Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Miðflokkurinn er stærsta popúlíska hreyfing Íslands

Blaða­mað­ur­inn Gabrí­el Benjam­in hef­ur ver­ið að rann­saka hug­tak­ið po­púl­isma frá byrj­un árs. Hann ger­ir grein fyr­ir þeim nið­ur­stöð­um sem liggja fyr­ir, en rann­sókn­in er enn í vinnslu.

Miðflokkurinn er stærsta popúlíska hreyfing Íslands
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Stofnaði Miðflokkinn eftir að hafa tapað sæti sínu sem formaður Framsóknarflokksins. Mynd: Pressphotos

Angar popúlisma teygja sig víða, og nú á 21. öld spretta blóm þessarar hreyfingar úti um allan heim. Forsetar, forsætisráðherrar, þingmenn og fleiri eru orðaðir við þessa hreyfingu, en þeir tilheyra ekki sama flokki eða tengslaneti, og lítið samráð virðist vera á milli þeirra.

Þeir kalla sig ekki sjálfir popúlista; orðið sjálft virðist vera baneitrað og er ósjaldan notað sem samheiti yfir lýðskrumara, öfgasinnaða hægri eða vinstri pólitík, eða þjóðernishyggju. Jafnvel þótt þessir stimplar eigi við í sumum tilvikum hjálpa þeir okkur ekki að skilja þessa hreyfingu. Popúlismi er samheiti yfir ólíkar stefnur og oft andstæðar, en bakvið hann er engu að síður viss hugmyndafræði sem hefur lengi verið til, en ekki náð fótfestu fyrr en á þessari öld.

Í kjölfar hnattvæðingar á tímum fjármagnskapítalisma og einkum eftir skell efnahagshrunsins fyrir áratug hefur eignarhald á verðmætum heimsins í síauknum mæli færst á hendur færri einstaklinga sem fara fyrir vikið með æ meiri völd. Þrátt fyrir að dregið hafi úr örbirgð víða um heim stendur velmegun í okkar heimshluta í stað eða verður ótryggari því það er erfiðara fyrir sístækkandi hóp að láta enda ná saman, hvað þá að uppfylla miðstéttardrauminn um að lifa þægilegu og öruggu lífi. Ungt fólk býr enn lengur í foreldrahúsum, með námslánaskuldir eða íbúðalánsskuldir vomandi yfir sér. Fleiri þurfa að vinna fleiri störf og lengri vinnudaga fyrir lægra kaup á sama tíma og framleiðsla og afköst aukast með hverju ári. Störfum í mörgum geirum fækkar vegna tækniþróunar, sem færir enn meira fé í vasa fyrirtækjaeigenda og minna til verkafólks.

Misskipting auðs er að aukast, og hvorki vinstri né hægri stjórnmálaflokkar virðast geta stemmt stigu við þeirri þróun – þvert á móti virðast hefðbundnir flokkar keppast við að þóknast fjármálaöflum sem borga fyrir dýrar kosningabaráttur þeirra. Leiðrétting innan hag- og peningakerfa virðist ekki duga lengur.

Öld ömurlega liðsins

Það er viss firring sem hefur náð kjölfestu í samfélaginu þar sem vaxandi hópur finnur fyrir mikilli fjarlægð frá hefðbundnum stjórnmálaflokkum. Þetta er þessi ömurlegi hópur (e. „the deplorables“) sem Hillary Clinton vísaði til í forsetakosningabaráttunni í Bandaríkjunum 2016, en það er einmitt talið að sá fjölmenni hópur hafi fylkt sér bakvið Donald Trump og tryggt honum sigur.
Gremja þessa ömurlega liðs hafði stigmagnast eftir átta ár undir stjórn Barack Obama.

Kosinn af þeim sem skildir voru eftirVelgengni Donald Trump hefur verið að hluta til rakið til þess að honum tókst að virkja reiði fólks sem var búið að fá nóg af hefðbundnum stjórnmálamönnum.

