Af einhverjum lítt þekktum ástæðum hefur pólska ríkisstjórnin nú kosið að beina athyglinni að þátttöku Pólverja í helförinni gegn gyðingum og ýmsum öðrum í síðari heimsstyrjöld. Það er hinn hálffasíski öfgaflokkur (ég veit ekki hvernig á öðruvísi að lýsa honum) Lög & réttlæti sem ræður ferðinni í Póllandi eftir að hafa náð þar hreinum þingmeirihluta og flokkurinn hefur oft vakið hneykslun erlendis síðustu árin fyrir stjórnlyndi sitt, sem og ritskoðunar- og kúgunartilburði sem samræmast vægast sagt afar illa nútímalegu lýðræðisríki.
Tugthús í þrjú ár?
Nú nýlega bárust svo þær fréttir að stjórnin hefði lagt fram frumvarp sem bannaði að viðlögðu fangelsi að orða Pólland, pólsk stjórnvöld og pólsku þjóðina við helförina. Og það frumvarp hefur nú verið samþykkt af pólska þinginu og forsetinn Andrzej Duda hefur sagt að hann muni staðfesta það til laga með undirskrift sinni, en vill að vísu að stjórnlagadómstóll líti á það fyrst.
Strax og fréttist af þessu frumvarpi fóru margir að hafa áhyggjur af áhrifum þess á tjáningarfrelsi og frjálsa umræðu um fortíðina, og þá vitaskuld einnig hvernig saga og fortíð eru túlkaðar í nútímanum.
Það vita allir sem vilja vita að margir Pólverjar báru ábyrgð á drápum margra gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni og hvernig í veröldinni gat pólsku stjórninni dottið í hug að setja lög til að sporna gegn umræðu um alkunn sannindi?
Á til dæmis núna að liggja við því fangelsisdómur að tala um fjöldamorðin í smáþorpinu Jedwabne 5. júlí 1941?
Brenndir inn í hlöðu
Þorpið er á því svæði Póllands sem lenti undir stjórn Sovétríkjanna eftir að þeir Hitler og Stalín limuðu Pólland sundur með griðasáttmála sínum í upphafi heimsstyrjaldarinnar.
Þegar Þjóðverjar hófu svo innrás sína í Sovétríkin 22. júní 1941 lenti Jedwabne mjög fljótt á þýsku yfirráðasvæði. Hálfum mánuði síðar voru framin hræðileg fjöldamorð í þorpinu er milli 300 og 400 gyðingar frá Jedwabne og ýmsum nágrannaþorpum voru myrtir. Flestir voru brenndir inni í hlöðu einni. Í pólskri sögu hafa fjöldamorðin í Jedwabne orðið gífurlega umdeildur atburður.
Lengi var því slegið föstu að pólskir íbúar Jedwabne hefðu framið þessi hryllingsverk nánast að eigin frumkvæði, bæði til að ganga í augun á hinum nýju þýsku húsbændum en einnig til að gera upp gamlir „sakir“. Engum blöðum er um það að fletta að gyðingahatur var bæði landlægt og heitfúðugt í Póllandi fyrir stríð. Fjöldamorðin í Jedwabne voru til dæmis þungamiðja í bókinni Nágrannar (Sąsiedzi) sem pólski sagnfræðingurinn Jan Gross gaf út 2001.
Hversu tregir gengu þeir til morða?
Í bók hans sátu pólskir íbúar Jedwabne tryggilega uppi með sökina á morðum á nágrönnum þeirra. Nú er að vísu svo að sú söguskoðun varð ansi umdeild. Mörgum Pólverjum fannst illt að sitja uppi með þessa sök og bentu á að nokkrir þýskir SS-menn hefðu verið viðstaddir þegar gyðingarnir voru drepnir. Það voru menn úr sérstökum morðsveitum – Einsatzgruppen – sem höfðu beinlínis það hlutverk að fylgjast með innrásarsveitum hersins og smala saman og drepa gyðinga, kommúnista og aðra þá sem þýskir nasistar litu á sem sína höfuðfjendur.
