Sjö þingmenn sátu hjá þegar Alþingi greiddi atkvæði um veitingu ríkisborgararéttar í nótt. Þetta voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson úr Miðflokknum, Karl Gauti Hjaltason úr Flokki fólksins, Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og loks Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra úr sama flokki.
Afar óvenjulegt er að svo margir þingmenn sitji hjá þegar greidd eru atkvæði um veitingu ríkisborgararéttar. Þetta er kannski til marks um viðhorfsbreytingu í íslenskum stjórnmálum, en athygli vakti í haust þegar fyrrverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði að það hefði verið „slæm ráðstöfun“ að veita austur-evrópskum fjölskyldum með langveik börn ríkisborgararétt.
Af þeim sjö þingmönnum sem sátu hjá við veitingu ríkisborgararéttar í nótt var Sigríður Andersen sú eina sem gerði grein fyrir atkvæði sínu. Hún hefur áður setið hjá í sams konar málum og útskýrt afstöðu sína.
„Alþingi veitir ríkisborgararétt með lögum. Sú heimild verður auðvitað ekki af Alþingi er tekin, hún er eðlileg. Að mínu viti verður þó sú veiting að vera með sýnilega nægum rökum og ég tel þá afgreiðslu þingsins eins og hún hefur verið hér í framkvæmd undanfarin ár ekki í samræmi við þá stjórnsýslu og það gagnsæi sem best yrði á kosið,“ sagði hún í nótt. „Ég hef áður boðað breytingu á lögum um ríkisborgararétt og vonast til að fá tækifæri til að kynna það hér, vonandi á vorþingi, en ég tel fara betur á því að þetta sé afgreitt með öllum hætti í stjórnsýslunni. Að þessu sögðu vil ég hins vegar óska öllum þeim einstaklingum sem hér er veittur ríkisborgararéttur til hamingju með ríkisborgararéttinn ásamt þeim rúmlega 500 einstaklingum sem hefur verið veittur ríkisborgararéttur á þessu ári.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, svaraði dómsmálaráðherra og fannst kaldhæðnislegt að hún, hafandi sjálf gerst brotleg við stjórnsýslulög við skipun dómara með stuðningi Alþingis, væri að kalla eftir því að farið yrði í auknum mæli eftir stjórnsýslureglum.
„Til þess að róa aðeins áhyggjur hæstvirts dómsmálaráðherra þá lagði undirnefndin sem hér lagði fram þessi nöfn og þessa einstaklinga sig einstaklega vel fram við að vinna faglega að þessu máli. Veiting ríkisborgararéttar í gegnum þingið er geðþóttaákvörðun. Stjórnsýslureglur gilda ekki um það. Þær gilda hins vegar um embættisathafnir ráðherra... sem ætti að sjá sóma sinn í að greiða atkvæði með tillögu sem hún er að óska fólki til hamingju með,“ sagði Þórhildur.
Fram kemur í greinargerð frumvarps allsherjar- og menntamálanefndar um veitingu ríkisborgararéttar að borist hafi 125 umsóknir um ríkisborgararétt á haustþingi. Nefndin lagði til að 76 umsóknir yrðu samþykktar og viðkomandi einstaklingum þannig veittur ríkisborgararéttur.
Athugasemdir