Um síðustu helgi framdi Benny Fredriksson, fyrrverandi leikhússtjóri hjá borgarleikhúsinu í Stokkhólmi, sjálfsvíg. Fredriksson var á ferðalagi í Ástralíu með eiginkonu sinni, söngkonunni Önnu Sofie von Otter, þegar hann tók líf sitt.
Fredriksson stýrði leikhúsinu, Stadtsteatern, frá árinu 2002 til ársins 2017. Hann er almennt talinn hafa náð góðum árangri í að opna upp leikhúsið fyrir breiðari hópi fólks í borginni, fyrir sænskum almenningi, en ekki bara unnið að því að geðjast einhverri þröngri elítu leikhúsgesta. Fredriksson var með öðrum orðum alþýðlegur leikhússtjóri enda sjálfur langt í frá einhver forréttindamaður sem fæddist með silfurskeið í munni - móðir hans var ræstitæknir og faðir hans flutningabílstjóri - og talaði hann gjarnan um þennan bakgrunn sinn sem ástæðuna fyrir því að hann vildi opna sænskt leikhúslíf fyrir sem flestum.
Fredriksson sagði starfi sínu lausu sem leikhússtjóri í desember 2017 eftir að dagblaðið Aftonbladet hafði fjallað um harðan stjórnendastíl hans. Honum var meðal annars líkt við einræðisherra, þöggunarmenning var sögð ríkjandi í leikhúsinu og „allir“ starfsmenn leikhússins voru sagðir hræddir við hann. Greinar Aftonbladet byggðu meðal annars á um 40 viðtölum við núverandi og fyrrverandi starfsmenn leikhússins. Í greinunum var Fredriksson líka vændur um kynferðislega áreitni og var hann sagður hafa „þvingað“ konu í „fóstureyðingu“ án þess að útskýrt væri nánar hvernig það átti að hafa gerst. Tvær síðastnefndu ásakanirnar eru rangar en opinber rannsókn á stjórnendastíl Fredriksson, sem gerð hefur verið opinber að hluta eftir andlát hans, sýnir sannarlega fram á umdeildan stjórnendastíl hans.
Þegar Fredriksson sagði upp störfum tók hann samt framt að hann væri með góða samvisku og gaf því í skyn að hann hætti ekki vegna þess að hann væri sekur um eitthvað heldur vegna þess að hann vildi vernda leikhúsið sem hann stýrði. „Svo ég tali skýrt; ég læt af störfum með góðri samvisku. Ég er stoltur yfir því þeim árangri sem við höfum náð á þeim tíma sem ég hef verið leikhússtjóri. En nú hefur umræðan náð því stigi að leikhúsinu er ógnað.“
„Við þetta mynduðust sár hjá honum sem greru ekki.“
Fljótlega eftir að fréttir bárust af andláti Fredriksson kom fram að hann hefði tekið eigið líf. Í fréttatilkynningu frá borgarleikhúsinu sagði settur leikhússtjóri Statsteatern, Sture Carlsson, meðal annars: „Eftir að hafa varið 16 árum af lífi sínu í að leiða og byggja upp Kulturhuset Stadstteatern sagði Benny Fredriksson starfi sínu lausu í kjölfarið á fordæmalausum rógsherferð í fjölmiðlum. Það var bæði sorglegt og óréttlátt. Við þetta mynduðust sár hjá honum sem greru ekki. Það er mikill harmleikur.“
Líklega framdi Fredriksson sem sagt sjálfsmorð vegna þess að hann missti starf sitt eftir fjölmiðlaumfjöllun þar sem stjórnendastíll hans var gagnrýndur harðlega og hann var ranglega vændur um kynferðislega misnotkun og fyrir að láta konu fara í fóstureyðingu.
Umfjöllunina um Fredriksson verður að setja í samhengi við Metoo-herferðina sem gengið hafði mánuðina á undan opinberunum Aftonbladet. Borgarleikhúsið í Stokkhólmi hafði verið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna Metoo og hafði einn, gamall, karlkyns leikari meðal annars hætt að leika á fjölum þess eftir margs konar ásakanir um kynferðislega áreitni.
Í Svíþjóð gerðist það svo í Metoo-umræðunni, sem í grunninn snerist um kynferðisofbeldi gegn konum, að sú herferð leiddi til almennari umræðu og opinberana fjölmiðla um fyrirtækjamenningu og vinnuumhverfi stofnana. Þó að umfjöllunin um Metoo hafi leitt af sér umfjöllunina um Benny Fredriksson þá voru ásakanir um meinta kynferðislega áreitni hans aldrei kjarninn í þeirri umfjöllun eða útgangspunktur, enda engar sannanir eða vitnisburðir um slíkt þó ásakanir um kynferðisofbeldi hafi á einhvern óskiljanlegan hátt ratað inn í greinar Aftonbladet.