Margir telja að þessir SS-menn hafi gefið Pólverjunum í Jedwabne skipanir um fjöldamorðin og nánast neytt þá til að leggja eld að hlöðunni þangað sem börnum gyðinga, konum, körlum og gamalmennum hafði verið smalað. Nákvæmlega hve röggsamlega þessir SS-menn gengu fram verður kannski aldrei vitað héðan af. Það hefur að minnsta kosti ekki tekist að útkljá það að fullu þrátt fyrir margar rannsóknir á fjöldamorðunum.
En það virðist þó alveg ljóst að margir Pólverjanna sem tóku þátt í þessu gengu sannarlega ekki tregir til leiks og því virðist stórhættulegt tjáningarfrelsinu og rannsóknum á mannkynssögunni ef nú á allt í einu að liggja fangelsisdómur við því að segja Pólverja hafa átt sína sök á fjöldamorðunum í Jedwabne, hvort sem maður telur þá sök meiri eða minni.
Engin hætta á ferðum?
En talsmenn Laga & réttlætis segja að ekki sé hætta á því. Hinum nýju lögum sé í rauninni aðeins beint gegn þeim sem vilji varpa ábyrgð af sjálfri helförinni yfir á pólskar herðar. Nú er það svo að flestar hræðilegustu útrýmingarbúðir Þjóðverja í stríðinu voru staðsettar á pólsku landi.
Og menn Laga & réttlætis segja eitthvað á þessa leið: Lögunum er aðeins beint gegn þeim sem tala um „pólskar útrýmingarbúðir“ eða „helförina í Póllandi“ eða eitthvað álíka, því þannig sé Pólverjum fengin sú ábyrgð sem Þjóðverjar ættu að bera einir.
Annaðhvort er þessi skýring Laga & réttlætis einhvers konar tylliástæða eða þá að hún er byggð á algjörum misskilningi. Það vill nefnilega svo til að hvergi í nokkurri einustu marktækri heimild um atburði síðari heimsstyrjaldar er Pólverjum, sem þjóð eða ríki, kennt um helförina.
Ekki einu sinni í bókum sem fjalla opinskátt um gyðingahatrið í Póllandi og glæpi einstakra Pólverja gegn gyðingum.
Ef viðkvæmir Laga & réttlætismenn hafa einhvers staðar fundið orðalagið „pólskar útrýmingarbúðir“ þá er það í einhverjum svo ómerkilegum og illa unnum bókum eða vefsíðum að stjórnkerfi heils ríkis á ekki einu sinni að leiða að þeim hugann, hvað þá að fara að eltast við slíkt með lagasetningu og hótunum um fangelsi.
Frakkar hlýddu umyrðalaust
Ýmis af þeim ríkjum sem Þjóðverjar lögðu undir sig í síðari heimsstyrjöld mega sitja uppi með heilmikla skömm af því að hafa unnið með þýskum nasistum að helförinni. Þau áttu ekki frumkvæði að helförinni né skipulögðu hana en streittust ekki á móti þegar þeim var skipað að uppfylla sína „kvóta“ í gyðingadrápunum.
Hér dugir að nefna Frakkland. Franskt stjórnkerfi hlýddi Þjóðverjum meira og minna umyrðalaust hvað útrýmingu gyðinga snerti. Og fleiri ríki mætti nefna þar sem leppstjórnir settu gyðinga sína óhikað upp í lestirnar til Póllands.
Ekkert slíkt á hins vegar við um Pólland sjálft, þó ekki væri nema vegna þess að Pólland var alls ekki til sem nokkurs konar stjórnsýslueining í stríðinu. Það var ekki einu sinni á landakortinu. Hitler og nótum hans var svo illa við Pólverja að þar var engri leppstjórn komið á laggirnar, enda var ætlun þeirra beinlínis að útrýma Póllandi og að lokum sjálfri pólsku þjóðinni eins og hún lagði sig.
Að Pólverjar sem heild eða ríki beri því ábyrgð eða meðábyrgð á stríðsglæpum nasista er því einfaldlega fráleitt. Enginn málsmetandi sagnfræðingur né stjórnmálamaður, rithöfundur né fjölmiðill, hefur haldið þessu fram.