Obama var kosinn í byrjun kreppunnar með stefnuskrá sem einkenndist af von þegar allt virtist vonlaust; slagorð hans var Breyting sem við getur trúað á og Já, við getum það (e. „Change we can believe in“ og „Yes We Can“). Þrátt fyrir háleit loforð um framfarir var forsetatíð hans að mestu leyti án byltinga; efnahagsskútan réttist við og viðskiptalífið náði sér, en þrátt fyrir að réttindi hinna efnaminnstu hefðu aukist var kökunni ekki skipt upp á nýtt eins og margir höfðu vonast eftir.

Upplifun margra var að Obama hafi varið efnahagselítuna fremur en hagsmuni almennings, og arftaki hans, Hillary Clinton, var talin líkleg til að halda uppi þeirri stefnu. Áhangendur Bernie Sanders klufu í raun Demókrataflokkinn í tvennt með því að lýsa Clinton sem valdaelítu (e. „establishment“) andspænis hinum framsækna og róttæka Sanders.

Á hinum væng stjórnmála átti sér líka stað hallarbylting, en í stað þess að kjósa hefðbundinn frambjóðanda repúblikana, sem var í liði með viðskiptaelítu flokksins, var Trump valinn sem frambjóðandi flokksins. Hann lýsti sjálfum sér sem manni sem væri ekki hluti af spilltu elítunni í Washington, og að hann myndi berjast fyrir Jónum og Stínum landsins.

Atkvæði margra sem kusu Trump voru því uppreisn gegn óréttlátu kerfi og lögðu frekar traust sitt á mann sem hafði aldrei áður gegnt opinberu hlutverki. Í augum þessara kjósenda voru hefðbundnir vinstri flokkar ekki eitthvað til að treysta á. Þeir virtust ekki síður verða spillingu og hagsmunagæslu að bráð en hefðbundnir íhaldsflokkar. Auk þess birtust vinstri flokkar sem málsvarar menntaelítu sem berðist fyrir réttindum minnihlutahópa en gleymdu „litla manninum“ sem Trump sótti fylgi sitt til.

Trump Íslands

Á Íslandi var sagan svipuð þremur árum áður en Trump var kosinn. Fyrsta hreina vinstri stjórn Íslands hafði ekki verið afkastalaus og tekist að draga úr himinháum skuldum þjóðarbúsins, en það var gert með því að reisa við föllnu bankana í stað þess að uppfylla væntingar um að aflétta skuldabyrði, fram yfir ákveðin mörk. Frá janúar 2009 til loks nóvember 2011 voru rúmlega 2.200 fasteignir seldar nauðungarsölu í Hafnarfirði, Keflavík, og Reykjavík, en það eru fjórfalt fleiri eignir og á svipuðum tíma fyrir hrun.

Því er ekki ofsögum sagt að fjölmargir hafi misst heimili sín og staðið frammi fyrir mun verri kjörum en vonast hafi verið eftir þegar þessir flokkar voru kosnir. Á sama tíma urðu hinir ríku ríkari, og þeim tókst að halda í völd sín. Meðhöndlun ríkisstjórnarinnar á IceSave-málinu svokallaða var einnig mikið áfall fyrir marga þar sem hún virtist taka stöðu með fjármálaöflunum og gegn almennum borgurum.

Setti sig upp gegn elítunniSigur InDefence gegn IceSave samningunum var í senn sigur Sigmundar Davíðs og gaf honum orðstýr sem verndara Íslands gegn erlendum öflum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins þegar fyrsti IceSave-samningurinn var samþykktur af Alþingi, en Sigmundur var hávær meðlimur InDefence-hópsins sem barðist gegn ríkisábyrgð á IceSave-reikningum Landsbankans. Á meðan að valdhafar reyndu að selja þjóðinni að þessir samningar væru siðferðisleg skuld okkar allra var málinu stillt upp af InDefence-hópnum sem baráttu gegn ósanngjörnum skilmálum Breta og Hollendinga, sem átaka milli valdhafa og almennra þegna, elítunnar og almúgans. Sigur InDefence var einnig sigur Sigmundar, en hann endurskapaði Framsóknarflokkinn á þeim sjö árum sem hann var formaður hans og skilgreindi sig ítrekað sem málsvara almennings gegn erlendum hrægammasjóðum, gegn spilltri valdhafaelítu, og sem rödd alvöru Íslendinga.

