Notendum aksturþjónustu fatlaðra var tilkynnt í gær að þjónustan myndi skerðast töluvert vegna landsleiksins í dag, þegar Ísland mætir Nígeru. Verktakar sem sjá um akstursþjónustuna fyrir Strætó bs. munu flestir taka sér frí meðan á leiknum stendur og munu því fáir bílar vera á ferðinni.
„Mér finnst þetta ekki ásættanlegt“
Notendur þjónustunnar eru hvattir til þess að flýta heimferð fyrir leikinn, sérstaklega þeir sem þurfi meiri þjónustu eða hafi lítið úthald, að því er fram kemur í tölvupósti frá Ás Styrktarfélagi, sem veitir um 200 manns þjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá Erlendi Pálssyni, sviðsstjóra Strætó, munu þeir bílar sem á ferðinni verða koma öllum heim, en heimferðin gæti dregist verulega á langinn.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir þetta ekki í lagi. „Mér finnst þetta ekki ásættanlegt með ferðaþjónustu fatlaðra. Þetta eru ekki einhverjar skyndiákvarðanir hjá fólki þegar það nýtir sér ferðaþjónustuna, það þarf yfirleitt að undirbúa sig með fyrirvara. Þannig að mér finnst þetta aldrei í lagi”.
Athugasemdir