Sigríður Andersen dómsmálaráðherra lagði áherslu á það á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun að það væri Alþingi sem hefði farið með ákvörðunarvaldið og skipunarvaldið þegar skipaðir voru dómarar við Landsrétt. „Þingið hafði ákvörðunarvaldið. Það skiptir nú öllu máli. Það hafði skipunarvaldið,“ sagði ráðherra. „Alþingi klárlega ber ábyrgð á skipuninni, það er Alþingi sem staðfesti skipunina.“
Þessi málflutningur stangast á við sjónarmið sem ráðherra setti fram á Alþingi síðasta sumar þegar rætt var um skipun Landsréttardómara, en jafnframt gengur hann í berhögg við þá lagatúlkun sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði til grundvallar í áliti sínu um um tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt sem lagt var fram þann 31. maí 2017. Í álitinu er einvörðungu talað um ráðherra sem veitingarvaldshafa í málinu en ekki Alþingi.
Sjálf sagði Sigríður Andersen í umræðum um málið á þinginu 31. maí 2017: „Það er ráðherra sem hefur veitingarvaldið og ber á því ábyrgð, bæði pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð.“ Þegar Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi rökstuðninginn sem fylgdi tillögu ráðherra til Alþingis um dómaraefni sama dag sagði Sigríður: „Það kann að vera að háttvirtur þingmaður sé ekki sáttur við niðurstöðuna. Hann þarf þá að eiga það við sig en ráðherrann ber ábyrgðina.“ Að sama skapi sagði Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins: „Ráðherra ber stjórnskipulega, lagalega og pólitíska ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hann tekur.“
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, benti á það á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar áðan að málflutningur ráðherra hefði tekið stakkaskiptum að því er varðar ábyrgð Alþingis annars vegar og ábyrgð ráðherra hins vegar. „Ráðherra sagði margoft að hún bæri ein ábyrgð á þessu máli. Nú vill hún varpa þessari ábyrgð til þingsins,“ sagði hann.
Athugasemdir