Þessu viðhorfi og þessum töktum sem Trump og Sigmundur Davíð taka upp á á sinn eigin hátt deila þeir með mörgum öðrum sem eru bendlaðir við popúlisma að því leyti sem hann er andóf gegn valdaelítum, eins og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands; Bernie Sanders, forvalsframbjóðanda bandarískra demókrata fyrir forsetakosningarnar 2016; Marine Le Pen, leiðtoga frönsku Þjóðfylkingarinnar; Jeremy Corbyn, formann breska Verkamannaflokksins og fleiri.

Í skrifum Cas Mudde og Cristóbal Rovira Kaltwasser um popúlisma nefna þeir þrjár kjarnahugmyndir að baki popúlískra hreyfinga, en þær eru fólkið, elítan, og almannaviljinn. Slíkar hreyfingar einbeita sér gjarnan að Jónum og Stínum landsins, hreina og góða fólki samfélagsins sem vill bara vinna vinnuna sína, sjá sér og sínum farborða og lifa góðu lífi og vera gegnir borgarar. Það er nauðsynlegt fyrir svona hreyfingar að skilgreina sig í andstöðu við einhverja elítu sem fer með völd, en lykilatriðið er að þessi fjöldahreyfing sé að einhverju leyti beinn boðberi góða almenningsins gegn spilltu valdaelítum, hvort sem það eru peningaöfl, menntaelíta, fjölmiðlar, gráðugir innflytjendur eða aðrir hópar. Að lokum verður slík hreyfing að túlka með einhverjum hætti almannaviljann, en hann er ekki endilega almannavilji Jean-Jacques Rousseau, sem kom fram í samræðum allra borgara sem tóku þátt í að móta samfélag sitt, heldur er þessi almannavilji frekar byggður á einhvers konar almennri skynsemi sem allir sem eru ekki samdauna elítunum sjá skýrt.

Fylgið leiðtoganum

Annað einkenni popúlískra hreyfinga, samkvæmt Mudde og Kaltwasser, er að að baki þeim sé leiðtogi sem sé gæddur persónutöfrum og laðar að sér persónufylgi. Annars er þessum leiðtogum skipt í nokkra flokka, eins og heljarmennið með náðargáfu sem er gjarnan maður efnda, ekki nefnda, og sem gerir og talar eins og aðrir þora ekki. Slíkir leiðtogar vilja gjarnan verða alráðir og gera sig að körlum í krapinu með því að tala um íþróttir og beita kvenfyrirlitningu óspart. Ljósasta dæmið um slíkan leiðtoga er Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, sem er vellauðugur, heldur svallveislur og á fjölda fjölmiðla. 

Barðist gegn strákamenningu í pólitíkSarah Palin vakti mikla athygli þegar hún bauð sig fram sem varaforsetaefni Bandaríkjanna 2008, en taktar hennar eru gjarnan tengdir við popúlisma.

Konur geta líka verið leiðtogar popúlískra hreyfinga, en þær taka þá oft á sig kynjaðar hugmyndir um hvað er góð kona. Þær eru gjarnan sjálfskapaðar konur sem nýta sér kyn sitt til að benda á hvernig þær eru utanaðkomandi í leikjum elítunnar. Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana 2008, talaði til dæmis gjarnan um hvernig hún var á móti útilokandi strákamenningunni sem var ráðandi í bandarískum stjórnmálum; hún var því nátengdari fólkinu en elítunni því hún var ekki hluti af þessum strákaklúbbi. Jafnframt reyndi hún að karlgera sig með því að sýna sig sem útivistarmanneskju sem stundaði veiðar með strákunum í villtum víðernum Alaska.

Enn önnur gerð af popúlískum leiðtoga er utanaðkomandi innherjinn sem lítur ekki á sig sem atvinnustjórnmálamann, heldur nýgræðing sem hefur það eitt að markmiði að færa stjórnmál aftur til fólksins og í burtu frá spilltum atvinnustjórnmálamönnum.

Í raun og veru er slíkur einstaklingur oftast með sama bakgrunn, með sömu menntun og úr svipuðum forréttindahópi og aðrir stjórnmálamenn, og hefur verið virkur í stjórnmálum til lengri tíma. Dæmi um slíka leiðtoga eru til dæmis fyrrum forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, og fyrrum forseti Brasilíu, Collor de Mello.

