Starfsfólk Sjálfstæðisflokksins hafði afskipti af dreifingu kynningarefnis fyrir framboð Áslaugar Friðriksdóttur í leiðtogaprófkjörinu í Reykjavík á hádegisfundi Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna, í Valhöll í gær.
Ástæðan er sú að utankjörfundaratkvæðagreiðsla var í gangi í sömu byggingu meðan á fundinum stóð og áróður er bannaður á kjörstað.
Áslaug segir í samtali við Stundina að sér hafi komið á óvart að hún mætti ekki kynna framboðið sitt á fundinum, enda hafi atkvæðagreiðslan farið fram á annarri hæð í byggingunni.
Hún tekur fram að venjulega hafi Hvöt staðið að sérstökum fundi fyrir kvenframbjóðendur í Reykjavík, en nú hafi hún verið eina konan sem var í framboði.
Haldinn hafi verið hádegisfundur um nýsköpun í opinberri þjónustu og sér verið boðið að halda erindi ásamt fleiri sjálfstæðiskonum.
„Kannski eru menn eitthvað að fara á taugum. Ef svo er ég þá lít ég á þetta sem styrkleikamerki fyrir mitt framboð,“ sagði Áslaug í gær þegar Stundin og Vísir.is greindu frá því að hann hefði verið meinað að halda erindi á fundinum á þeim grundvelli að áróður á kjörstað væri bannaður.
„Það er langt síðan fundurinn var auglýstur og það hefði þá átt að gera athugasemd við þetta fyrr,“ segir Áslaug í samtali við Stundina og staðfestir að höfð hafi verið afskipti af dreifingu hennar á kynningarefni. Hún segist hafa talið sig vera í fullum rétti til að dreifa slíku efni á fundinum, enda væri kjörstaður ekki á þeirri hæð sem fundurinn fór fram heldur á annarri hæð í byggingunni.
Athugasemdir