Hvers vegna er stjórn Laga & réttlætis þá að kveikja gagnrýni og tortryggni í sinn garð með lagasetningu og fangelsishótunum?
Margar þjóðir ekki gert upp fortíðina
Nú er ég vissulega enginn sérfræðingur í pólskum stjórnmálum eða hugsunarhætti. Hitt veit ég aftur á móti að margar af þjóðum Mið-Evrópu hafa ekki ennþá gert upp fortíð sína í stríðinu og þátt sinn í gyðingadrápunum, þótt 78 ár séu liðin frá því Rauði herinn frelsaði Auschwitz-búðirnar.
Þetta á ekki síst við um Litháa. Í höfuðborginni Vilníus er stórt og vel útbúið safn um kúgunina sem landsmenn sættu undir ægishjálmi Sovétríkjanna á sínum tíma. Uppi í skógi vaxinni hlíð í hálfgerðum bakgarði kúrir sig lítið safn sem haldið er úti af vanefnum um gyðingagettóið í Vilníus á stríðsárunum og hræðileg endalok íbúanna þar.
Mergurinn málsins er sá að þótt helförinni hafi verið stýrt og hún rekin áfram af Þjóðverjum, þá vita allir sem vilja vita að Litháar tóku af mikilli áfergju þátt í gyðingadrápunum. Og á það má varla minnast í Litháen enn í dag.
Hvað þýðir „pólska þjóðin“?
Þessa hefur líka gætt nokkuð í Póllandi, þótt Pólverjar hafi vissulega verið mun heiðarlegri en Litháar að þessu leyti. Spurningin er þá bara hvort hin nýju lög eru óþarfa viðkvæmni og þarflaust þing eða hvort þau eru merki um að þjóðernisofstopamennirnir í Lögum & réttlæti ætli sér að endurskrifa alla sögu Póllands í stríðinu upp á nýtt og þurrka þaðan út öll merki um þátttöku Pólverja í grimmdarverkum nasista, á þeim forsendum að ekki sé aðeins bannað að kenna „pólska ríkinu“ um heldur einnig „pólsku þjóðinni“.
Og það megi hugsanlega túlka mjög þröngt, svo það eigi ekki endilega við um þjóðina í heild, heldur bara litla hópa og jafnvel einstaklinga.
Og þar kennir vissulega margra og ljótra grasa. Fjöldamorðin í Jedwabne eru ekki einu dæmin um þátttöku Pólverja í gyðingadrápum. Þau eru miklu fleiri og í mörgum tilfellum var engan veginn hægt að halda því fram að Pólverjarnir hefðu neyðst til illverka að skipan Þjóðverja.
Vera má að nýleg athygli sem bók eftir pólska sagnfræðinginn Jan Grabowski vekur eigi einhvern þátt í lagasetningunni nú. Hún kom raunar fyrstút í Póllandi 2011 en hefur verið að spyrjast út að undanförnu. Árið 2016 fékk bókin góða dóma í Þýskalandi og það vakti slíka reiði hægriöfgavefsíðu í Póllandi að Grabowski var líkt við Goebbels áróðursmálaráðherra þýskra nasista. En Grabowski er raunar af gyðingaættum og kennir nú við háskóla í Kanada.
Gyðingaveiðar
Bók hans heitir Gyðingaveiðar: Svik og morð í Póllandi undir stjórn Þjóðverja. Þar leitast hann við að gefa eins greinargott yfirlit og hægt er yfir þau illvirki sem Pólverjar frömdu á gyðingum í heimsstyrjöldinni.
Og skemmst er frá því að segja að Grabowski kemst að þeirri niðurstöðu að pólskir einstaklingar og hópar (best að segja ekki „Pólverjar“ svo það verði ekki túlkað sem þjóðin!) hafi annaðhvort drepið eða beri beina ábyrgð á dauða að minnsta kosti 200.000 gyðinga.