Blórabögglar og einföld sýn á stjórnmál

Fræðimenn eiga sífellt í erfiðleikum með að ná utan um öll afbrigði popúlismahreyfingarinnar sem er sjálf í mótun. Á meðan að Mudde og Kaltwasser gefa okkur viðmið fyrir hvað er og hvað er ekki popúlismi, þá flækjast skilgreiningar annarra fræðimanna oft fyrir þeim. Til fleiri ára var popúlismi nátengdur þjóðernispólitík og fjölluðu margir um þessi tvö fyrirbæri eins og þau væru eitt. Á meðan að það getur oft verið raunin, þá er það ekki alltaf staðan í dag – á Íslandi daðra popúlískar hreyfingar oft við þjóðræknar hugmyndir, en þær forðast að tengjast þjóðernispólitík eins og Íslenska þjóðfylkingin eða Frelsisflokkurinn gera.

Margaret Canovan er breskur stjórnspekingur sem hefur verið að skrifa um popúlisma frá 9. áratugnum, en hún greinir meðal annars í skrifum sínum að popúlískar hreyfingar eigi það til að leggja gífurlegt traust á leiðtogann. Vonin er sú að sterkur leiðtogi geti komist hjá skriffinnsku og farið á svig við staðnaðar og spilltar stofnanir til að koma á réttlæti.

Í augum hennar líta popúlistar á hið pólitíska svið sem óþarflega flókið til að réttlæta allar stofnanirnar sem hafa myndast í kringum það. Svör popúlista við flóknum vandamálum eru því einföld, og reiða sig oft á blóraböggla sem geta verið ýktir eða ímyndaðir andstæðingar.

Þessi sýn á popúlisma á í mörgum tilvikum við, en nær ekki utan um margar vinstrisinnaðar hreyfingar sem passa inn í skilgreiningu Mudde og Kaltwasser. Berlusconi eða Trump eru iðulega uppvísir að einföldunum á vanda og lausnum þeirra, en það má ekki segja hið sama um Corbyn og Sanders, sem veigra sér ekki við að ræða og greina flækjustig vandamála sem stjórnmál fást við.

Því legg ég til að innleiða þessa sýn Canovan inn í skilgreiningar þeirra Mudde og Kaltwasser, að mið- og hægri sinnaður popúlismi bjóði gjarnan fram einfalda sýn á svið stjórnmála, og að það sé í raun nóg að gott fólk leysi vandamál sem þvælast fyrir spillta fólkinu.

Þar að auki má gjarnan sjá í rótgrónum einingum, eins og flokk repúblikana eða Framsókn, sem verða yfirteknar af popúlískum leiðtogum eða hreyfingum minnkandi áhuga og áherslu á hugmyndafræðilega nálgun að vandamálum og sögulega arfleifð flokksins. Sýn þessara nýju eininga verður þess í stað hnitmiðuð, einfölduð og gjarnan sett fram án mikils rökstuðnings. Allir andstæðingar verða sjálfkrafa hluti af elítunni, því það er engin önnur hugsanleg ástæða til þess að vera gagnrýninn eða sýna efasemdir.

Hrökklaðist frá völdumSigmundur fór úr því að vera hetja fólksins eftir IceSave yfir í tragíska fígúru eftir Panamaskjölin.

Popúlískur leiðtogi Íslands

Á þeim árum sem Framsóknarflokkurinn var undir leiðsögn Sigmundar Davíðs var hann kjörið dæmi um flokk sem var yfirtekinn af popúlískri hreyfingu. Flokkurinn var stofnaður fyrir rúmri öld og er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins. Þessi frjálslyndi miðjuflokkur hafði lengi barist fyrir réttindum bændastéttarinnar og hafði völd og ítök í krafti samvinnuhreyfingarinnar og einokunarstöðu sem hún hafði komið sér í, og hrundi með upplausn kaupfélaganna sem viðskiptavelda. Þrátt fyrir það tókst Framsóknarflokknum að viðhalda sér sem stjórnmálaafli, en hann kom sér í þá lykilstöðu að geta unnið bæði til vinstri og hægri, og hljóta nógu mikið fylgi til að komast í oddastöðu og ráða þannig hvaða flokkar kæmust til valda. Helmingaskiptareglan sem var við lýði tryggði flokknum áframhaldandi völd.

