50 milljónum verður varið til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og nýs loftslagsráðs árið 2018 samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, eða 20 milljónum meira en til stóð samkvæmt fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar. Þingflokkur Samfylkingarinnar gagnrýnir þetta í fréttatilkynningu og hæðist að því að „hið vel kynnta átak ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum [fái] heilar 20 milljónir“. Þá sé ekki gert ráð fyrir aukningu fjárframlaga til skógræktar frá fyrra frumvarpi.
Eins og Stundin greindi frá í morgun verða tekjur af kolefnisgjaldi, olíugjaldi og vörugjaldi af ökutækjum verða samtals 4,5 milljörðum minni í fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar en til stóð samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrri stjórnar. Hér vegur þyngst að kolefnisgjald hækkar helmingi minna en ráðgert var.
Þetta hefur komið nokkuð á óvart í ljósi háleitra markmiða í loftslagsmálum sem sett eru fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þar kemur m.a. fram að ríkisstjórnin ætli að „gera betur en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040,“ og að skattheimta skuli þjóna loftslagsmarkmiðum.
Svo virðist þó af nýframlögðu fjárlagafrumvarpi að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætli að leita annarra leiða til grænnar skattheimtu en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafði í hyggju.
Samkvæmt stjórnarsáttmálanum verður loftslagsráð sett á laggirnar og „aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda tímasett og fjármögnuð“. 50 milljóna fjárframlag fylgir þessu verkefni á fjárlagaárinu 2018, en alls verða útgjöld hins opinbera vegna umhverfismála um 330 milljónum meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar.
Athugasemdir