Alls vilja 72,5 prósent Íslendinga að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segi af sér sem dómsmálaráðherra, samkvæmt niðurstöðum nýrrar spurningakönnunar sem Maskína vann í samstarfi við Stundina.
Mikill styr hefur staðið um Sigríði eftir að Hæstiréttur Íslands staðfesti skömmu fyrir jól að hún hefði brotið lög síðasta sumar þegar hún vék frá mati sjálfstæðrar dómnefndar og handvaldi dómara í Landsrétt, nýtt millidómsstig, án þess að uppfylla þær kröfur sem á henni hvíla samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Þá greindi Stundin frá því í janúar að hún hefði jafnframt hunsað vísvitandi lögfræðiráðgjöf sérfræðinga í bæði dómsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu sem bentu ítrekað á að málsmeðferðin væri ófullnægjandi með tilliti til meginreglna stjórnsýslulaga. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur tekið embættisfærslur Sigríðar í Landsréttarmálinu til sérstakrar skoðunar og þá er umboðsmaður Alþingis með það til skoðunar að hefja frumkvæðisrannsókn á embættisfærslum ráðherrans.
92,4 prósent kjósenda VG vilja að Sigríður víki
Konur eru líklegri en karlar til að vilja að Sigríður segi af sér, en alls vilja 76,9 prósent kvenna að hún segi af sér en 68,3 prósent karla. Fólk á aldrinum 30 til 39 ára er líklegast til þess að vilja að hún segi af sér en 78,1 prósent fólk á því aldursbili segja að Sigríður eigi að segja af sér ráðherradómi. Þeir sem eru 60 ára og eldri eru hins vegar líklegastir til þess að vilja að hún sitji áfram sem dómsmálaráðherra en 34,1 prósent aðspurðra í þeim aldurshópi vilja að hún sitji áfram, en 65,9 prósent vilja að hún segi af sér.
Þá eru kjósendur Samfylkingarinnar líklegastir til þess að vilja að Sigríður segi af sér ráðherradómi, en allir aðspurðra sem sögðust kjósa Samfylkinguna vilja að hún segi af sér. Það kemur líklega ekki á óvart að kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru líklegastir til þess að vilja að Sigríður sitji áfram sem dómsmálaráðherra en 77 prósent kjósenda flokksins vilja að hún sitji áfram á meðan 23 prósent vilja að hún segi af sér.
Meirihluti kjósenda allra annarra flokka, nema Miðflokksins, vilja hins vegar að Sigríður segi af sér ráðherradómi. Athygli vekur að 92,4 prósent kjósenda Vinstri grænna vilja að Sigríður Andersen segi af sér ráðherradómi, en Vinstri græn voru meðal annars gagnrýnd fyrir það eftir kosningar að hafa ekki gert það að skilyrði við myndun ríkisstjórnar að Sigríður gegndi ekki aftur embætti dómsmálaráðherra í ljósi dóms héraðsdóms í Landsréttarmálinu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur hins vegar gefið út að hún líti ekki á Landsréttarmálið sem afsagnarsök fyrir Sigríði. „Hún situr bara áfram í ríkisstjórn,“ sagði Katrín í sjónvarpsfréttum RÚV þann 19. desember, eftir að Hæstiréttur staðfesti að Sigríður hefði brotið lög við skipun landsréttardómara.
Málsmeðferð í uppreist æru-málum einnig umdeild
Landsréttarmálið er ekki eina málið sem hefur verið erfitt fyrir Sigríði Andersen. Síðasta ríkisstjórn féll eftir að ráðuneyti hennar hafði leynt upplýsingum um uppreist æru kynferðisbrotamanna, þvert á fyrirmæli upplýsingalaga eins og úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti í september síðastliðnum. Kornið sem fyllti mælinn var þegar í ljós kom að Sigríður hafði sagt Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, einum frá aðkomu föður hans að uppreist æru barnaníðingsins Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Björt framtíð ákvað þá að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn vegna alvarlegs trúnaðarbrests í málinu.
Athugasemdir