Staða flokksins veiktist á 21. öldinni, en Sjálfstæðisflokkurinn valdi til dæmis eftir alþingiskosningar 2007 að starfa frekar með Samfylkingunni en að taka Framsókn með sér í stjórn, þrátt fyrir að þeir flokkar ættu langa sögu saman í stjórnarstarfi og hefðu hlotið nógu mörg atkvæði til að mynda ríkisstjórn eftir þessar kosningar.

Þegar Sigmundur Davíð varð formaður flokksins janúar 2009 hafði hann aldrei setið á þingi og virkaði sem utanaðkomandi innherji. Faðir hans hafði verið þingmaður og hafði Sigmundur notið ýmissa forréttinda í lífi sínu, en hann stillti sér upp sem verndara íslenskrar menningar; íslenskt kjöt var til dæmis að hans mati gott og íslenskur matur almennt kjörinn megrunarkúr, en erlent kjöt var slæmt og fullt af toxoplasmosis sníkjudýrum.

Óháð skoðunum fólks á honum sem persónu færði Sigmundur ferskan blæ inn í flokk sem hafði staðnað og átti minna erindi til fólks. Eftir að nýta vel fjögur ár í stjórnarandstöðu varð hann forsætisráðherra 2013. Sú stjórnartíð sem tók við einkenndist einkum af kvörtunum hans og flokkssystkina út af stjórnarandstöðu sem var föst í pólitískum skotgröfum og vildi ekki aðstoða almúga landsins, þrátt fyrir að flokkur hans hafi sjálfur ítrekað beitt málþófi til að ná fram sínum vilja í stjórnarandstöðu.

Sigmundur Davíð var, líkt og Trump, óvæginn í garð fjölmiðla sem hann taldi snúa út úr orðum hans og voru samkvæmt honum annaðhvort að vinna fyrir innlenda eða erlenda efnahagselítu sem vildi koma höggi á hann. Viðtölum var neitað, ef fjölmiðlar höfðu fjallað gagnrýnið um hann, og þá var forðast að spyrja erfiðra spurninga.

Eftir eitt óvænt viðtal þar sem Sigmundur komst ekki hjá því að svara fyrir Wintris-fyrirtækið sem hann og kona hans áttu í skattaskjóli í Panama hrökklaðist Sigmundur frá völdum. Ári síðar sneri hann aftur inn á svið stjórnmála, þá formaður Miðflokksins sem hann stofnaði með öðru fyrrverandi framsóknarfólki.

Borin af víkingumVigdís Hauksdóttir endurtók marga af töktum formanns síns í kosningabaráttu Miðflokksins 2018, en þar stillti hún sér ítrekað upp gegn „spillta“ meirihlutanum.

Popúlískur leiðtogi Reykjavíkur

Miðflokkurinn fékk 775 fleiri atkvæði en Framsóknarflokkurinn í kosningunum 2017 sem má teljast merkilegt í ljósi þess að flokkurinn hafði ekki kynnt stefnuskrá sína fyrr en 13 dögum fyrir kosningar; kosningabarátta flokksins snerist um persónu Sigmundar Davíðs og fleiri áhrifamanna hins nýja flokks. Sérfræðingar sem rýndu í kosningarloforð Miðflokksins gáfu þeim næstlægstu einkunnina á eftir kosningaloforðum Flokki fólksins, en sagt var að Miðflokkurinn þyrfti að gera betur grein fyrir ýmsum útfærsluatriðum.

Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum vann Miðflokkurinn víða kosningasigur, og útrýmdi meðal annars Framsókn úr borginni. Miðflokkurinn hlaut 3.615 atkvæði, eða 6,1% af öllum atkvæðum, á meðan að Framsókn fékk aðeins 3,2%, eða 1.870 atkvæði, sem dugðu ekki til að ná fulltrúa inn.