Nú hef ég auðvitað engar forsendur til að meta áreiðanleika þeirra talna sem Grabowski teflir fram í bók sinni. En ég veit ekki til þess að sagnfræðingar hafi efast að neinu ráði um þær. Grabowski gaf reyndar sjálfur til kynna í viðtali við ísraelska blaðið Haaretz á síðasta ári að hann teldi að talan kynni að vera mun hærra, en þessi 200.000 væri það sem hann treysti sér til að standa við.
Í bókinni nefnir Grabowski mörg hræðileg dæmi. „Veiðarnar“ sem hann vísar til í titli sínum hófust árið 1942 þegar Þjóðverjar byrjuðu að flytja gyðinga úr lokuðum gettóum borga og bæja í útrýmingarbúðirnar. Rúmlegar þrjár milljónir gyðinga höfðu búið í Póllandi fyrir stríð og talið er að að minnsta kosti 10 prósent hafi sloppið úr gettóunum, kannski töluvert fleiri.
Grabowski tekur dæmi af héraðinu Dabrowa Tarnowski í suðausturhluta Póllands. Þar bjuggu 5.000 gyðingar og þegar flutningar á þeim hófust í dauðabúðirnar Belzec náðu 500 að sleppa og földu sig meðal Pólverja.
38 á lífi af 500
Í stríðslok voru 38 þeirra á lífi. Hinir voru að yfirgnæfandi hluta drepnir beint eða óbeint af Pólverjum í Judenjagd sem Þjóðverjar komu á fót og kölluðu þessu nafni, Gyðingaveiðar. Þjóðverjar veittu verðlaun Pólverjum sem drápu eða komu upp um gyðinga og þannig létu margir lífið.
Aðrir gyðingar voru í felum hjá pólskum nágrönnum fyrir gjald en þegar peningarnir voru búnir voru þess dæmi að Pólverjarnir köstuðu þeim út á gaddinn eða jafnvel drápu þá. Sögurnar sem Grabowski segir eru margar hræðilegar en sögur af þessu tagi verður að segja og það er óskandi að hin undarlega lagasetning pólsku stjórnarinnar hafi ekki það leynilega markmið að bæla niður umræðu eins og þá sem Grabowski og Gross standa fyrir.
Það má nefna fleiri bækur, Glæpurinn og þögnin eftir Önnu Bikont og Bloodlands og Black Earth Timothy Snyders, þótt hann fari víðar um tíma og rúm en bara um Pólland stríðsáranna. En nú hefur misráðið frumvarp Laga & réttlætis einmitt orðið til að rifja upp þau grimmdarverk sem framin voru af pólsku fólki á stríðsárunum.
Rúmlega 6.500 „réttlátir meðal þjóðanna“
Það er að mörgu leyti miður því í pólskri sögu frá stríðsárunum er líka að finna miklar hetjusögur þar sem Pólverjar lögðu líf sitt í hættu og fórnuðu sumir lífinu til að bjarga nágrönnum sínum af gyðingaættum. Í Ísrael hefur í áratugi verið haldið úti sérstökum viðurkenningum til handa þeim sem sannanlega björguðu lífi eins eða fleiri gyðinga á tímum helfararinnar.
Þeir sem þessa viðurkenningu fá kallast „réttlátir meðal þjóðanna“. Rúmlega 26.500 manns teljast nú hafa verið réttlátir meðal þjóðanna og af einstökum eru Pólverjar flestir, 6.706 þegar síðast fréttist, en næstir voru 5.595 Hollendingar. Sjálfsagt lögðu töluvert fleiri Pólverjar gyðingum mikilvægt lið þótt um það séu ekki til sannanir, en meðal frásagna um hina réttlátu eru margar hrífandi sögur um hugrekki og fórnarlund.
Réttlæti pólska stjórnarflokksins virðist hins vegar nokkuð annað. Kannski er lagasetningin fyrst og fremst klækjabragð til að venja Pólverja við ritskoðun um hvaðeina sem vondri ríkisstjórn kemur í hug. Sé svo, þá er það sorglegt klækjabragð.
Athugasemdir