Fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi hyggjast á næstunni leggja fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í desember að hún hafi brotið lög við skipun dómara við Landsrétt.
„Það er hlutverk forsætisráðherra að vera með innanborðs fólk sem hún treystir og ég átta mig ekki á því hvernig hún getur treyst ráðherra sem í tvígang hefur verið dæmd,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og vísar þar í að embættisfærsla ráðherra var metin ólögleg á tveimur dómsstigum.
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa fundað um málið og hyggjast hittast aftur til að ræða hvernig standa skuli að tillögunni. Vonast þeir eftir breiðri samstöðu um vantrauststillöguna, að sögn Loga.
„Varðandi stuðninginn, þá býst ég við því að það hljóti að vera stuðningur líka frá einhverjum stjórnarliða,“ segir Logi. „Málið er bara þannig að það er bara næstum því óhugsandi að það muni allir bíta á jaxlinn og láta önnur sjónarmið en réttlætið ráða atkvæði sínu.“
Flokkarnir sem standa að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur innihalda 34 þingmenn af 63, en tveir þingmanna Vinstri grænna, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, studdu ekki stjórnarsáttmálann. Því er ljóst að hvert atkvæði stjórnarliða mun skipta máli í að verja dómsmálaráðherra vantrausti.
Óvissa verði dómurum gert að víkja
Umboðsmaður Alþingis lýsti því yfir í bréfi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir helgi að hann teldi ekki tilefni til að hefja frumkvæðisrannsókn á ákvörðunum dómsmálaráðherra vegna skipun dómara við Landsrétt. Nefndin hafði gert hlé á umfjöllun um málið 6. febrúar til þess að gefa umboðsmanni rými til að taka afstöðu til þess hvort hefja ætti slíka rannsókn.
Búist er við niðurstöðu Hæstaréttar í vikunni varðandi vanhæfniskröfu Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns gegn Arnfríði Einarsdóttur, eins þeirra dómara sem Sigríður skipaði við Landsrétt. Arnfríður er eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, sem vék úr oddvitasæti í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir Sigríði.
Verði Arnfríði gert að víkja mun töluverð óvissa skapast um þá fjóra dómara sem Sigríður skipaði en ekki voru taldir með þeim hæfustu að mati dómnefndar. Telji Hæstiréttur hana ekki þurfa að víkja er möguleiki á að málinu verði skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu.
„Ætlum við að horfa upp á það að allir dómar sem einstakir dómarar kveða upp á þeim tíma verði dæmdir ólöglegir?“
„Það er ljóst að hún stóð ekki rétt að þessu,“ segir Logi. „Í ljósi fordæma frá Evrópu, bæði frá EFTA og Mannréttindadómstólnum, í málum er varða skipan dómara og eru á engan hátt jafn alvarleg og þetta mál er, þá mun þetta mál geta skaðað okkur stórkostlega. Ætlum við að horfa upp á það að allir dómar sem einstakir dómarar kveða upp á þeim tíma verði dæmdir ólöglegir? Mun það kosta íslenska ríkið skaðabætur? Lágmarkið er auðvitað að dómsmálaráðherra víki þá.“
Sigríður nýtur trausts Katrínar
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, vakti máls á þessu og bréfi umboðsmanns í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Hún spurði forsætisráðherra hvort hún hefði áhyggjur af dómskerfinu og bæri traust til þess. „Nýtur dómsmálaráðherra trausts forsætisráðherra sem yfirmaður dómsmála á Íslandi?“ spurði Helga Vala. Hún taldi að ríkið gæti orðið skaðabótaskylt, fari málið alla leið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
„Ég ber almennt traust til dómskerfisins í landinu, ég geri það,“ svaraði Katrín. „Hvað varðar traust mitt á dómsmálaráðherra hæstvirtum þá ber ég fullt traust til allra ráðherra í þessari ríkisstjórn.“
Hún taldi að öðru leyti ekki ástæða til að framkvæmdavalið tjái sig um dómsmál áður en niðurstöður liggja fyrir. Katrín hefur áður gefið út að hún líti ekki á Landsréttarmálið sem afsagnarsök fyrir Sigríði Andersen. Í sama streng hafa tekið Bjarkey Olsen, formaður þingflokks Vinstri grænna og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fulltrúi flokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Athugasemdir