Í Svíþjóð spyrja nú margir þeirra spurningar hvort Aftonbladet hafi gengið of langt í umfjöllun sinni um Benny Fredriksson. Ef ávirðingarnar um kynferðislega áreitni, sem rannsóknarnefnd um störf hans í leikhúsinu hefur nú komist að niðurstöðu um að ekkert sé til í, og ef það er einnig líka rangt að hann hafi þvingað konu í fóstureyðingu, þá stendur eiginlega eftir að umfjöllun Aftonbladet snýst um harðan, kröfuharðan leikhússtjóra sem gat misst stjórn á skapi sínu og komið illa fram við fólk. Flestir þekkja eflaust stjórnendur sem eiga erfitt með að hemja skap sitt og hella sér jafnvel yfir undirmenn sína eða græta þá með hörku sinni. Fredriksson virðist, stundum að minnsta kosti, hafa verið stjórnandi sem stýrði með hræðsluna að vopni.
Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar um störf Fredriksson og andrúmsloftið í leikhúsinu er alls ekki einsleit eða einföld og kemur fram að sumir starfsmenn leikhússins hafi kunnað að meta kröfuharðan stjórnendastíl Benny Fredriksson en aðrir ekki. Fredriksson var ekki glæpamaður, barnaníðingur, morðingi, nauðgari, kynferðisbrotamaður og ekkert sem komið hefur fram bendir til að hann hafi gerst sekur um eitthvað í starfi eða einkalífinu sem flokkast sem lögbrot eða óforsvaranlegt siðleysi. Var rétt af Aftonbladet að fara svona hart í hann? Ef Fredriksson hefði gerst sekur um eitthvað af ofantöldum brotum þá færi umræðan um réttmæti greina Aftonbladet varla fram. En Fredriksson var saklaus af öllu slíku.
„Við vorum með alltof marga vitnisburði í höndunum til að láta ógert að fjalla um þau vinnustaðavandamál sem voru innan borgarleikhússins“
Á sama tíma og spurninga er spurt um réttmæti greina Aftonbladet þá er einnig ljóst að fáir halda því fram að fjölmiðlar eigi ekki að fjalla um stjórnendahætti forstjóra opinberra stofnana eins og Kulturhuset Statsteatern. Hvernig gekk Aftonbladet of langt í umfjöllun sinni ef blaðið gerði það? Í sænskum fjölmiðlum í síðustu viku kom meðal annars fram að Fredriksson hefði fengið upplýsingar um það frá rannsóknarnefndinni að hann hefði verið hreinsaður af ávirðingum Aftonabladet um meinta kynferðislega áreitni, enda voru þær ekkert undibyggðar í greinum blaðsins. Þannig að Fredriksson vissi þetta þegar hann tók þá ákvörðun að fremja sjálfsvíg.
Þá hefur menningarritstjóri Aftonbladet, Åsa Linderborg, sem ritstýrði greinunum og skrifaði hluta umfjallanirnar, viðurkennt að rangt hafi verið að segja að Fredriksson hafi þvingað konu til að fara í fóstureyðingu. Fyrir utan þessi mistök telur Linderborg ekki að blaðið hafi getað hagað umfjöllun sinni með öðrum hætti en það gerði: „Við vorum með alltof marga vitnisburði í höndunum til að láta ógert að fjalla um þau vinnustaðavandamál sem voru innan borgarleikhússins,“ segir hún í grein um málið á vefsvæði Aftonbladet.
Mál Benny Fredriksson er því nokkuð erfitt viðureignar og alls ekki svarthvítt. Umfjallanir Aftonbladet og annarra fjölmiðla um stjórnendatækni og óánægju innan opinberra stofnana eiga rétt á sér. Segja má að það sé beinlínis ein af skyldum fjölmiðla að taka slík mál fyrir enda hófu nær allir helstu miðlar Svíþjóðar umfjöllun um málið eftir að Aftonbladet sagði frá því í desember.
Á sama tíma er alveg ljóst að sjálfsvíg Fredriksson, og umræða um réttmæti og framsetningu á upplýsingum í greinum Aftonbladet, mun verða rætt lengi og hugsanlega setja svip á framtíð blaðsins og kannski til lengri tíma, fjölmiðlaumfjöllun í Svíþjóð um slík erfið mál. Frekari upplýsingar um líðan Fredriksson og túlkanir hans og mat á greinaskrifunum munu örugglega koma fram, rétt eins og það kom fram í gær að hann vissi að hann væri ekki lengur vændur um kynferðislega áreitni áður hann lést, og mun væntanlega hafa áhrif á hvernig Aftonbladet mun á endanum koma út úr þessu afar sorglega máli.
Athugasemdir