Síðan ég sá grein um minnkandi kosningaþátttöku fólks af erlendum uppruna í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík núna fyrir nokkru hef ég verið hugsi yfir þessu málefni.
Beint lýðræði snýst nefnilega í grunninn um þátttöku. Og virk, skýr upplýsingagjöf er grundvallarforsenda þátttöku. Þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvað tiltekið mál, sett fram af hentisemi stjórnvalda án upplýstrar umræðu eða skýrs ferlis getur jafnvel gengið gegn markmiðum beins lýðræðis.
Til að beint lýðræði geti verið uppbyggilegt og gagnlegt skiptir fyrst og fremst máli að verklagið í ákvarðanatöku sé skýrt. Að vitað sé hvaðan frumkvæði að málum komi, hvaða stig séu á ferli þess, hvenær sé hægt að koma með athugasemdir eða fara fram á fundi með ábyrgðaraðilum. Hvenær sé hægt að fara fram á íbúafundi um málið og hvenær sé síðasti möguleiki á að fara fram á að málið sé sett í kosningu. Í góðum rekstri er mikilvægt að verkefni fari ekki á framkvæmdastig fyrr en þessu hefur verið sinnt, enda kostnaðarsamt að hætta við verkefni eftir þann tíma og ætti ekki að gerast nema forsendur breytist skyndilega töluvert.
Þetta er vel tilgreint í drögum að Lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar, sem var skrifuð á þessu tímabili og verður vonandi hægt að samþykkja á því næsta. Það mun vera lykilstefna í kosningabaráttu okkar Pírata.
En þátttaka sumra er ekki nóg.
Öll eigum við rétt á því að taka þátt í ákvarðanatöku sem okkur varðar. Þess vegna er ég sérstaklega hugsi yfir þessari frétt um kosningaþátttöku fólks af erlendum uppruna.
„Ef þau þekkja ekki Íslending sem getur hjálpað þeim gefast þau oft upp á að leita.“
Á fundum okkar með innflytjendum, og á pallborðinu sem við héldum um málefnið á Borgarþingi Pírata, kom í ljós að fólk af erlendum uppruna í Reykjavík upplifir það mjög sterkt að erfitt sé að nálgast upplýsingar um réttindi sín, úrræði og aðstoð á vegum hins opinbera, ekki síst á tungumáli sem þau skilja. Ef þau þekkja ekki Íslending sem getur hjálpað þeim gefast þau oft upp á að leita. Upplýsingar um íslenskunám, félags- og tómstundastarf, bætur, styrki og fleira heyra hér undir.
Margir vissu ekki einu sinni að innflytjendur í Reykjavík hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum ef þeir eiga hér lögheimili og hafa búið hér í fimm ár (þrjú ár ef þeir koma frá Norðurlöndunum), hvort sem þeir hafa íslenskan ríkisborgararétt eða ekki.
Hvernig getum við ætlast til að íbúar séu virkir þátttakendur í samfélaginu ef þeir þekkja ekki rétt sinn? Ef ferli ákvarðanatöku eru ekki opin og gegnsæ og upplýsingar aðgengilegar?
Meira að segja hatrömmustu andstæðingar innflytjenda vita að versta vandamálið í þeim málaflokki er einangrun og jaðarsetning. Stundum ýta þeir viljandi undir það til að gera vandamálið verra og afla málstað sínum stuðnings, en stundum trúa þeir bara ekki að það sé hægt að koma í veg fyrir það.
En það er hægt. Virkt, opið samfélag sem valdeflir alla íbúa til þátttöku í félagsstarfi, ákvarðanatöku og samfélagsverkefnum er langbesta leiðin til þess. Ekki bara fyrir innflytjendur og aðra sem byrja með skekkta stöðu og skert aðgengi, heldur fyrir okkur öll.
Af því að besta leiðin að virku, beinu lýðræði er virkni sem flestra, hvort heldur sem er grasrótarvirkni, virkni í stéttarfélagi eða hagsmunasamtökum, virkni í stjórnmálaflokkum eða tómstunda- og áhugamannahópum.
Við viljum að fólk taki þátt, að það kjósi, hvort sem það kýs okkur eða aðra. Að fólk bjóði sig fram, hvort sem það geri það hjá okkur eða öðrum flokki eða hreyfingu.
Við viljum tryggja öllum rétt til víðtækrar aðkomu að öllum málum er þau varða, eftir áhuga og getu. Innflytjendur hafa ekki bara hagsmuni af aðkomu að málefnum innflytjenda, þau hafa hagsmuni af stefnum í skólamálum, skattamálum og öðrum málum, rétt eins og aðrir. Eins hefur fólk með fötlun hagsmuni af öðrum málum en málefnum fólks með fötlun. Aldrað fólk hefur hagsmuni af öðrum málum en málefnum aldraðs fólks, hinsegin fólk hefur hagsmuni af öðrum málum en málefnum hinsegin fólks og svo framvegis.
Þá er ekki þar með sagt að allir þurfi alltaf að vera inni í öllu, auðvitað er það ekki hægt. En möguleikinn á að vera fyrir hendi, upplýsingar til staðar og möguleikar til inngripa skýrir. Kerfið á að vera opið og hvetjandi til þátttöku. Forvirkt í upplýsingagjöf.
Við Píratar höfum oft sagt að við séum ekki með svörin við öllu, við erum ekki komin af himnum ofan með allar lausnirnar. Það er kjarninn í okkar boðskap.
Það sem við viljum eru rétt vinnubrögð og réttar áherslur til að við getum öll unnið saman að lausn okkar mála.
Athugasemdir