Flokkarnir tveir deildu mörgum kosningaloforðum, eins og að bjóða frítt í strætó, vilja Sundabraut en vera á móti Borgarlínu, og að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni. Þeir voru líka mannaðir af fólki sem hafði ári áður tilheyrt sama baklandi, en eðlismunur var á oddvitavali þeirra, þar sem Vigdís Hauksdóttir var mun sjóaðri, umdeildari og hafði mun meira persónufylgi.  

Vigdís hafði verið varaþingmaður fyrir Framsókn frá 1996 og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn áður en hún settist á þing 2009 í Reykjavík suður kjördæminu. Hún bauð sig ekki fram aftur fyrir Framsókn 2016 þegar Sigmundur hrökklaðist frá völdum. Hún var opinber stuðningsmaður Sigmundar og hlaut oddvitasæti nýs flokks hans í borgarstjórnarkosningum.

Í kosningabaráttu skilgreindi Miðflokkurinn sig ítrekað út frá andstöðu við tillögur ríkjandi meirihlutans og var Vigdís mjög gjörn á að grípa fram í þegar talsmenn meirihlutans tjáðu sig í kosningaþáttum. Vigdís lofaði að finna 10–15 milljarða í kerfinu með því að taka til í því og fækka stjórnarstöðum í borginni. „Ég ætla að fara inn á hverja einustu skrifstofu og sjá hvernig er hægt að hagræða,“ sagði hún í viðtali við DV. Með því móti taldi hún að hægt væri að lækka útsvar á síðari hluta kjörtímabilsins.

Flokkurinn talaði ítrekað fyrir úthverfum borgarinnar, þar sem megnið af íbúum hennar eru staðsettir, eins og þeir hefðu verið hunsaðir af fráfarandi meirihluta; í kostulegu myndbandi útlistaði Vigdís öll þau hverfi sem hluta af Reykjavík. Hún var þar að auki umkringd stórum vopnuðum mönnum í víkingafötum, og kom sífellt fram í þjóðlegum fötum. Í lýsingu myndbandsins er talað um mikilvægi þess að byggja upp alls staðar í borginni, en hvergi er útlistað í kosningagögnum hvað á að byggja í hverju hverfi eða auka þjónustu, heldur er einungis talað um að leysa umferðarteppur með mislægum gatnamótum, umferðarljósum og/eða hringtorgum.

Þegar sérfræðingar rýndu í skipulagsstefnur framboða til sveitarstjórnakosninga gáfu þeir kosningaloforðum Miðflokksins 2 í einkunn, sem var fjórða versta einkunnin á eftir Frelsisflokknum (1,7), Höfuðborgarlistanum (1,3), og Borgin okkar - Reykjavík (1).

Þar að auki liggur fyrir að mörg kosningaloforð flokksins, eins og að leggja Sundabraut, hefði Vigdís getað komið í gegn þegar hún var þingmaður Framsóknar fyrir Reykjavík suður, og formaður fjárlaganefndar; hún lagði fram sex frumvörp þegar hún var í stjórn og engin þeirra tengdust kosningaloforðum Miðflokksins 2018 eins og Sundabraut, flutningi á Landspítala eða staðsetningu Reykjavíkurflugvallar.

Vigdís tjáði sig skýrt hvar sem hún kom fram, en líkt og formaður hennar lagði hún mest upp úr því að vera í andstöðu við elítur landsins og skriffinnskuvæðingu borgarinnar, upphefja íslenska arfleifð, bjóða fram óútskýrðar lausnir með óljósar skírskotanir til almannavilja til breytinga og vera málsvari ömurlega fólksins.

Vegurinn fram á við

Nú þegar búið er að útlista ýmis einkenni popúlískra hreyfinga og skoða dæmi um slíkt hér á Íslandi er kannski auðvelt að álykta að það beri að hafna slíkum hreyfingum. Þessi grein er hins vegar ekki skoðunarpistill ætlaður til að segja til um hvað sé gott og hvað slæmt, heldur er þetta útdráttur úr lengri fræðilegri ritgerð sem varpar ljósi á þetta alþjóðlega fyrirbæri. Popúlismi í sjálfu sér er hvorki góður né slæmur, heldur er þetta hreyfing sem er andsvar við staðnaðri stöðu stjórnmálaflokka sem standa í mikilli fjarlægð frá verkamanna- og miðstétt.

