í gær að ef hugmyndir um stórfelldar almennar launahækkanir yrðu að veruleika gæti Seðlabankinn vart annað en hækkað vexti til að halda aftur af verðbólgu.
Athugasemdir