Ríkisstjórnin hefur til skoðunar breytingar á tekjuskattskerfinu sem miða að því að tekjutengja persónuafslátt og endurskoða skatthlutföll og skattþrep. Horft er til þess að persónuafslátturinn verði fyrst stighækkandi en síðan stiglækkandi með tekjum eftir að ákveðnu hámarki hefur verið náð. Þá verði hann útgreiðanlegur til þeirra sem ekki ná að fullnýta hann.
Þessar hugmyndir liggja til grundvallar vinnu sérfræðingahóps um heildarendurskoðun á tekjuskatti einstaklinga. Þetta staðfestir Axel Hall, formaður hópsins, og vísar til umfjöllunar í rammagrein fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem ber yfirskriftina „Betra tekjuskattskerfi“. Þar kemur fram að ríkisstjórnin vilji að framtíðarkerfi tekjuskatts og bóta verði „einfaldara, skilvirkara og gegnsærra“ en núverandi kerfi, hvetji til vinnu en auki ráðstöfunartekjur tekjulágra. „Þetta er í grunninn verkefni nefndarinnar,“ segir Axel. Í rammagrein fjármálaáætlunar og tillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld frá 2016 er lagt upp með að tekjuhærri einstaklingar verði án persónuafsláttar en greiði í staðinn lægri jaðarskatt, það er lægra hlutfall hæstu tekna sinna í skatt en nú er.
Stýrinefnd skipuð aðstoðarmönnum ráðherra fylgist með vinnu sérfræðingahópsins og munu fyrstu tillögur liggja fyrir í október. Náist ekki samstaða um breytingar í anda rammagreinarinnar má vænta einfaldari skattbreytinga, svo sem eins prósentustigs lækkun á skatthlutfalli neðra þreps eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur talað fyrir og upphaflega var boðað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Slíkt myndi fela í sér þrisvar sinnum meiri búbót fyrir hátekjufólk heldur en fólk á lágmarkslaunum.
Möguleg útfærsla á hinni leiðinni, sem var kynnt á samráðsfundi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í sumar, felur í sér að manneskja sem í dag myndi greiða 46,24 prósenta skatt af tekjum yfir 893 þúsund krónum á mánuði myndi greiða lægra hlutfall þessara tekna í skatt en á móti glata persónuafslættinum sem í dag nemur 646.739 krónum á ári. Fyrir þann fámenna hóp sem þénar nógu háar launatekjur til að ábatinn af lækkun skatthlutfallsins í efra þrepi sé meiri en nemur brottfellingu persónuafsláttarins myndu breytingarnar þannig fela í sér kjarabætur. Þetta á til að mynda við um tekjuhæstu forstjóra landsins og stjórnendur í fjármálageiranum sem þéna tugi milljóna á mánuði.
Athugasemdir