Glódís Tara Fannarsdóttir, ein af fimm konum sem lögmaðurinn Róbert Downey braut gegn þegar þær voru á ungslingsaldri, mótmælir ákvörðun lögreglu um að hætta rannsókn á minnisbók mannsins, þar sem hann hafði skrifað niður nöfn 335 kvenna eða stúlkna.
Lögreglan hefur ákveðið að láta af rannsókn á minnisbókinni á þeim grundvelli að brot hafi ekki verið greinanleg út frá gögnunum og að ef þau hefðu átt sér stað, væru þau hvort sem er fyrnd.
„Ég var ein af þeim sem var á þessari skrá,“ segir Glódís á Facebook-síðu sinni um ákvörðun lögreglu. „Hann var með skrá yfir 335 unglingsstelpur. Í þessari skrá eru stelpur sem líklegt er að hann hafi brotið á, alveg eins og hann braut á okkur sem stigum fram síðasta sumar þegar hann fékk uppreist æru og sögðum okkar sögu.“
Róbert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson og starfaði sem lögmaður, hafði þann háttinn á að þykjast vera ungur piltur til að tæla unglingsstúlkur til að hitta sig, þar sem hann sætti lagi og braut gegn þeim. Róbert var dæmdur fyrir brot gegn fimm unglingsstúlkum, en fékk síðar uppreist æru af hálfu dómsmálaráðuneytisins og forseta Íslands. Þegar upp komst um að stjórnvöld hefðu sæmt hann „óflekkuðu mannorði“ þrátt fyrir alvarleg brot hans, reis upp mótmælabylgja.
Glódís lýsir því að hún hafi í gær vaknað af martröð um Róbert Downey. „Ég fæ ekki oft martraðir á nóttuni en í gær vaknaði ég upp í kvíða vegna einnar slíkrar. Í martröðini var maður úr fortíð minni að elta mig hvert sem ég fór. Í dag sé ég frétt um þennan sama mann,“ sagði Glódís, þegar hún fregnaði í gær af niðurfellingu rannsóknarinnar. „Okkur var lofað að minnisbókin yrði rannsökuð!“
Athugasemdir