Í víðlesinni og merkri bók sinni um öld reiðinnar, Age of Anger, útlistar Pankaj Mishra þá gríðarlega miklu reiði sem býr í samfélaginu í dag. Spámenn sem reyna að beisla þessa reiði til að fá völd leita gjarnan að einföldum lausnum við flóknum vandamálum. Svör þeirra liggja oft í einhvers konar afturkalli til náttúrunnar og eðli mannsins; til hreinnar karlmennsku sem er ómenguð af femínisma, jafnrétti og málefnum hinsegin og trans fólks; til fráhvarfs frá alþjóðlegu samstarfi yfir í sjálfstæð ríki sem einbeita sér að sínum innri málum. Brexit og einangrunarstefna Trumps eru lýsandi dæmi um þessa þróun.

Það hefur myndast víðs vegar um heiminn stór hópur sömu gerðar og ömurlega liðið sem Clinton talaði um. Fyrir þessa hópa hafa vinstri flokkar, þessir sem ættu að berjast fyrir þeirra málum, farið að fjalla um efni sem eru þeim fjarlæg og ala á menntasnobbi, á meðan hægri flokkar hafa tengt sig of mikið við fjármálaöflin og of lítið við hinn almenna borgara. Því samsama sífellt fleiri sig við hreyfingar sem fjalla um mál sem varða þá, jafnvel þótt þær fjalli líka um eitthvað sem það samsamar sig síður við, eins og útlendingaandúð, karlrembu og svo framvegis.

Kosningabarátta eins og Miðflokkurinn háði 2017 og 2018 virkar best þegar umfjöllun fjölmiðla er í kappræðustíl þar sem á annan tug framboða keppast um athygli kjósenda og ekki er rýnt djúpt í stefnuskrár, viðhorf og kosningaloforð. Flokkar eins og Miðflokkurinn fá einnig mikið brautargengi þegar aðrar stjórnmálahreyfingar ná ekki að koma málum sínum frá sér á skýran hátt, og þegar þær tala ekki um mál sem hafa beint áhrif á þennan áðurnefnda stækkandi hóp kjósenda.

Ljóst er að gömlu flokkarnir þurfa að aðlagast og hvort sem þeim líkar það vel eða illa þurfa þeir að læra af popúlískum hreyfingum ef þeir vilja ekki hljóta sömu örlög og Framsóknarflokkurinn fékk í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum og verða úreltir.

Þessi hnattræna firring mun ekki hverfa á næstunni. Popúlismi hefur afhjúpað kreppu stjórnmála og hefðbundinna flokka sem berjast í bökkum við að tengjast þreyttum kjósendum.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Sveitarstjórnarkosningar 2018

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum
ÚttektSveitarstjórnarkosningar 2018

Laun ís­lenskra bæj­ar­stjóra hærri en í er­lend­um stór­borg­um

Árs­laun bæj­ar­stjóra Garða­bæj­ar og Kópa­vogs eru hærri en borg­ar­stjóra New York og London. Báð­ir bæj­ar­stjór­ar eru á hærri laun­um en for­sæt­is­ráð­herra. Laun bæj­ar­stjóra Kópa­vogs hækk­uðu um tæp 58% á kjör­tíma­bil­inu og laun bæj­ar­stjóra Reykja­nes­bæj­ar um 36%. „Allt órétt­læti mun kalla á meiri óánægju,“ seg­ir formað­ur stétt­ar­fé­lags­ins BSRB.

Mest lesið

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Fiskurinn sem fer um Belarús: „Ég mun ræða þetta“
5
Fréttir

Fisk­ur­inn sem fer um Bela­rús: „Ég mun ræða þetta“

Ferða­manna­laus­ir Þing­vell­ir í rign­ingu og roki voru vett­vang­ur einka­fund­ar Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráð­herra og Volodomír Selenski, for­seta Úkraínu, síð­deg­is á mánu­dag. „Við þurf­um raun­veru­leg­an stuðn­ing,“ sagði Selenskí á leið inn á fund­inn en virt­ist hissa þeg­ar hann var spurð­ur út í hvort út­flutn­ing­ur Ís­lend­inga á fiski til Rúss­lands í gegn­um bela­rúss­nesk­an milli­lið hefði bor­ið á góma.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár