Það var eitt miðvikudagskvöld í apríl í síðari heimsstyrjöldinni að sveit breskra Lancaster sprengjuflugvéla hefur sig á loft frá flugvelli á Englandi. Lancaster vélarnar voru stórar og miklar og gátu borið ókjör af sprengjum en í þetta sinn var aðeins ein sprengja um borð í hverri þeirra.
Sú sprengja var reyndar engin smásmíði, heldur 5 tonna skrímsli, kallað Tall Boy, en sérstaklega hannað til að grafa sig í jörð eða brjótast í gegnum steinsteyptar sprengjuvarnir áður en hún sprakk.
Hinar svartmáluðu Lancaster vélar röðuðu sér upp í fylkingu og tóku svo stefnu í austsuðaustur. Þau flugu 1.000 kílómetra leið og voru þá staddar yfir Berchtesgaden, þorpinu þar sem var Berghof, fjallasetur Adolfs Hitlers í Ölpunum.
Þar slepptu þær Stóru strákunum sínum í von um að einhver þeirra myndi verða Hitler foringja Þýskalands að bana.
Þetta var fyrsta raunverulega tilraun Breta til að fyrirkoma Hitler.
Árangur af árásinni var lítill. Fjöllin voru hulin skýjum og sprengjurnar misstu flestar marks. Ein sundlaug var eyðilögð. Og Hitler var ekki á staðnum, hann var í neðanjarðarbyrgi sínu í Berlín og reyndar búinn að vera þar vikum saman þegar loftárásin var gerð.
Hermann Göring, einn af helstu aðstoðarmönnum hans, var eini háttsetti nasistinn í Berchtesgaden en hann slapp óhultur frá árásinni.
Ekki bætti úr skák hjá flugsveitinni þegar einn flugmannanna slökkti fyrir mistök á þremur af fjórum hreyflum einnar Lancaster-vélarinnar, en annar flugmaður neyddist til að nauðlenda vélinni frekar en að áhöfnin kastaði sér út í fallhlíf því einn flugliði hafði rifið fallhlífina sína og gleymt að taka með sér varafallhlíf.
Svo þetta var engin frægðarför.
Það sem er hins vegar einna merkilegast er hvenær þetta gerðist.
Þetta var semsé 25. apríl 1945. Stríðinu var alveg að ljúka og löngu ljóst hvernig færi.
Og spurningin hlýtur að vera sú: Hvers vegna hafði slík árás ekki verið gerð löngu fyrr, þegar virkilega var möguleiki á að takast mætti að stytta stríðið með því að drepa Hitler?
Þessarar spurningar er spurt í nýrri bók um sögu breska flughersins í síðari heimsstyrjöld, Air Force Blue eftir Patrick Bishop.
Og eftir að hafa grafið í skjölum breskra flughersins, þá er svar Bishops að það hafi vissulega oft verið rætt að gera loftárás á Arnarhreiður Hitlers.
Flugsveitarforingjarnir hafi greinilega talið það vel gerlegt en æðstu menn, það er að segja stjórnmálamenn, hafi hins vegar ævinlega lagt bann við slíkum tilraunum, fyrr en þarna rétt áður en stríðinu lauk.
Og ástæðan var sú að þessir æðstu menn - væntanlega Churchill og nánustu félagar hans - hafi óttast að ef tækist að drepa Hitler í loftárás, þá kæmi bara til skjalanna einhver hæfari og skynsamari herstjóri en hann.
Einhver sem yrði hættulegri andstæðingur.
Skárra væri að sitja uppi með Hitler sem treysta mætti til að taka nærri ævinlega rangar ákvarðanir.
Að minnsta kosti þegar nokkuð var liðið á stríðið.
Það er viss lógík í þessu. En kannski hefði samt mátt stytta stríðið eitthvað með slíkri loftárás.
Byggt á ritdómi um bók Bishops í TLS eftir Osman Durrani
Athugasemdir