Frændfólk og fyrrverandi viðskiptafélagar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og þáverandi forsætisráðherra, töldu á sér brotið vegna umfjöllunar Stundarinnar um viðskipti forsætisráðherra og fjölskyldu hans í kringum bankahrunið 2008.
Þetta kemur fram í yfirlýsingum sem lagðar voru fram af hálfu Glitnis HoldCo í staðfestingarmálinu sem höfðað var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna lögbanns á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavik Media upp úr gögnum frá Glitni banka.
Í varakröfum Glitnis HoldCo var farið fram á að staðfest yrði lögbann sem tæki fyrst og fremst til upplýsinga um fjárhagsmálefni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, fjölskyldu hans og viðskiptafélaga. Stundin og Reykjavik Media voru sýknuð af þessum kröfum sem og öðrum í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í dag.
Töldu upplýsingarnar ekki eiga erindi við almenning
Fram kom í greinargerð lögmanna Stundarinnar, sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna lögbannsmálsins þann 31. október 2017, að við vinnslu frétta um fjármálagjörninga Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans hefði verið haft samband við aðila sem fjallað var um en viðkomandi kosið að tjá sig ekki. Af þessu tilefni gáfu bróðir, föðursystkini og frændfólk Bjarna Benediktssonar út yfirlýsingar um að ekki hefði verið haft samband við þau þótt vikið hefði verið að viðskiptum sem þau áttu aðild að í umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media.
„Ég, undirritaður, Jón Benediktsson [...], kem fyrir í umræddri umfjöllun. Þar voru birtar upplýsingar um mína persónu og fjárhag, sem ég tel að hafi brotið gegn lögvörðum réttindum mínum, enda áttu þær ekkert erindi við almenning,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá bróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Sama orðalag kemur fyrir í yfirlýsingum frá frændfólki ráðherra; Einari Sveinssyni, Guðrúnu Sveinsdóttur, Sveini Benediktssyni, Ingimundi Sveinssyni, Benedikt Einarssyni og Ástu Sigríði Einarsdóttur, en jafnframt frá viðskiptafélögum þeirra: Hermanni Guðmundssyni, Halldóri Teitssyni og Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur. Öll eiga þau sammerkt að hafa komið fyrir í frétt Stundarinnar um yfirtöku Engeyinga á Olíufélaginu hf. árið 2006, en í fréttinni var greint frá því að kaupin hefðu verið nær alfarið fjármögnuð með kúlulánum frá Glitni. Þau benda á að ekki var haft samband við þau áður en fréttir birtust. Bjarni Benediktsson var í forsvari fyrir fjárfestahópinn og kaus að tjá sig ekki við Stundina þegar eftir því var leitað.
Engeyingar tilgreindir sérstaklega í stefnunni
Í stefnu Glitnis HoldCo gegn Stundinni og Reykjavik Media er sérstaklega tilgreint að fyrirferðamest í umfjölluninni hafi verið „hagsmunir og samskipti forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, en einnig hafi verið fjallað um fjölmarga aðra nafngreinda einstaklinga, persónuupplýsingar um þá og upplýsingar um hagsmuni þeirra. Þetta hafi verið þau Benedikt Sveinsson, Einar Sveinsson, Benedikt Einarsson, Guðrún Sveindóttir, Ingimundur Sveinsson, Jón Benediktsson, Sveinn Benediktsson, Hermann Guðmundsson, Hjalti Geir Kristjánsson, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Ásta Sigríður Einarsdóttir. Þá hafi jafnframt verið fjallað um fjárhagsmálefni lögaðila sem höfðu verið viðskiptamenn stefnda, til að mynda N1 hf., Hrómundur ehf, Hafsilfur ehf., BNT hf., Hængur ehf. og Hólmur ehf.“
Fram kemur að Glitnir HoldCo hafi talið útilokað að tryggja lögvarin réttindi og hagsmuni sína og viðskiptamanna sinna án þess að krefjast lögbanns á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavik Media.
Stefnandi hafi talið illmögulegt að áætla um hversu marga viðskiptamenn hefðu ellegar verið birtar upplýsingar án lögbanns. „Í því sambandi bendir stefnandi á að í nýlegri frétt stefndu hafi verið að finna upplýsingar um lánveitingar til svokallaðra „Engeyinga“ og viðskiptafélaga þeirra.“
Í varakröfu Glitnis Holdco, sem kom fram þann 18. desember síðastliðinn, er farið fram á að staðfest verði lögbann sem taki einvörðungu til rúmlega þúsund skjala sem tilgreind eru og sögð úr kerfum Glitnis. Þetta eru einkum gögn sem hafa að geyma upplýsingar um viðskipti Bjarna Benediktssonar, frændfólks hans og viðskiptafélaga þess, en jafnframt varðar stór hluti gagnanna félagið Kristinn ehf., félag Guðbjargar Matthíasdóttur útgerðarkonu í Vestmannaeyjum og eins stærsta eiganda Morgunblaðsins til margra ára.
Fyrirvari: Fjölmiðillinn Stundin er aðili að lögbannsmálinu sem hér er fjallað um.
Athugasemdir