Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, gagnrýnir harðlega manneklu og skerta þjónustu hjá lögreglu í færslu sem hann birti á Facebook í gær. Til vitnis um bágt ástand nefnir hann að kunningi sinn, kona sem ætlaði að kæra þjófnað, hafi komið að lokuðum dyrum á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. „Ekki hægt að kæra þjófnaðinn. Enginn við. Búið var að staðsetja símann – líkt og hægt er með flesta síma í dag – þannig að konan einfaldlega fór sjálf og sótti hann í eitthvað greni í bænum,“ skrifar Snorri og bætir því við að þetta sé „þjónusta hins opinbera í hnotskurn“.
Stundin hefur áður fjallað ítarlega um niðurskurð og strangar aðhaldskröfur gagnvart lögreglu. Lögreglumönnum fækkaði á Íslandi um 10 prósent frá aldamótum til ársins 2014 og undanfarin ár hafa lögregluembætti gagnrýnt harðlega að bætt staða ríkissjóðs skili sér ekki betur í uppbyggingu löggæslunnar en raun ber vitni.
„Um margra ára skeið hefur lögreglan verið fjársvelt; lögreglumönnum, lögreglustöðvum og lögreglubifreiðum hefur fækkað, embætti hafa verið sameinuð, og á endanum hefur þetta auðvitað í för með sér minni og veikari löggæslu um land allt,“ sagði Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, þegar Stundin ræddi við hann haustið 2016. „Þetta gerist á meðan íbúum hefur fjölgað og fleiri ferðamenn streyma til landsins en nokkru sinni fyrr.“
Óljóst er af fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar hve mikil útgjaldaaukning er ætluð lögreglunni, en ljóst er að ekki er um háar fjárhæðir að ræða. Heildarútgjöld til almanna- og réttaröryggismála aukast um 18,2 milljarða á áætlunartímabilinu, þar af er 14 milljörðum varið til kaupa á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, og deilast hinir 4,2 milljarðarnir niður á landamæravörslu, ákæruvald og réttarvörslu, fullnustumál, réttaraðstoð og löggæslumál. Athygli vekur að í fjármálaáætluninni er tilgreint það markmið að árið 2023 verði lögregla í 90 prósentum tilvika tilbúin með laust og mannað ökutæki til að sinna brýnustu neyðarútköllum um leið og þau berast, svo sem þegar þörf er á lífsbjargandi aðstoð. Þannig telja stjórnvöld ásættanlegt að í 10 prósentum neyðartilvika geti lögregla ekki brugðist umsvifalaust við hjálparkalli þeirra sem þurfa á hjálp að halda.
Athugasemdir